„Fjárhættuspil í íslensku samfélagi eru ótrúlega aðgengileg“

Jón Þór Kvaran er gestur í hlaðvarpsþættinum Spilavandi.
Jón Þór Kvaran er gestur í hlaðvarpsþættinum Spilavandi. Ljósmynd/Samsett

„Þessi vandi er náttúrulega ótrúlega falinn inni í fangelsinu,“ segir Jón Þór Kvaran, áfengis- og vímuefnaráðgjafi á Litla-Hrauni í viðtali við hlaðvarpsþáttinn Spilavandi. Í þættinum er rætt almennt um spilafíkn, fjárhættuspil, spilafíkn í fangelsum, úrræði og afleiðingar.

Jón Þór hefur starfað í tíu ár í meðferðareiningu á Litla-Hrauni þar sem pláss er fyrir ellefu einstaklinga á hverjum tíma. Í gegnum það starf hefur Jón Þór rekið sig á að fangar sem leita sér hjálpar út af vímuefnavanda eru líka haldnir spilafíkn, þó það sé ekki sérstaklega skimað fyrir þeirri fíkn. Raunar hefur spilafíknivandi aldrei verið skoðaður né kortlagður innan fangelsiskerfisins á Íslandi.

„Margir af þessum einstaklingum sem leita sér aðstoðar hjá mér hafa gert margar atlögur að edrúmennsku sinni en spilafíknin er ein af hliðarfíknum sem fellir menn. Þetta virðist haldast mjög mikið í hendur,“ segir Jón Þór.

„Fjárhættuspil í íslensku samfélagi eru ótrúlega aðgengileg. Allir þessir spilakassar úti um allt.  Það virðist vera nóg til. Það fellir suma af þessum einstaklingum. Við taka einhverjir dagar, vikur, mánuðir þar sem spilafíknin blómstrar. Þeir selja sér að þeir fái eitthvað út úr spilamennskunni og sækja í hana. Eftir smá tíma af því tekur neyslan við og spileríið með neyslunni,“ bætir hann við.

Fjárhættuspil er bannað innan fangelsanna en viðgengst samt undir einhverjum nöfnum, til dæmis er vinsælt meðal fanga að halda pókermót. Í fangelsunum er ekki boðið upp á meðferð við spilafíkn og í raun hefur spilafíkn innan fangelsa lítið verið rannsökuð á heimsvísu.

„Ég fann reyndar rannsókn sem var framkvæmd í Bretlandi að mig minnir fyrir tveimur til þremur árum síðan. Sú rannsókn gaf til kynna að 25% af öllum þeim, bæði körlum og konum, sem afplána í breska fangelsiskerfinu skilgreina sig með spilavanda. Haldin spilafíkn,“ segir Jón Þór. Í sömu rannsókn kom fram að yfir 50% aðspurðra töldu nauðsynlegt að boðið yrði upp á aðstoð við spilafíkn innan fangelsiskerfisins og því má áætla að vandinn sé stærri. Ef þessar tölur eru yfirfærðar á íslenskt samfélag, þar sem um tvö hundruð manns afplána sinn dóm hverju sinni, má áætla að 50 fangar af þeim séu haldnir spilafíkn.

Varðandi sögusagnir um að fangar í íslenskum fangelsum steypi sér í miklar skuldir vegna spilafíknar á meðan þeir afplána dóma getur Jón Þór ekki staðfest það. En segir þó:

„Ef þú ert spilafíkill og þú ert að gambla inni í fangelsi þá er hætt við því að á einhverjum tímapunkti þá stofnirðu til skuldar. Það hljóta að gilda sömu lögmál í fangelsi sem gilda úti í samfélaginu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál