Ofurfyrirsæta dásamar Ísland

Chrissy Teigen og Völli Snær.
Chrissy Teigen og Völli Snær.

Bandaríska ofurfyrirsætan Chrissy Teigen hefur ekki farið leynt með aðdáun sína á Íslandi eftir dvöl sína hér í ágúst er tekin var upp auglýsingaherferð fyrir ástralska skóframleiðandann UGG.

Sérstaka athygli hafa þó vakið ummæli hennar um sjávarréttasúpu nokkra sem hún segir að hafi verið elduð á hraungrjóti á ströndinni og að allar súpur verði eftirleiðis miðaðar við. Fullyrðir hún að eiginmaður sinn (tónlistarmaðurinn John Legend) hafi orðið afbrýðisamur þar sem hann elski sjávarréttasúpur. 

Þegar undirrituð fór að spyrjast fyrir um súpuna kom í ljós að maðurinn á bak við hana er stjörnukokkurinn Völli Snær. Var hann fenginn til liðs við verkefnið og birti Teigen myndir af eldamennskunni á instagramsíðu sinni.

Aðspurður sagði Völli að þetta hefði verið gríðarlega skemmtilegt verkefni og Teigen hefði verið ótrúlega orkumikil og skemmtileg. Súpan eigi rætur að rekja til Delicious Iceland-þáttanna þar sem hún var upphaflega elduð á Snæfellsnesi en afbrigði af henni sé einnig að finna á Nóru Magasin. 

Eins og uppskriftin sýnir er hún afar einföld og ljúffeng og ættu sem flestir að geta leikið hana eftir í eldhúsinu heima hjá sér.

Sjávarréttasúpa

1/2 msk ferskt engifer

1/2 msk fínskorinn grænn chili

1/2 rauðlaukur

3 hvítlauksgeirar, kramdir

2 tómatar

1 paprika

200 g smjör

8 greinar af fersku timíani

1 tsk grænt karrímauk

1 léttbjór

240 ml rjómi

300 g kræklingur

300 g þorskur

300 g humarhalar

Skrælið engiferinn (helst með skeið svo að sem minnst fari til spillis). Skerið í smáa bita og setjið í fremur stóran pott. Skerið chillíið smátt og bætið í pottinn. Magnið af chili ræðst alfarið af smekk þannig að gott er að byrja með minna og bæta fremur við ef ykkur finnst súpan þurfa aukakraft. Skerið laukinn til helminga og svo í þunnar sneiðar og setjið í pottinn ásamt kramda hvítlauknum. Skerið tómata og papriku í bita og bætið einnig í pottinn, svo skal bæta smjöri saman við og loks timían. Kveikið undir pottinum og hitið á háum hita og hrærið reglulega í pottinum þar til smjörið er farið að krauma. Næst skal setja krækling, humar og þorsk í heitan pottinn. Setjið lokið á og hristið vel í pottinum og eldið í u.þ.b. hálfa mínútu. Síðan skal hella bjór og rjóma saman við. Setjið lokið á aftur og látið suðuna koma upp. Sjóðið í tvær og hálfa mínútu. 

HÉR er hægt að lesa viðtal við Chrissy Teigen í People.

Súpugerð Völla Snæs vakti mikla kátínu hjá Teigen.
Súpugerð Völla Snæs vakti mikla kátínu hjá Teigen.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál