Málshættirnir tengja okkur við fortíðina

Sölvi Sveinsson.
Sölvi Sveinsson. mbl.is

Að því er Sölvi Sveinsson kemst næst þekkist það hvergi annars staðar en á Íslandi að setja málshætti í páskaegg. Sölvi er skólastjóri Landakotsskóla og höfundur bókanna Íslenskir málshættir, Íslensk orðtök, Saga orðanna og Táknin í málinu.

„Að því er ég kemst næst var það um árið 1920 að það fer að tíðkast hér á landi að framleiða og selja súkkulaðiegg á páskum. Upphaflega voru eggin bara tómar súkkulaðiskeljar en smám saman varð algengara að framleiðendur færu að setja góðgæti inn í eggin. Það er svo eftir seinna stríð, eftir 1945, að málshættir fara að birtast í eggjunum.“

Erfitt er að giska á hvort einhver ástæða var fyrir því að málshættirnir rötuðu í eggin. Sölvi segir mögulegt að hugsunin hafi verið sú að gera börnunum eitthvað hollt fyrir hugann með öllu súkkulaðinu. „Mætti þannig líta á páskaeggin sem lævísa aðferð til að kenna börnunum málshætti, og í skólum hefur gefist vel að kenna börnunum muninn á orðtökum annars vegar og málsháttum hins vegar með því að benda þeim á að málshættir geta verið í páskaeggjum en orðtök ekki. Þökk sé páskaeggjunum er það orðið krökkunum svolítið inngróið hvað málshættir eru og kemur þó fleira til.“

Þekkja ekki orðin

Ekki veitir af að halda málsháttunum að börnunum, að sögn Sölva, því með breyttum atvinnuháttum og nýjum lifnaðarháttum er tengingin við merkingu sumra málsháttanna að rofna. „Mjög algengt er að málshættir sæki merkingu sína í sjómennsku eða landbúnað, og lýsi handtökunum með hinum ýmsu verkærum, sem svo öðlast yfirfærða merkingu í málshættinum. Börn í dag, og jafnvel fullorðnir líka, kannast ekki við þessi áhöld eða þessi vinnubrögð og geta átt erfitt með að skilja málshættina. Jarðvegurinn sem málshættirnir spruttu upp úr er okkur horfinn.“

Eru páskarnir þannig tækifæri til að miðla þekkingunni áfram á milli kynslóða. „Ég man vel eftir því sjálfur, og það tíðkast enn í dag, að hafa sem barn verið spurður af eldri ættingjum hvaða málshátt ég fékk, og þá athugað hvort ég skildi örugglega málsháttinn.“

Á síðustu árum hafa sælgætisframleiðendur tekið upp á því að skipta málsháttunum út fyrir hnyttna frasa, grín-málshætti og ýmis gullkorn kennd við frægt fólk úr mannkynssögunni. Ekki er að greina á Sölva að hann hafi miklar áhyggjur af þessari þróun, enda segir hann hefðina fyrir hefðbundnum málsháttum í páskaeggjum orðna svo sterka að hún muni seint leggjast af og nútímalegu eggin séu bara skemmtileg nýbreytni.

Hvílir á öflugri bókmenntahefð

Við megum samt ekki gleyma að rækta vandlega málsháttaarfinn sem íslensk tunga býr yfir og minnir Sölvi á að íslensk tunga er sérlega rík af málsháttum, og mun auðugri og blæbrigðaríkari en mörg önnur tungumál að þessu leyti. Hann segir ýmsar ástæður fyrir því hvað málshættirnir hafi orðið áberandi í íslenskunni: „Bókmennta- og ljóðahefðin hefur þar mikið að segja og löng hefð fyrir ritun texta á íslensku. Á meðan lærðu stéttirnar í Evrópu skrifuðu rit sín á latínu og bókmenntir voru almennt óaðgengilegar almenningi, þá var skrifað á íslensku hér á landi og arfur kveðskapar og Íslendingasagna hluti af lífi venjulegs fólks. Málshættir bera enda ýmis einkenni bundins máls, þeir standa í ljóðstöfum og oft ríma þeir: Allt er vænt sem vel er grænt. Það er m.a. í fyrir tilstuðlan kvæða og sagna að málshættirnir hafa orðið til og varðveist í töluðu máli og rituðu frá einni kynslóð til annarrar. Aðgát skal höfð í nærveru sálar; þetta er beint úr ljóði eftir Einar Ben.“

Til að rækta þennan arf segir Sölvi að landsmenn verði m.a. að reyna að temja sér að lesa meira – nú eða borða meira af páskaeggjum allt árið um kring! „Með minnkandi lestri barna og fullorðinna rýrist orðaforðinn og breytist. Að viðhalda okkar gömlu málsháttum byggist á því að leyfa ekki tengslunum að rofna við gamla samfélagið og gömlu bókmenntirnar sem eru ríkulegar og fjölbreyttar frá öllum öldum sögunnar.“

Krydd málsins

Málshættir eru mikilvægur hluti af málkunnáttu okkar og getu okkar til að tjá hugsanir okkar, upplifanir og líðan. Þeir eru krydd málsins. „Það er ekki bara þekkingin á málsháttum sem á undir högg að sækja heldur ýmis önnur blæbrigði málsins. Til dæmis er algengasta orðið um snjókomu núna snjóbylur eða snjóstormur, en íslenskt mál býr að óteljandi orðum yfir óskemmtileg vetrarveður allt eftir því hvað snjókoman er mikil, vindurinn sterkur, úr hvaða átt hann blæs og hversu blautur snjórinn er, svo dæmi sé tekið. Í dag er lykt annaðhvort lýst sem „ógeðslega góðri“ eða „ógeðslega vondri“ en á undanhaldi er að talað sé um ilm, angan, fýlu eða fnyk.“

Málshættirnir varðveita líka og endurspegla hugsunarhátt Íslendinga og gera okkur betur fært að tengjast því sem kalla mætti eðli þjóðarinnar. „Sem dæmi um þetta má nefna fjöldamarga málshætti þar sem börn koma við sögu. Sumir lýsa augljósum sannleik eins og að „barnið vex en brókin ekki“. Aðrir, s.s. „þungt stynur þrábarið barn“ minna okkur ekki aðeins á óhugnanlegri tíma í sögunni heldur sýnir líka ákveðna samúð sem forfeður okkar höfðu með þessum smælingjum.“

Málsháttur sem kom úr páskaeggi nr. 1 frá Nóa Siríus …
Málsháttur sem kom úr páskaeggi nr. 1 frá Nóa Siríus .
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál