Svona er Sigmundur Davíð

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Gunnlaugur Guðmundsson stjörnuspekingur sem rekur vefinn islenzkstjornuspeki.is skoðar stjörnukort Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. Þetta hafði Gunnlaugur að segja um Sigmund Davíð:

Það er erfitt að lýsa Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Hann er takmarkalaus, fjölhæfur og margslunginn. Dulur og hlédrægur en jafnframt því jákvæður og stórhuga. Hann er tilfinningamaður. Hann er fæddur á nýju tungli í Fiskamerkinu. Frumefnið er vatn. Það þýðir að í grunninn er hann fljótandi, breytilegur og óútreiknanlegur.

Eftir nokkuð langa umhugsun er það skoðun mín að innst inni sé Sigmundur Davíð listamaður. Stjórnlistamaður. Hann er næmur. Hann hlustar og hann sér hvað fólk vill heyra. Listin er fólgin í því að hann kann að búa til fallega sögu í kringum vonir og óskir þjóðarinnar.

Mitt mat er að Sigmundur Davíð sé velviljaður maður með fljótandi og skapandi grunnorku. Hann er hugmyndaríkur og sveigjanlegur. Hann getur sett sig í svo til hvaða hlutverk sem er og náð þar með til viðmælenda sinna. Þetta er góður eiginleiki í fari stjórnmálamanns, en um leið nokkuð vandmeðfarinn.

Nærvera hans er þægileg. Hann er yfirvegaður í framkomu og var um sig í samskiptum. Útávið er hann sem klettur í hafinu. Hann heldur sjálfum sér nokkuð til baka en er um leið tillitssamur og jákvæður í garð annarra. Hann á þó til að rjúka upp þegar honum er misboðið. Það býr eldmóður hið innra.

Sigmundur Davíð er alla jafna yfirvegaður og málefnalegur í hugsun. Hann hefur sterkt ímyndunarafl og á til vera utan við sig. Hann getur ýmist verið næmur og nærgætinn eða fjarlægur og í eigin heimi. Næmleikinn gerir það að verkum að hann þarf að láta sig hverfa annað slagið, þ.e.a.s. hann þarf á einveru að halda til að vernda sjálfan sig.

Viðkvæmur, alls staðar og hvergi

Sigmundur þarf að gæta sín á nokkrum atriðum. Í fyrsta lagi á hann til að vera hrifnæmur og því hættir honum til að gefa í skyn að hann vilji gera allt fyrir alla. Nokkuð sem er ógerlegt. Í öðru lagi þýðir hið stórhuga og takmarkalausa grunneðli hans að hann á til að tapa fókus. Fyrir vikið getur hann átt erfitt með að ljúka verkum. Sömuleiðis getur hann lent í vanda þegar hann ætlar sér að vera afgerandi og gefa skýr og afdráttarlaus loforð. Framþróun lífsins, nýjar hugmyndir og breyttur veruleiki, leiða til þess að ekki er hægt að halda í niðurnegldar forsendur. Að endingu - hvað varðar það sem varast þarf - þá er Sigmundur viðkvæmur. Það getur háð honum í hinum harða heimi stjórnmálanna. Hann þarf að gæta þess að bregðast ekki við árásum á tilfinningaþrunginn hátt. Slíkt veikir einungis stöðu hans.

Víðsýnn, fjölhæfur og sveigjanlegur

Sigmundur er innhverfur en jafnframt því jákvæður að upplagi. Hann vill tala hlutina upp, ekki niður. Hann er víðsýnn og hann reynir að hugsa um hag heildarinnar. Hann er fjölhæfur og á auðvelt með að setja sig inn í margvísleg málefni. Hann kann að hagræða seglum eftir vindi og sigla skútunni í þá átt sem byrinn gefur hverju sinni. Hann er ekki stjórnmálamaður kennisetninga. Hann er framfarasinnaður maður sem hugsar: Gera þarf það sem gera þarf.

Ráðleggingar til Sigmundar

Sigmundur: Þú ert listamaður. Þú ert sveigjanlegur. Þú skynjar vindáttirnar. Þú ert skipstjóri á skútu í lífsins ólgusjó. Því er eitt atriði mikilvægt: Ekki gefa afgerandi ‘svona verður þetta’ loforð. Slíkt leiðir til vonbrigða og reiði í þinn garð. Reiði sem væri ekki til staðar ef varlegar væri stigið til jarðar, þ.e.a.s. ef þú segðir: Ég mun gera mitt besta, en auðvitað þarf ég að taka tillit til aðstæðna. Þú þarft sem sagt að fullkomna þá list að skapa fallega sýn fyrir þjóðina, án þess að mála sjálfan þig um leið út í horn. Þú ert skipstjórinn. Áhöfnin þarf að vita að þú munt skipta um kúrs ef á þarf að halda. Slíkt þarf að setja í jákvæðan búning, svo sem þann að sveigjanleiki sé jákvæður þegar stór hagkerfi eru annars vegar.

Sigmundur: Þú ert viðkvæmur tilfinningamaður. Þú þarft að læra að brynja þig og forðast að taka gagnrýni annarra inn á þig.

Sigmundur: Þú ert stórhuga og fjölhæfur. Þú þarft að gæta þess að halda skýrum fókus og forgangsraða verkefnum þínum. Gott er fyrir þig að hugleiða, sækja í einveru og fara í gönguferðir í hinni fögru náttúru Íslands, í þeim tilgangi að kyrra tilfinningar og huga og sjá til þess að stefnan sé skýr.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er fæddur 12. mars 1975, kl. 7 um morgun í Reykjavík. Þann dag var nýtt tungl í Fiskamerkinu, nálægt Júpíter hinum stórtæka. Hann er því með Sól, Tungl og Júpíter í samstöðu í Fiskamerkinu, Rísandi í Steingeit, Merkúr og Mars eru í Vatnsbera, Venus í Hrúti, Satúrnus í Krabba og Bogmaður á Miðhimni.
Gunnlaugur Guðmundsson stjörnuspekingur.
Gunnlaugur Guðmundsson stjörnuspekingur. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál