Peningamál viðkvæmari en kynlíf

Edda Jónsdóttir markþjálfi hjá Edda Coaching.
Edda Jónsdóttir markþjálfi hjá Edda Coaching. Ljósmynd/Aldís Pálsdóttir

Edda Jónsdóttir  leiðtogamarkþjálfi sem rekur fyrirtækið Edda Coaching segir að umræður um peninga séu oft viðkvæmari en tal um kynlíf. Hún sérhæfir sig í að greina peningaerkitýpur og hjálpar fólki að ná betur utan um fjármál sín. Þegar hún er spurð að því hvernig peningaerkitýpugreiningin geti breytt lífi fólks segir hún að margir dragnist með niðurbrjótandi sjálfshugmyndir tengdar peningum en erkitýpuvinnan leiði í ljós að allir geti orðið góðir í að höndla peninga. 

„Fyrst og fremst snýst þetta um að tengjast peningum. Margir eru svo ótengdir peningum, sérstaklega eftir hrun þegar peningar voru  málaðir svörtum litum. Við tengdum hugmyndina um peninga við eitthvað vont. Með greiningunni lærir fólk að tengjast peningum, skapa meðvitund um tilvist þeirra og gera sér grein fyrir í hvað þeir fara. Oft erum við föst í skorti, að það sé í lagi að hugsa ekki um peninga því við eigum ekki nóg af þeim. Við eignumst ekki peninga ef við hugsum svona,“ segir Edda.

Hér fyrir neðan er listi af átta erkipeningatýpum og hvað einkennir þær:

Tengiliðurinn, innri sambandsskaparinn (plöggarinn). Tengiliðurinn er afslöppuð týpa sem er minnst tengd peningum, mun meira tengd fólki. 

Alkemistinn, innri hugmyndasmiðurinn. Alkemistinn á það sameiginlegt með dægurstjörnunni að bera kennsl á styrkleika annarra. Þessi týpa býr yfir mikilli hugmyndaauðgi – hreinlega framleiðir hugmyndir. Það er áskorun fyrir alkemistann að koma þessum hugmyndum í framkvæmd og hagnast á þeim. Félagslegt réttlæti skiptir þessa týpu meira máli en peningar. Alkemistinn notar peninga gjarnan til að breyta heiminum.

Safnarinn, innri bankastjórinn. Hann á auðvelt með að safna peningum. Þeir eru með sín fjármál á hreinu. Þeir tala um að eyða peningum meðan dægurstjarnan og rómantíkerinn „nota“ peninga. Áskorun safnarans er að læra að njóta peninga og nota þá.

Dægurstjarnan, innri stórlaxinn. Dægurstjarnan hefur mikla leiðtogahæfni og dregur það besta fram í öðrum. Gjarnan fólk með mikla útgeislun. Stundum er sagt að dægurstjarnan sé alltaf með fimm stjörnu fólk í kringum sig. Dægurstjarnan elskar að skera sig úr fjöldanum. 

Frumkvöðullinn, innri uppreisnarseggur með málstað. Frumkvöðullinn er allaf að víla og díla og græðir en áskorun frumkvöðulsins endurspeglast í máltækinu Vogun vinnur, vogun tapar. En til allrar hamingju er frumkvöðullinn trúr sannfæringu sinni og veit að hann getur alltaf grætt aftur.

Nærandinn, innri stuðningsaðilinn er einstaklega trygglynd og gefur mikið af sér. Hún er bæði örlát á tíma og peninga. Nærandinn glímir oft við að setja fólki mörk og á það til að setja sjálfa sig aftarlega í forgangsröðina. 

Stjórnandinn, innri stórveldisskaparinn. Alltaf að finna ný og spennandi tækifæri og skapa verðmæti. Það verður gjarnan til stórveldi þar sem stjórnandinn kemur að málum. Hans áskorun felst í að njóta augnabliksins og að setja mælistiku á hvað er nóg. 

Rómantíkerinn, innri lífsnautnamanneskjan. Hún kaupir sér hluti því henni finnst hún eiga það skilið. Hún sér peninga sem óþrjótandi lind og á það til að eyða peningum hvatvíslega. Áskorunin felst oft í hvatvísri peningaeyðslu og því að forðast að horfast í augu við fjárhagsstöðuna eins og hún er. 

Edda segir að allar erkitýpurnar hafi einhverja eiginleika til að verða góðar í peningamálum og fara vel með þá.

„Nálgunin er bara mismunandi að sama markmiði. Það er voða gott fyrir mann að vita hvernig maður er og geta gengist við því. Það eru ákveðnir hlutir sem verða auðveldari ef þú gengst við sjálfri þér. Þegar við vitum hver áskorunin er, eigum við auðveldara með að nota tilteknar aðferðir til að ná fjárhagslegum markmiðum. En svo er annað mál að fjárhagslega markmið eiga það til að gleymast. Við setjum gjarnan markmið um líkamsrækt og mataræði en ekki beinlínis fjárhagsleg markmið þó við stefnum ef til vill að því að eignast eitthvað ákveðið,“ segir Edda. 

Þegar Edda er spurð að því hvernig hún finni út hver sé hvaða týpa segist hún leggja persónugerðarpróf fyrir fólk í skriflegu formi. Í framhaldinu reiknar hún út niðurstöðurnar.

„Ég kalla það lestur, það er ákveðið samspil á milli þriggja efstu erkitýpanna. Ef þessar þrjár efstu eru mjög ólíkar getur skapast mikil togstreita um peninga og þess vegna skiptir máli að þær læri að tali saman í stað þess að vera að rífast,“ segir hún.

Edda segir að það séu oft ólíkar peningatýpur sem búi innra með okkur.

„Tökum dæmi um konu sem er með safnarann sem efstu erkitýpuna og alkemistann númer tvö. Þá myndi safnarinn segja við alkemistann, búum nú eitthvað sniðugt til úr þessum hugmyndum. Gerum eitthvað sem við getum grætt á. Ef rómantíkerinn er númer þrjú þá gerir hann kröfu um að fá svolítið að njóta lífsins. Safnarinn gæti þá mögulega stungið upp á því að rómantíkerinn fengi x upphæð til þess að njóta lífsins því hann er svolítið hvatvís og á það til að kaupa sér eitthvað til að fylla upp í tómarúm. Þegar þessar þrjár týpur mætast í einu og sömu manneskjunni er auðvelt að viðkomandi fái samviskubit yfir eyðslunni til dæmis,“ segir hún.

Þegar fólk er búið að taka prófið hjá Eddu fer það annaðhvort í 90 daga eða hálfs árs prógramm. Hún hittir kúnnann aðra hvora viku eða talar við fólk í gegnum skype ef það hentar fólki betur vegna búsetu eða annarra aðstæðna.

HÉR er hægt að horfa á greiningu á jólaerkitýpunum. 

Edda Jónsdóttir markþjálfi fer yfr jólaerkitýpurnar.
Edda Jónsdóttir markþjálfi fer yfr jólaerkitýpurnar. Ljósmynd/Aldís Pálsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál