Magnús Scheving í mat með Spánarprinsinum

Magnús Scheving ásamt Prins Felipe og Letiziu prinsessu.
Magnús Scheving ásamt Prins Felipe og Letiziu prinsessu. mbl.is/úr einkasafni

Spænskir fjölmiðlar hafa farið mikinn undanfarið vegna ráðstefnu sem haldin var þar á dögunum þar sem Magnús Scheving var meðal ræðumanna. Þótti Magnús fara á kostum, en aðstandendur ráðstefnunnar höfðu lagt mikið á sig til að fá hann á svæðið.

Höfðu þeir fyrst séð hann á ráðstefnu í Mexíkó þar sem hann hélt fyrirlestur ásamt Colin Powell, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og nóbelsverðlaunahafanum Paul Krugman.

Magnús hefur gert víðreist um heiminn undanfarin misseri og er eftirsóttur fyrirlesari þar sem hann fjallar meðal annars um nauðsyn þess að þjóðir hafi heildræna framtíðarsýn þegar kemur að heilbrigðum lífstíl.

Ráðstefnan var haldin á vegum FPdGi eða Fundacion Principe de Girona sem er sjóður sem stofnaður var árið 2009 og hefur það að markmiði að efla ungmenni í leik og starfi, skapa einingu og berjast gegn félagslegum vandamálum.

Stormandi lukka á Spáni

Á Spáni þykir það gríðarlegur heiður að fá að umgangast konungsfjölskylduna og á ráðstefnunni þar sem Magnús talaði var staddur Prins Felipe ásamt eiginkonu sinni Letiziu prinsessu en þau eru verndarar sjóðsins. Sérstakur heiðurskvöldverður var haldinn á veitingastaðnum Mas Marroch sem hefur verið kosinn annar besti veitingastaður heims og státar af þremur Michelin stjörnum.

Fyrirfram var Magnúsi tjáð að hann myndi að öllum líkindum sitja við háborðið en þegar á hólminn var komið átti hann að sitja við hlið Letiziu prinsessu. Magnús segir að þetta hafi komi sér verulega á óvart en margt skemmtilegt hafi komið í ljós yfir kvöldverðinum.

„Það var eiginlega bara fiskur í matinn en þetta var ofsalega flottur veitingastaður. Prinsinn og prinsessan voru hið prýðilegasta fólk og við skemmtum okkur vel. Í ljós kom síðan að hún þekkir vel til Latabæjar og að dætur hennar eru miklir aðdáendur. Ég ferðast alltaf með búninga með mér þannig að ég gaf henni tvo Sollu stirðu búninga til að færa þeim. Hún var virkilega ánægð með það og sagði að sér yrði vel fagnað við heimkomuna,“ segir Magnús.

„Þessi ráðstefna var mjög merkileg. Markmiðið er að blása spænskum ungmennum vonarneista í brjóst enda er ástandið á Spáni að mörgu leiti mjög slæmt. Það er til að mynda 40% atvinnuleysi meðal spænskra ungmenna. Sjóðurinn er síðan styrktur af stórfyrirtækjum landsins og þarna voru samankomnir allir helstu framamenn spænsks atvinnulífs. Þar sem prinsinn og prinsessan eru sérlegir verndarar sjóðsins þá þykir mikill heiður að vera hluti af honum.“

Latibær nýtur mikilla vinsælda á Spáni, sem og um heim allan. Eru þættirnir sýndir í yfir 120 löndum og hefur Magnús í nógu að snúast við að boða betri heim með bættari lífstíl og hollari hugsunarháttum.    

Prins Felipe og Letizia prinsessa.
Prins Felipe og Letizia prinsessa. mbl.is/REUTER
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál