Elskar Dirty Dancing

Silja Dögg Gunnarsdóttir horfir reglulega á myndina Dirty Dancing.
Silja Dögg Gunnarsdóttir horfir reglulega á myndina Dirty Dancing.

Silja Dögg Gunnarsdóttir þingkona Framsóknarflokksins er gift þriggja barna móðir sem horfir stundum á Dirty Dancing. Inni á vef xb.is svarar Silja Dögg nokkrum spuringum:

Hvernig síma áttu? Iphone. Mjög praktísk græja, annars hef ég engan áhuga á tækjum. Reyni að forðast þau nema þessi allra nauðsynlegustu. Öll þessi tæki eru frekar truflandi fyrirbæri.

Uppáhaldssjónvarpsefni? Breskir sakamálaþættir eins og Lewis, Scott og Baily, Barnaby og DCI Banks. Amerísku þættirinir True Detectives með Woody Harrelson og Matthew McConaughey voru líka algert listaverk; leikararnir, sagan, tónlistin og myndmálið. Er með meiriháttar óþol fyrir amerískum grínþáttum; sérstaklega svona fjölskyldugríni.

Besta bíómyndin? Tvímælalaust Dirty Dancing. Fæ alltaf gæsahúð þegar ég horfi á hana. Frábær tónlist. En svona af alvarlegri myndum þá myndi ég segja þríleikurinn; Rauður, Hvítur og Blár og Breaking the Waves. Sannkölluð meistaraverk.

Hvernig tónlist hlustar þú á? Allt mögulegt en fer eftir veðri og vindum hverju sinni. Fíla t.d. Mugison og Dranga. Geggjaðir live! Fíla flott fönk, t.d. Jagúar og almennilega rokkara eins og Quarashi…Já, íslenskt er best!

Uppáhaldsdrykkur: Vatn, kaffi og rauðvín – í þessari röð.

Hvað finnst þér best að borða? Segi það sama á við og um tónlistina, fer eftir aðstæðum og mjög mikið eftir veðri. Kjötsúpa er alltaf góð en hún bragðast til dæmis einstaklega vel á köldum dögum. Nætursöltuð ýsa með soðnum rófum og hamsatólg og plokkfiskur með rúgbrauði og smjöri, eru réttir sem koma sterkir inn á virkum dögum. Grillaður humar með hvítlauk og smjöri á ljúfum sumardögum. Í útlöndum vil ég fá eitthvað spennandi, þá myndi ég segja að arabískur og ítalskur matur væri í uppáhaldi. En allra best þykir mér þegar mér er komið á óvart. Gott hráefni og ástríðufull eldamennska eru almennt lykilatriði þegar maturinn á að verða góður.

Hvaða lag kemur þér í gírinn? Þessa dagana; titillagið úr kvikmyndinni París norðursins; ömurleg mynd en lagið mjög töff. Annars kemur lagið Baseline og Stick´em up, með hljómsveitinni Quarashi mér alltaf í brjálað stuð og flest lögin með Skunk Anansie.

Ertu hjátrúarfull? Ég er sannfærð um að það séu til fleiri víddir en við nemum. Ég útiloka ekki að til séu álfar. Búálfarnir geta t.d. verið skæðir þegar þeir taka upp á því að fela hluti fyrir manni.

Hverslags viðfangsefni myndirðu ekki leggja nafn þitt við? Lögleiðingu fíkniefna og sölu áfengis í matvöruverslunum.

Hver var fyrirmyndin þín á yngri árum? Verð að nefna ömmurnar mínar sem ég kynntist á lífi; amma Lóa, Sigga og Gústa. Sterkar, heilsteyptar, gáfaðar, skemmtilegar og frábærar mæður og ömmur.

Hver er fyrirmyndin þín í dag? Ömmurnar og tengdamamma heitin. Hugsa oft til þeirra og fæ styrk og leiðsögn hjá þeim.

Hverjir eru sessunautar þínir á Alþingi? Steingrímur J. og Vigdís Hauksdóttir.

Hver eru helstu áhugamálin? Ríf reglulega í lóðin eins og enginn sé morgundagurinn. Líka mjög hressandi og orkugefandi að fara í sjósund. Mín helsta nautn er þó bóklestur, þá les ég helst skáldsögur og ævisögur. Tækifærin sem ég fæ til lesturs nú til dags eru á ferðalögum og á næturnar á sumrin. Þá er ljúft að liggja uppi á háalofti í sumarbústaðnum þegar aðrir sofa, njóta næturbirtunnar og lesa. Í æsku dreymdi mig um að lokast inni á bókasafni og dvelja þar næturlangt, alein, í félagsskap bóka. Ég hugleiddi oft að fela mig þegar safninu væri lokað, en lét þó ekki verða af því. Ég er víst ekki nógu mikill villingur.

Besti vinurinn í vinnunni? Elsa Lára og Sigurður Ingi. Þórunn og Eygló koma einnig sterkar inn. Ási verður kannski móðgaður þegar hann sér þetta… ”Ási, þú ert fínn gaur!”

Helsta afrekið hingað til? Að fara í sjósund með Elsu Láru.

Uppáhaldsmanneskjan? Get ekki gert upp á milli barnanna minna. Þau eru tvímælalaust uppáhaldsfólkið mitt (nú verður Ási aftur sár: “Ási, þú ert í alvöru fínn gaur”).

Besti skyndibitinn? Arabísk vefja (shawarma) í sjoppunni Mandi, við Ingólfstorg. Soldið skotin í arabískum mat.

Það sem þú borðar alls ekki? Borða nú flest nema það sem er illa eldað og bragðlaust. Nenni ekki að borða svoleiðis mat.

Lífsmottóið? Lífið er ekki áfangastaður heldur ferðalag. Ég ætla mér að halda áfram að njóta ferðalagsins og þakka fyrir hvern einasta dag sem ég fæ og öll tækifærin sem mér bjóðast.

Þetta að lokum: Það sem þið vissuð sennilega ekki um mig er að ég var orðin altalandi 14 mánaða. Þótti æði bráðger og kerlingarleg með eindæmum. Mér skilst að ég hafi þó ekki verið sérlega skemmtilegt barn, hafði a.m.k. ekki mikinn húmor fyrir öðrum. Ein af mínum uppáhaldssetningum lengi vel var: „Þetta er ekkert fyndið.“ Sagði þetta gjarnan með miklum þunga þegar galgopaháttur fjölskyldumeðlima gekk algjörlega fram af mér.

Ég get líka upplýst hér með að ég var fjögurra ára þegar ég lærði að reima. Tók því að mér að reima skóna á félagana í leikskólanum og síðan á bekkjarfélagana í sex ára bekk þar sem kennarinn komst ekki yfir að reima á allan skarann tímanlega fyrir frímínútur (þetta var fyrir tíma stuðningsfulltrúa).

Ég tók einnig að mér (óbeðin) að raða bekkjarfélögunum í raðir, eftir stærð. Ég vildi sjá ákveðna samfellu í röðinni, lágvaxnir fremst og hávaxnir afast. Menn voru misánægðir með það frumkvæði mitt þar sem aðalmálið hjá flestum var að komast fremst röðina. Menn lögðu jafnvel á sig að mæta eldsnemma í skólann til að komast fremst í röðina eða fórnuðu hluta af leiktíma í frímínútum og stilltu sér ábúðarfullir upp fremst eða framarlega í röðinni. Það dugði þó ekki til þegar ég mætti og hóf að raða öllum upp á nýtt. Ég lenti aldrei í slagsmálum út af þessari áráttu minni, sem ég tel stórmerkilegt. Ég hlýt að hafa verið mjög sannfærandi.

Silja Dögg Gunnarsdóttir og Unnur Brá Konráðsdóttir eru með sama …
Silja Dögg Gunnarsdóttir og Unnur Brá Konráðsdóttir eru með sama fatasmekkinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál