Vann í Konukoti og lét hendur standa fram úr ermum

Ingibjörg Reynisdóttir segir að 2014 hafi verið viðburðarríkt ár.
Ingibjörg Reynisdóttir segir að 2014 hafi verið viðburðarríkt ár.
„2014 var var gott ár. Mesta orkan fór í að leggja lokahönd á nýjustu bókina mína Rogastanz. Eins notaði ég tímann til að leggja grunn að kvikmyndahandriti byggðu á bókinni en efni hennar er mjög kvikmyndavænt. Ég hef þegar fengið fyrsta handritsstyrkinn frá Kvikmyndamiðstöð Íslands og nú er bara að halda ótrauð áfram,“ segir rithöfundurinn og leikkonan Ingibjörg Reynisdóttir þegar hún er spurð að því hvernig 2014 var.

Hvað stendur upp úr? Ætli það sé ekki sjálf fæðingin, eftir langa og stranga meðgöngu, útgáfudagurinn 29. okt. (sem er vel að merkja afmælisdagur Gísla á Uppsölum). Það er alltaf ákveðinn áfangi þegar sköpunarverkið öðlast sjálfstætt líf og flýgur úr hreiðrinu.“

Hver var hápunktur ársins? Útskriftardagur dóttur minnar úr menntaskóla var stór dagur. Hvítasunnuhelgin var líka alveg hreint frábær, þá komu danskir vinir mínir til Íslands og dvöldu hér í fjóra daga. Ég fór með þau vítt og breitt um Suðurlandið og það var ekki eitt ský á himni allan tímann. Svo stendur óneitanlega upp úr að hafa hitt meistarann Mike Leigh á Riff-hátíðinni, átt við hann spjall og getað laumað að honum Óróa á dvd til að taka með sér heim.“
Hver var lágpunktur ársins? Ég var bara í mesta basli við að finna svar við þessari spurningu, en eftir tvö símtöl og hjálp við að rifja upp hvað hefði gerst á árinu komst ég að því að það fúlasta á árinu var líklegast að komast óvænt í prufur fyrir sjónvarpsseríuna Ófærð, standa sig það vel að vera kölluð í „recall“ en fá svo ekki hlutverkið. Þetta er jú hörkusamkeppni. Sárabótin er kannski þó sú að Baltasar Kormákur er að fara að ráðast í aðra enn stærri seríu og man þá vonandi frekar eftir mér fyrir prufur í þá ágætu þætti.“

Strengdir þú áramótaheit og stóðstu við það? „Nei, ég strengi voðalega sjaldan áramótaheit núorðið. Ég reyni bara að hafa jafnvægi í lífinu, leyfa mér smáóhollustu hér og hvar en vera svo líka dálítið heilsusamleg þess á milli.

Hvað kenndi 2014 þér? Ég er alltaf að átta mig betur á því að það gerir enginn hlutina fyrir mann, það eina sem dugir, ef maður ætlar að koma hlutum í verk, er að láta hendur standa fram úr ermum og ganga í málin. Beinið í nefinu á mér er líka að verða sterkara með árunum og ég er farin að læra að standa betur með sjálfri mér. Eins átta ég mig betur á því núorðið að það er ekki allt sjálfsagt í þessum heimi og ég er þar af leiðandi þakklátari fyrir hlutskipti mitt, ég veiti þakklætinu meiri athygli en áður. Mér finnst ég lánsöm, bæði hvað varðar fjölskyldu, vini og starf, og það eru forréttindi. Ég hef verið starfskona í Konukoti á þessu ári, meðfram öllu því sem ég er að bardúsa, en það er neyðarskýli fyrir heimilislausar konur. Það er gefandi starf en getur einnig tekið á. Raunveruleki þessara kvenna er mjög frábrugðinn mínum eigin raunveruleika og fólksins í mínu nærumhverfi og það opnar óneytanlega augu manns fyrir því hvað lífið getur stundum verið miskunnarlaust.

Ætlar þú að strengja áramótaheit fyrir 2015? „Kannski bara það að halda áfram að vera eljusöm, velja mér samstarfsaðila þar sem ríkir traust og gagnkvæm virðing og svo auðvitað eiga fleiri og betri stundir með fólkinu mínu. Ég væri lítið án þeirra.“

Hverjar eru vonir þínar og væntingar fyrir 2015? Ég tek nýju ári fagnandi. Það eru spennandi tímar framundan, fjöldi verkefna sem þarf að klára, bæði mín eigin og svo samstarfsverkefni með hópi frábærra listamanna. Ég vona líka að óvænt tækifæri bíði mín handan hornsins. Sem leikari veit maður aldrei hverjir banka upp á. Nú langar mig að takast meira á við leiklistina, það er svo nauðsynlegt að fara út á gólf og komast í smá „action“ svona meðfram skrifum.“
Ingibjörg Reynisdóttir og Óskar Gunnarsson.
Ingibjörg Reynisdóttir og Óskar Gunnarsson. mbl.is/Ómar Óskarsson
Ingibjörg Reynisdóttir áritar bókina.
Ingibjörg Reynisdóttir áritar bókina. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál