Dýrmæt samverustund fyrir fjölskylduna

Hallfríður Ólafsdóttir.
Hallfríður Ólafsdóttir. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hallfríður Ólafsdóttir leggur mikið á sig til að halda páskana hátíðlega, skreytir heimilið ríkulega og heldur í heiðri ýmsar hefðir.

Hallfríður er flautleikari hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands og höfundur barnabókanna vinsælu um Maxímús Músíkús. Fjórða og síðasta bókin um Maxímús, Maxímus Músíkús kætist í kór, kemur út um miðjan mánuðinn. Þar kynnist músin tónelska hópi krakka sem syngja saman í kór. Fer hópurinn í æfingabúðir upp í sveit þar sem Maxímús þarf m.a. að vara sig á kettinum á bænum, tekst að snúa á hann og leggur svo sitt af mörkum þegar tveir kórsöngvararnir fá heimþrá.

Í tilefni af útgáfu bókarinnar verður Sinfóníuhljómsveitin með skóla- og fjölskyldutónleika bæði í Reykjavík og á Selfossi og mun með þeim gleðja samtals um tíu þúsund börn. Hefur frést af skólabörnum sem koma í hópum alla leið frá Vík í Mýrdal og frá Vestmannaeyjum til þess að heyra söguna um Maxa.

Byrja daginn á hollustu

Hallfríður á tvö börn sem komin eru á unglingsár en hún segir hefðirnar sem börnin ólust upp við samt enn stundaðar. „Páskadag höfum við byrjað á því að gæða okkur á skreyttum eggjum. Höfum við dundað okkur við að skreyta harðsoðin egg sem við svo snæðum í morgunverð með ristuðu brauði og öðru tilheyrandi meðlæti. Með þessu fáum við smá hollustu í magann áður en kemur að súkkulaðieggjunum.“

Stúlkan á heimilinu er á sautjánda aldursári og strákurinn á því fimmtánda og því barnslegt sakleysið og tilhlökkun á páskadagsmorgni ekki lengur sú sama. Man Hallfríður t.d. vel af hversu mikilli áfergju dóttirin hámaði í sig sitt fyrsta páskaegg. „Hún var með mjólkuróþol sem barn og við þurftum því að steypa sérstaklega handa henni mjólkurlaust páskaegg úr suðusúkkulaði. Það var ógleymanlegt að sjá hana úða þessu í sig í fyrsta skipti, en hún hafði fram að því aldrei borðað súkkulaði. Andlitið var allt klístrað og útmakað í súkkulaði, og raunar líka borð og stólar.“

Húsmóðirin gerir sósuna

Páskadegi fylgir einnig að bjóða afa og ömmum barnanna í mat og er vaninn að elda lambalæri. „Eiginmaður minn, Ármann Helgason, er snilldarkokkur og útbýr hann kjötið. Hann stingur göt á lærið og setur hvítlauksrif í, smyr lærið vandlega með olíu og útbýr sætar kartöflur til að hafa með auk gufusoðins grænmetis. Þegar soðið hefur safnast upp í ofnbakkanum er komið að mér að útbúa sósuna og blanda ég kannski við smátt skornum gulrótum og kúrbít, osti og lögg af einhverju góðu.“

Fjölskyldan öll er mjög virk í tónlistarlífinu en það er fylgifiskur þess að starfa sem tónlistarmaður að frídagarnir eru yfirleitt ekki þeir sömu og hjá öðru fólki. Hallfríður segir páskana þannig ólíka öðrum hátíðisdögum að allir geti verið saman. „Þetta er mikil hátíð í okkar huga því oftast erum við öll í fríi og ekkert okkar þarf að fara af stað og vera á flandri við tónlistarflutning. Á öðrum tímum ársins þarf iðulega eitthvert okkar að vera annars staðar, og meðan t.d. venjulegar fjölskyldur hafa frí á laugardögum og sunnudögum til samveru þá er varla sú helgi sem líður að eitthvert okkar sé ekki að koma fram og flytja tónlist öðrum til gleði. En þannig viljum við auðvitað hafa það!“

Er þá vissara að nota þessa dýrmætu samverustund sem best og nefnir Hallfríður að fjölskyldan reyni t.d. oft að verja páskunum saman á skíðum fyrir norðan. „Eftir góða páskahelgi á Akureyri höldum við suður á páskadag og ef við erum í þannig stuði getur verið gaman að stoppa á leiðinni á Hólum í Hjaltadal og hlýða þar á páskamessu, áður en haldið er áfram til Reykjavíkur í tíma til að matreiða páskasteikina.“

Ef fjölskyldan fer ekki út úr bænum þykir Hallfríði við hæfi á páskum að fjölskyldumeðlimir fari út að ganga um borgina. „Við stundum það líka að taka hús á vinum og ættingjum einhverntíma yfir páskahelgina, fá þar kaffibolla og kannski taka í spil.“

Heimilið blómum skreytt

Af páskum æskunnar minnist Hallfríður þess fyrst af öllu hvað heimilið var gert hreint og fínt. „Allt var þrifið í hólf og gólf alveg eins og á jólunum. Útsaumaðir páskadúkar voru lagðir á borð og heimilið skreytt með laufguðum greinum, páskaliljum, ungum og páskaeggjum. Á páskadag fórum við öll í messu árla morguns. Þangað komum við öll fjölskyldan, pabbi, mamma og fjögur börn, í okkar fínasta pússi og mér þóttu þetta afskaplega hátíðlegar stundir. Enn þann dag í dag minnir sálmurinn „Sigurhátíð sæl og blíð“ mig á þessi ár og framkallar gleði. Stundum hafði hann faðir minn fyrir því að skipuleggja ratleik fyrir okkur systkinin til að hafa ofan af fyrir okkur í fríinu, og minningin er líka sterk um hvað mér þótti merkilegt að eiga heilan disk fullan af brotnu súkkulaðieggi bara fyrir mig. Seinna meir, þegar ég var komin á unglingsár, var vaninn að heimsækja á páskadag tengdafólk bróður míns þar sem haldin var heilmikil veisla alla páskadagsmorgna.“

Verðmætir erfðagripir úr papparúllu

Það fylgdi páskunum að fjölskylda Hallfríðar föndraði og á hún sumt páskaskrautið enn þann dag í dag. „Ég varð svo hamingjusöm þegar ég fékk að eiga gömlu hérana sem mamma bjó til úr papparúllum og skreytti með glanspapír. Mér fannst mikið ævintýri að sjá þessa héra verða til. Margt af páskaskrauti heimilisins varð til með þessum hætti en í áranna rás hef ég líka bætt í safnið t.d. á ferðalögum um Þýskaland og Tékkland. Skrautinu raða ég bæði á laufgaðar greinar úr garðinum og á ljósakrónuna yfir borðstofuborðinu.“
Fallegt páskaskraut.
Fallegt páskaskraut. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Heillandi skraut.
Heillandi skraut. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál