Verð fáránlega væmin um áramót

Björt Ólafsdóttir þingmaður Bjartrar framtíðar.
Björt Ólafsdóttir þingmaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Árið var viðburðaríkt og gott. Á margan hátt rólegra en árið á undan, en margt á hinum ýmsu sviðum hefur fengið að gerjast og þróast í rétta átt held ég á þessu ári,“ segir Björt Ólafsdóttir þingmaður Bjartrar framtíðar aðspurð hvernig 2014 hefði verið.


Hvað stendur upp úr?
„Samvera ýmiskonar með vinum og fjölskyldu. Almennt stúss, eins og skíðaferðir og sumarbústaðaferðir með hálft eldhúsið með því það þarf að kokka eitthvað flókið. Hlátursköst með bræðrum mínum hafa verið mörg og kvöldrútínan með syninum hefur verið einstaklega góð á árinu sem veit hann fær lesna bók ef hann knúsar mömmu sína nógu mikið.“

Hver var hápunktur ársins?

„Sumarið - þegar það loksins kom. Það einkenndist af ferðalögum um landið og tónleikaupplifunum ýmiskonar. Við stórfjölskyldan fóum í tjaldferðalag á Drangsnes á Sumarmölina svokölluðu, í stórkostlegustu náttúru Íslands. Svo fórum við hjónin á ATP eins og undanfarin ár með vinum okkar. Ég ætla aldrei að sleppa því.“

Hver var lágpunktur ársins? „Veikindi í fjölskyldunni voru erfið, en horfa til betri vegar.“

Strengdir þú áramótaheit og stóðstu við það? „Já ég gerði það, geri það oftast og það stóðst líka held ég. Ég verð fáránlega væmin um áramót, það er einhver arfleifð úr æsku þar sem allir felldu tár þegar nýtt ár var að ganga í garð og þakkað var fyrir hið liðna ... Áramótaheitin eru nú oftast frekar keimlík. Snúast um að verða betri manneskja á einhvern hátt, vera fylgin sér og gera betur.“

Hvað kenndi 2014 þér? „Að verða rólegri og yfirvegaðri í kapphlaupinu um að gera betur í störfum mínum. Þetta hefst helst með seiglunni. Svo kenndi árið 2014 mér líka að ég þarf ekki að gera allt sem mig langar í lífinu í einu. Það er einhver miskilningur bara. Ég held ég geymi til dæmis ferðadrauma og landkönnuðinn í mér þangað til seinna þegar ég hef nægan tíma. Árið leiddi það vel í ljós að ég er hamingjusömust í núinu, en það þarf að passa upp á að halda sér þar.“

Hverjar eru vonir þínar og væntingar fyrir 2015?

„Ég vona að allir mínir haldist heilbrigðir og glaðir. Ég bind líka miklar væntingar við að ég kannski nenni eins og einu sinni á árinu að taka til í geymslunni. Það er nú áramótaheit sem þyrfti aldeilis að uppfylla.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál