Kærastan breytti „sturtuklefanum“ í jólaland

Halldór Armand Ásgeirsson.
Halldór Armand Ásgeirsson. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Rithöfundurinn Halldór Armand Ásgeirsson sendi frá sér sína fyrstu skáldsögu, Drón, nú fyrir jólin. Hann hafði áður gefið út nóvellutvíeykið Vince Vaughn í skýjunum í fyrra og hlotið frábærar viðtökur. Drón fjallar um Heiðrúnu Sólnes, efnilegustu knattspyrnukonu landsins, og samband líkama hennar við óútskýrðar og að því virðist handahófskenndar drónaárásir sem eiga sér stað um allan heim. Bókin er bæði greining á íslensku nútímasamfélagi og jafnframt ýmsum álitamálum samtímans á heimsvísu og gagnrýnendur hafa sagt Halldór vera rödd nýrrar kynslóðar í íslenskum bókmenntum.

Ert þú mikið jólabarn?

Ég hugsa að ég sé svona einhvers staðar fyrir ofan miðju á rófinu sem spannar allt frá þeim sem þola ekki þennan árstíma og að þeim sem myndu helst vilja vefja jólaseríu utan um sig til að sofa í á næturnar. Ég fíla myrkrið og seríurnar, ég fíla marrið í snjónum á hljóðlátum vetrarkvöldum, ég fíla mannþröngina í verslunarmiðstöðvum og niðri í bæ og þá sérstæðu blöndu óþæginda og náungakærleiks sem þar liggur í loftinu. 

Hvenær byrjar þú að skreyta heima hjá þér?

Ég bý að mestu leyti í London en var hér á Íslandi seinni part hausts til að kynna nýju skáldsöguna mína, Drón. Þegar ég kom aftur til London 30. nóvember var kærastan mín búin að breyta íbúðinni okkar, sem er á stærð við hefðbundinn íslenskan sturtuklefa, í lítið og afskaplega huggulegt jólaland. 

Áttu þér uppáhalds jólalag?

Já. Það geri ég. Ég hef satt best að segja blendnar tilfinningar til jólalaga. Sum þeirra finnst mér, í sannleika sagt, óbærilega vond, jafnvel þó ég geri mitt besta til að vera jákvæður lover gagnvart menningunni. Önnur finnst mér algjörlega stórbrotin. Þriðji flokkurinn er svo jólalög sem eru einhvern veginn svo sérkennileg, textinn svo absúrd að ég get ekki annað en fílað þau. Svo ég kveiki á útvarpinu í bílnum af mikilli varkárni. 

Allavega, uppáhalds-jólalagið mitt er annað hvort The Christmas Song eða Little Christmas Tree í flutningi Jackson 5. Það fer eftir því í hvers konar skapi ég er í. Jólaplatan þeirra er algjörlega einstök og ég skil hreinlega ekki að hún skuli ekki vera spiluð víðar. Þarna er Michael Jackson á hátindi barnslegrar snilligáfu sinnar, það er að segja rétt áður en rödd hans dýpkaði, og getur því sungið um jólin af einlægni og birtu barnsins. Að vísu er The Christmas Song sungið af Jermaine Jackson.  

Besta jólagjöf sem þú hefur fengið?

Ég man hvað ég var glaður að fá áðurnefnda Sega-tölvu. Svo fékk ég einu sinni snjósleða frá forleldrum mínum og sá pakki rennur mér aldrei úr minni, hvernig hann stóð þarna uppréttur í stofunni hjá trénu, gnæfði yfir mér eins og háhýsi enda var ég ekki mikið hærri en brunahani á þessum tíma. Í seinni tíð hef ég líka fengið margar frumlegar og fyndnar jólagjafir og ég hló alveg svakalega fyrir tveimur árum þegar ég fékk eintak af Mein Kampf í jólagjöf frá vini mínum. Mér fannst það alveg ofboðslega fyndin jólagjöf, en ég veit þó ekki hversu margir deila þeirri skoðun minni.  

En sú versta?

Satt best að segja man ég ekki eftir því að hafa fengið neina vonda jólagjöf. Þetta svar væri auðvitað mun áhugaverðara ef ég hefði einhvern tímann fengið flugferð aðra leið til Færeyja í jólagjöf eða Biblíu úr stáli (vinur minn fékk einu sinni svoleiðis, en það er samt um leið eiginlega líka besta jólagjöf sem hann hefur fengið). En til þessa hef ég alveg sloppið við það að fá slæma jólagjöf

Hvernig og hvenær verslar þú jólagjafirnar?

Amazon Prime. Það er afskaplega ávanabindandi þjónusta í London. Maður sest við tölvuna síðdegis og pantar sér hvaðeina; bækur eða tannþráð eða sturtuklefa og góssið er komið upp að dyrum til þín morguninn eftir. Ég keypti allar gjafirnar þaðan, nema ákveðinn hlut sem ég hannaði frá grunni og þurfti að láta fjöldaframleiða fyrir mig — verður svona lítill aukaglaðningur til allra. Ég græjaði allar þessar gjafir snemma í desember en ég er yfirleitt að hugsa um þær af og til yfir allt árið. Vega og meta. Máta hugsanir og tillögur við raunveruleikann. 

Gerir þú eitthvað sérstakt í desember?

Ég hef einhvern veginn alltaf tengt desember við það að vera í prófum. Þegar ég var í lagadeild kláruðust síðustu prófin stundum ekki fyrr en síðdegis 21. desember og þá steig maður út af Lögbergi eða Þjóðarbókhlöðunni og pírði augun á öll þessi ljós, öll þessi to-go-kaffimál og dúnúlpur á Laugaveginum og reyndi að trekkja sig ofurhratt upp í jólaandann. Það er svo stutt síðan ég kláraði að ég hef ekki haft tíma til þess að tileinka mér einhverjar desember-venjur. Ég hef þó síðustu tvö ár farið með góðum félaga á Kaffitár í Kringlunni 22. desember að kvöldlagi. Það er hátindur jólaverslunarinnar og það er eitthvað ótrúlega kraftmikið við það að sitja þarna í Kringlunni, undir rúllustiganum, þamba í sig Chai Latte undir corporate jólatónlist í kerfinu og gjörsamlega drekka í sig þessa gervijólastemmningu. 

Ég sætti mig við það fyrir ekki svo löngu að það sem ég þekki og skil sem „hina einu sönnu jólastemmningu“ er nákvæmlega það sem fyrirtæki og auglýsingar hafa selt mér frá blautu barnsbeini að sé „hin eina sanna jólastemmning“. Það er 650 kr. kaffidrykkur í rauðu pappamáli sem heitir eftir graskeri, það er Gunni Óla að syngja Komdu um jólin inni í Útilífi eða compilation diskur með jólalögum Frank Sinatra inni á Starbucks. Síðan ég lagði niður vopnin gagnvart markaðsjólum hef ég notið þeirra mun meira.  

Hvað borðar þú á jólunum?

Við borðum yfirleitt kalkún. Svo franska súkkulaðiköku í eftirrétt. Mjög falleg og fullnægjandi máltíð en um leið ekki of þung í maga. 

Eftirminnilegustu jólin?

Engin ein þeirra hafa verið öðrum eftirminnilegri. Tilteknar gjafir eru eftirminnilegar og auðvitað spennu-veikindin sem sóttu oft á mig í barnæsku en í minningunni hafa öll jól lífs míns verið ánægjuleg og hugguleg. Það er ekki þar með sagt að þessi tími sé alltaf einhver rósadans. Auðvitað getur maður glímt við erfiðleika af einhverjum toga á þessum tíma sem öðrum og kannski verða mótlæti og vonbrigði ennþá sárari á þessum árstíma enda hefur manni verið kennt að þetta sé tíminn þar sem allt eigi að vera fullkomið, gallalaust og dásamlegt. 

Hvað er það besta við jólin að þínu mati?

Bílferðirnar. Allar bílferðir verða eitthvað svo merkingarþrungnar yfir jólin. Ég veit ekki hvort þetta er eitthvað sem margir tengja við og þetta er tilfinning sem ég á erfitt með að koma í orð. 

Halldór Armand, en myndin var tekin í útgáfuhófi hans.
Halldór Armand, en myndin var tekin í útgáfuhófi hans. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál