Kann betur við sig í sól og birtu

Sirrý Arnarsdóttir er meira sumarbarn en jólabarn. Hún nýtur þess …
Sirrý Arnarsdóttir er meira sumarbarn en jólabarn. Hún nýtur þess þó að hafa það notalegt í desember.

Fjölmiðlakonan Sirrý Arnarsdóttir var að senda frá sér barnabókina, Tröllastrákurinn eignast vini, og er það Bjartur sem gefur út bókina. Ég lagði fyrir hana nokkrar jólaspurningar.

Ert þú mikið jólabarn? Nei, ég er miklu meira sumarmanneskja. Er í raun súrefnisfíkill og kann því best við mig í sól og birtu. En vissulega er margt gott við þennan árstíma líka.

Hvenær byrjar þú að skreyta heima hjá þér? Fyrsta sunnudag í aðventu fer ég að huga að þessu. Maðurinn minn sér um útiljósin og þau eru farin að fara fyrr upp hjá okkur en áður. Það veitir ekkert af meiri birtu.

Áttu þér uppáhalds jólalag? Gömlu góðu jólalögin sem ég ólst upp við er það sem ég vil helst heyra á Þorláksmessu og aðfangadag, nn fram að því er gaman að heyra líka ýmislegt nýtt. Mér finnst „Það snjóar“ með Sigurði Guðmundssyni frábært núna. Og nýi diskurinn hans Stefáns Hilmarssonar er mjög flottur.

Besta jólagjöf sem þú hefur fengið? Dúkkuhús sem afi minn bjó til og gaf mér þegar ég var stelpa er það langeftirminnilegasta.

En sú versta? Ég fékk ritvél rétt áður en heimilistölvur urðu þarfaþing á hverju heimili. Eðlilega var þessi ritvél mjög lítið notuð.

Hvernig og hvenær verslar þú jólagjafirnar? Ég leiði aldrei hugann að þessu fyrr en í desember. Og ég er að kaupa jólagjafir af og til alla aðventuna. En rétt fyrir jól kaupum við ýmsar bækur. Og ég vil alltaf eiga erindi í bókabúð á Þorláksmessu. Vann sjálf í bókabúð í jólafríum þegar ég var í menntaskóla og það er alltaf mjög góð stemmning í jólaösinni í jólabókaflóðinu.

Gerir eitthvað sérstakt í desember? Les nýjustu bækurnar. Baka og hef það kósý. Endalaus huggulegheit, teppi og kakó. Og svo er ég töluvert innan um börn þessa dagana því ég er að lesa upp nýju bókina mína „Tröllastrákurinn eignast vini“ fyrir 3-8 ára börn í leik- og grunnskólum. Og það er ekkert skemmtilegra en að upplifa jólatilhlökkun með börnum.

Hvað borðar þú á jólunum? Kalkúnn hefur verið hjá okkur á aðfangadag í fjöldamörg ár. Og Ris al'amand er fastur liður. En forrétturinn er breytilegur. Er einmitt að spá í spennandi forrétti þessa dagana.

Eftirminnilegustu jólin? Þegar ég byrjaði að búa og fjölskyldurnar komu til okkar hjóna í mat á aðfangadag í fyrsta skipti. Manni fannst að þetta yrði að heppnast fullkomlega, mér fannst ég þurfa að sanna mig. Og svo bilaði eldavélin og maðurinn minn sofnaði þegar hann var að svæfa son okkar milli rétta. Þetta varð þó hið besta kvöld, allt fór vel og nú er þetta skemmtileg minning.

Hvað er það besta við jólin að þínu mati? Samvera með fjölskyldunni. Fríið og að þurfa helst ekki að fara neitt. Bara hafa það notalegt saman.

Sirrý höfundir bókarinnar, Tröllastrákurinn eignast vini.
Sirrý höfundir bókarinnar, Tröllastrákurinn eignast vini.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál