„Ég er ekki þunn, Tobba Marinós“

Alda Björk Valdimarsdóttir.
Alda Björk Valdimarsdóttir.

„Í fyrirlestrinum varpa ég ljósi á stöðu Tobbu innan bókmenntastofnunarinnar en bókmenntastofnun er það valdstýringartæki sem skipar höfundum á bás eftir ýmiss konar reglum. Ég er að skrifa doktorsritgerð um Jane Austen í samtímunum og þar fjallar einn kaflinn um áhrif Austen á skvísusögur. Þá fékk ég áhuga á því að skoða skvísusögur í íslensku samhengi og þar liggur Tobba Marinós beint við þar sem hún er lykilkona á þessu sviði hér á landi. Einnig er ég hluti af vinnuhópi sem hefur verið að hittast og skoða kenningar félagsfræðingsins Beverley Skeggs. Ég beiti kenningum hennar til þess að kanna hvort mögulegt sé að útskýra á einhvern hátt ómálefnalega gagnrýni á Tobbu en það virðist vera svo að veiðileyfi hafi verið gefið á hana,“ segir Alda Björk Valdimarsdóttir sem verður með fyrirlesturinn, „Ég er ekki þunn“ Tobba Marinós, í Þjóðminjasafninu á föstudaginn kemur. 

Spurð um andstöðuna segir hún að hana megi að einhverju leyti rekja til átaka ólíkra hópa innan samfélagsins. „Þeirra sem skilgreina sig sem vinstrisinnaða femínista, eru andsnúnir hlutgervingu kvenna innan kapítalísks samfélags sem þeir telja hvetja til útlitsdýrkunar, og þeirra sem eru afslappaðir gagnvart neyslu og afþreyingu sem beinist að konum.“

Hvað er póstfemínisti? „Póstfemínistar eru síður gagnrýnir á þær ímyndir sem birtast í fjölmiðlum af konunni sem kynveru og telja sig geta gert út á kynþokka sinn, verið „kvenlegar“ og um leið notið þess sem kvennabaráttan hefur skilað. Í póstfemínisma hefur áherslan færst frá því að skilgreina konur sem kynferðislegt viðfang karlmanna yfir í að fagna kynferðislegri sjálfveru kvenna, sjónvarpsþættirnir Sex and the City snúast að miklu leyti um þá hugmynd. Þessi nútímakona telur sig vera frjálsa, sjálfstæða og hafa val í lífinu. Kynferðislegt gláp karlmanna hefur verið fært inn á við, hún hefur sjálf tekið það upp og horfir á sig narsisískum augum.

Það má síðan deila um það hvort póstfemínismi hafi vikið of langt af hinni „réttu“ braut og sé í raun femínismi og hvort konur sem sjá engin vandamál við kvenleika eða kynþokka séu raunverulegir femínistar. En í allri umfjöllun um Tobbu fer umræðan að snúast um líkama konunnar og útlit hennar en ekki grundvallarspurningar sem varða ákvarðanafrelsi kvenna.“

Hvað eru skvísusögur? „Í skvísusögum má sjá konur glíma við ýmis vandamál sem tengjast því að tilheyra samfélagi lituðu af póstfemínískum gildum. Margar konur í skvísusögum eru örvæntingarfullar því þær ná ekki að mæta öllum þeim ólíku skilaboðum sem samfélagið sendir þeim. Þær eiga í erfiðleikum með að sameina þörfina fyrir starfsferil annarsvegar og hinsvegar að eiga sér fjölskyldulíf. Sögurnar takast einnig á við glímuna við þyngdina, mikilvægi vináttubanda, stefnumótamenningu og sambönd milli kynjanna.

Skvísusögur hafa fengið litla viðurkenningu þrátt fyrir að vera vinsælasta bókmenntagreinin á markaðinum. Þær eru vissulega misvel skrifaðar eins og gengur og gerist í afþreyingu en eru yfirleitt allar stimplaðar sem rusl eða froða og fá enga alvarlega umfjöllun. Þannig er mikill munur á því hvernig afþreying fyrir karla og afþreying fyrir konur er metin. Reynsla kvenna er talin óæðri reynslu karla. Fótbolti er mikilvægur en tíska eða fatakaup eru ómerkileg iðja líkt og skáldkonan Virgina Woolf sagði á sínum tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál