Óskalisti Egils Ólafssonar: Vantar ljós sem varar við fjasi

Egill Ólafsson hefur vakið lukku í gamanverkinu Alvöru menn sem sýnt er í Austurbæ. Egill er fjölhæfur listamaður og fádæma afkastamikill, en til viðbótar við leiksýningarnar er hann þessa dagana að undirbúa árlega jólatónleika sem haldnir verða í Bústaðakirkju á sunnudag. Egill settist niður á milli sýninga til að hripa niður óskalistann sinn fyrir lesendur.

Best að borða? „Það sem er best að borða, er heimalagaði ísinn hennar mömmu og eins sítrónu-fromage, sem hún lagar – uppskriftina er aðeins að finna í höfðinu á henni. Réttur sem ég á eftir að prófa, er sverðfiskur. Við Alvöru menn höfum verið á sverðfiskveiðum í Austurbæ í allt haust, en ég hef enn ekki smakkað þennan fisk. Hef prófað súkkulaðihjúpaðar engisprettur, lóuhreiður og snáka – á sverðfiskinn eftir.“

Skemmtilegast að gera? „Það skemmtilegasta, sem ég geri, er að ferðast. Helst af öllu langar mig til að ferðast um höfin á eigin báti. Hafið hefur kallað á mig alla tíð, enda er ég af sjósóknurum kominn langt aftur í ættir. Það færist yfir mig einstök ró um borð í báti úti á sjó, sem þarf helst að vera á leiðinni eitthvurt. Þetta þarf að gerast áður en kemur að hinstu ferðinni yfir fljótið mikla – enda ræður þú engu í þeirri ferð.“

Draumabíllinn? „Draumabíllinn er 3. kynslóðin af Prius – hybrid 2012 frá Toyota. Eyðslugrannur og umhverfisvænn, enn einn gæðabíllinn frá Toyota – ég hef margra ára reynslu af Toyota, búinn að eiga 4 slíka.“

Hvað vantar á heimilið? „Það sem vantar á heimilið; er vél sem teygir á tímanum – snýr á tímann. Vegna þess að tíminn sem við eigum saman, fjölskyldan, virðist líða hraðar og hraðar og oftast er hann allt of naumur. Það vantar líka aðvörunarljós sem blikkar (á ekki of áberandi stað) áður en elsti maðurinn á heimilinu byrjar að kvarta/nöldra/hafa á hornum sér/fjasa/þusa – mér er sagt að það sé breytingaskeiðið sem valdi þessu. Ef til er eitthvað sem losar mann undan því skeiði, þá sárvantar mig það – hvað skyldi það nú vera? Þetta ljós er þarfaþing og heldur frá leiðindum. Einnig vantar tæki sem minnir mig á hvað vantar til heimilishaldsins, bæði í andlegu og veraldlegu skyni. Þetta er hið þarfasta tól, þannig er allt til reiðu, svo halda megi úti góðu heimilislífi.“

Hvað langar þig í? „Það eru gleraugu sem láta vita af sér, jafnoft og ég týni þeim og að ég sjái t.d. á staðsetningartæki hvar þau eru niðurkomin. Staðsetningartæki sem hægt er að setja undir húðina á úlnliðnum, þannig að ég týni því ekki. Greiningartæki, sem sýnir mér margháttaða möguleika míns eigin sjálfs til betrunar og skýrari hugsunar, jafnvel hugsunar sem áður taldist óhugsandi.“

Hvað er best heima? „Við matarborðið yfir góðum mat með mínum nánustu, spjalla og skiptast á skoðunum. Ég á svo góða að; gáfaða og skemmtilega og ég er alltaf einhverju nær þegar upp er staðið.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál