Sefur með hárið í snúð til að fá meiri lyftingu

Harpa Guðjónsdóttir ásamt Guðjóni syni sínum.
Harpa Guðjónsdóttir ásamt Guðjóni syni sínum.

Skartgripahönnuðurinn og flugfreyjan Harpa Guðjónsdóttir, eigandi merkisins HARPA jewelry, hugsar sérstaklega vel um heilsuna og að hafa jafnvægi á lífinu. Skartgripir hennar eru seldir í versluninni Evu, í Leonard og í Kultur í Kringlunni. Ég spurði hana örlítið út í heilsufarið og bjútítrixin.

Hugsar þú vel um heilsuna? Já ég myndi segja að ég geri það alla jafna. Ég byrja daginn alltaf á því að fá mér vatnsglas með sítrónusafa, síðan er það „balance sjeikinn“ minn og í kjölfarið hollur boost. Mér finnst skipta máli að hafa reglu á morgunmatnum því að þá hugsar maður betur um hvað maður lætur ofan í sig það sem eftir lifir dags. 

Stundar þú líkamsrækt? Ég er að byrja aftur í líkamsrækt eftir pásu þannig að því fylgir mikil tilhlökkun. Kláraði dásamlegt jóganámskeið í Yoga Shala um daginn og hyggst halda þeirri ástundun áfram. Síðan taka við lyftingar, sund, spinning og hot yoga eftir áramót.

Hvernig slappar þú af eftir annasaman dag? Ég hef alltaf haft mjög gaman af því að elda góðan mat og finnst yfirleitt mjög gott að slaka á yfir pottunum. Ég er þekkt fyrir að drekkja heimili mínu í kertaljósum, það róar hugann og fær mann til að slaka á. Eins finnst mér gott að setjast niður og gera skartgripina mína, þar myndast góð orka sem fær mig til að líða vel.

Hvaða dagkrem notar þú? Í gegnum árin hef ég notað hin ýmsu merki allt frá ódýrum til dýrari merkja. Ég hef trú á því að það sé hollt fyrir húðina að skipta reglulega um tegund. Á veturna nota ég gjarnan sýrukrem ásamt góðum raka til að byggja upp húðina. Eins og er þá nota ég Episilk sýrudropana en þeir eru náttúrulegir og það líkar mér vel, er smátt og smátt að fikra mig í þá áttina.

Hvaða farða notar þú og hvers vegna notar þú hann? Ég er mjög hrifin af Bare Minerals vörunum. Ég gjörsamlega féll fyrir nýja fljótandi farðanum þeirra sem heitir Bare Minerals BARESKIN, hann jafnar húðlitinn og gefur húðinni fallegan ljóma þar sem hann inniheldur til þess sérstakt serum. Ég er mikið spurð um hvaða andlitsfarða ég nota og gef ég þessum ljómandi góða farða fyrstu einkunn.

Hvert var fyrsta bjútítrixið sem þú lærðir og hefur notað allar götur síðan?

Að byrja daginn á því að skrúfa frá kalda vatninu á baðherberginu, ganga svo hálfsofandi í eldhúsið og græja sítrónuvatn. Fara svo inn á bað og skvetta framan í mig ísköldu vatninu, drekka svo sítrónuvatnið. Nú svo er lykilatriði að  hreinsa húðina vel, það lærði ég snemma af mömmu minni. Ég fjárfesti nýlega í Clarisonic Aria bursta til að hreinsa húðina og finnst hann æðislegur. Nú svo nota ég rakamaska a.m.k. vikulega, ég hef um nokkurn tíma notað Algae maskann frá Bláa Lóninu, hann er frábær.

Hvert er besta bjútíráð allra tíma fyrir utan að sofa nægilega mikið og drekka vatn?

Ég hef lært það í gegnum tíðina að það er mikilvægt að næra líkama og sál til að líða vel. Ef þetta helst í hendur þá held ég að maður geisli af heilbrigði og vellíðan. Nú svo skiptir máli að raða í kringum sig fólki sem gerir mann að betri manneskju og auðgar lífið og tilveruna, lífið er of stutt fyrir leiðinlegheit og vandamál.

Hvað gerir þú dagsdaglega til að láta þér líða betur?

Hjá mér eru dagarnir svo ólíkir, allt frá því að vera heima í faðmi fjölskyldunnar, vinna að skartgripunum mínum, mæta í flug með dásamlegu fólki eða hitta vinkonur og vini. Það sem mér finnst mikilvægt er að vera þakklátur fyrir það sem maður hefur, þakklátur fyrir að hafa góða heilsu, þakklátur fyrir að eldast og þroskast, þakklátur fyrir að vinna við það sem maður hefur ástríðu fyrir og að hafa gott fólk í kringum sig. Þetta minni ég mig á dagsdaglega, það fær mig til að njóta líðandi stundar og líða vel.

Hugsar þú mikið um mataræðið og er eitthvað sérstakt sem þú borðar ekki?

Eins og ég sagði áður þá byrja ég daginn á næringarríkri og hollri máltíð. Reyni svo að halda deginum í svipuðum takti en það tekst oft misvel til sökum þess að ég vinn vaktavinnu og borða oft á öllum tímum sólarhringsins. Ég á því oft mínar óhollu syrpur en bæti þær svo upp með súperhollum sjeikum og hreinum mat inn á milli. Annars hef ég verið með mjólkuróþol til margra ára ásamt glútenóþoli sem hefur sett mér ákveðnar skorður en eftir að t.d. Arna fór að framleiða laktósafríu vörurnar sínar þá hef ég öðlast nýtt líf.

Hvað er að finna í snyrtibuddunni þinni?

Ó guð hvar á ég að byrja? Ég er varalita, kinnalita og glossasjúk. Ég er því alltaf með a.m.k tvennt af hverju. Nú svo er sólarpúðrið nauðsyn á veturna ásamt góðum maskara og augnblýanti.

Hvert er besta hártrixið í bókinni?

Þvo hárið ekki of oft. Sofa með það í léttum snúð ofan á höfðinu til að fá extra ,lift´ í hárið. Mér finnst hárið alltaf náttúrulegast og fallegast með léttum „sléttujárnsliðum“, eins elska ég að taka hárið upp í háan snúð eða í laust tagl.

Hverju skartar þú á jólunum?

Ég elska að gera mig fína á jólunum og legg mikið upp úr því að allir á heimilinu séu í sínu fínasta pússi þegar jólin hringja inn. Ég mun annaðhvort klæðast pallíettukjól sem ég hef átt um tíma og er frá Karen Millen eða síðkjól sem ég fékk mér nýverið frá Andreu.

Armbönd frá Hörpu.
Armbönd frá Hörpu.
Síð hálsfesti úr smiðju Hörpu.
Síð hálsfesti úr smiðju Hörpu.
Það er fallegt að hafa mörg armbönd saman.
Það er fallegt að hafa mörg armbönd saman.
Þessar hálsfestar voru að koma á markað.
Þessar hálsfestar voru að koma á markað.
Þessi hálsfesti hressir upp á jóladressið.
Þessi hálsfesti hressir upp á jóladressið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál