Ekki nógu feit fyrir Biggest Loser

Agnes Wild: „Ekki nógu feit fyrir Biggest Looser en ekki …
Agnes Wild: „Ekki nógu feit fyrir Biggest Looser en ekki nógu grönn til að vera fyrirsæta.“ Styrmir Kári

Agnes Wild útskrifaðist úr East 15 leiklistarskólanum í London fyrir tveimur árum en flutti aftur heim í maí í fyrra. Hún starfar jöfnum höndum að listinni hér og í London en þar starfrækir hún leikhóp sinn við góðan orðstír. 

„Við höfum þegar sett upp tvær sýningar en í maí fer ég út í að minnsta kosti mánuð til að undirbúa þriðju sýninguna. Sú fjallar um arfgengt brjóstakrabbamein en stelpa sem er með mér í leikhópnum greindist með þessa tegund af krabba, BRCA1, og skrifaði leikrit um reynslu sína og upplifun,“ segir Agnes.

Leikhópurinn hennar heitir The Lost Watch en í sumar mun hópurinn halda til Edinborgar þar sem verkið um krabbameinið verður sýnt samfleytt í heilan mánuð, eða út þann tíma sem leiklistarhátíð borgarinnar stendur yfir frá 5.-31. ágúst. 

Lærði sjálfstæð vinnubrögð

Agnes hefur annars í nægu að snúast við leiklistina enda var sérstök áhersla lögð á sjálfstæð vinnubrögð í skólanum í London. 

„Ég lærði það sem kallað er contemporary theatre með áherslu á handritagerð, leikstjórn, trúðaleik og margt fleira. Við lærðum að búa til okkar eigin verk og vinna sjálfstætt svo maður geti alltaf haldið áfram að vinna og þurfi ekki endilega að vera öðrum háður,“ segir Agnes sem tekur nú þátt í uppsetningu á verki sem kallast Carol berserkur.

Verkið verður frumsýnt í Tjarnarbíó hinn 9. apríl en að baki því er leikhópur sem kallast Spindrift Theatre og samanstendur af konum sem rekja ættir sínar til Norðurlanda. 

Óhætt er að fullyrða að Agnes deili leiklistarbakteríunni með ömmu sinni Maríu Guðmundsdóttur sem margir kannast við sem aukaleikara í ýmsum sjónvarpsþáttum, meðal annars þáttunum Konfekt, sem voru sýndir á fyrstu árum Skjás eins og Steinda. Saman hafa þær ræktað áhugamálið frá því Agnes var unglingur en eftir að Agnes flutti aftur heim hafa þær verið sérlega duglegar. 

Með ömmu sinni í uppistandi

„Þegar ég flutti heim í fyrra ákváðum við að gera eitthvað saman, ég atvinnulaus leikari og hún á eftirlaunum. Við byrjuðum á að fara á námskeið í skapandi skrifum sem var haldið á vegum LHÍ en því næst tók við uppistandsnámskeið Þorsteins Guðmundssonar,“ segir Agnes. 

„Ég hef alltaf haft gaman af uppistandi og amma líka. Svo fórum við á þetta námskeið og lærðum hvernig maður á að bera sig að. Amma grínaðist um eftirlaunaþega og ég talaði meðal annars um raunveruleikaþætti og hvernig það er að vera of feit,“ segir Agnes og útskýrir að þetta með aukakílóin hafi alla tíð flækst fyrir henni. 

„Maður talar auðvitað bara um það sem maður þekkir. Ég hef alltaf verið of feit en aldrei tekist að grenna mig neitt að ráði. Þegar maður er starfandi þarna úti í London með öllu fallega fólkinu í þessum bransa verður pressan auðvitað extra mikil. Ég held samt að allir séu með útlit sitt á heilanum með einum eða öðrum hætti. Ég hef hitt háar og tággrannar stelpur sem eru samt á því að þær séu með of feita upphandleggi,“ segir hún. 

Ekki nógu feit fyrir Biggest Loser

„Í einni ferð minni hingað til Íslands sá ég að það var verið að auglýsa eftir fólki til að taka þátt í Biggest Loser. Ég sá mér leik á borði. Þetta var lausnin. Ég myndi slá tvær flugur í einu höggi, taka þátt í raunveruleikaþætti og grennast,“ segir hún og hlær. 

„Svo komst ég að því að maður þurfti að vera að lágmarki 120 kíló til að fá að vera með og þar fyrir utan hafði ég engan tíma til að vera langt í burtu frá mannabyggðum í margar vikur. Hversu glatað er þetta eiginlega? Ég er ekki nógu feit til að vera með í Biggest Loser en ekki nógu grönn til að vera fyrirsæta. Hvers á maður að gjalda?“ grínast Agnes en bætir við að loks hafi hún bara ákveðið að sættast alveg við sjálfa sig ... tekur svo andartaks pásu: „Þótt það mættu auðvitað fara eins og tuttugu kíló eða svo.“

Kvenfélagsgrín í Mosfellsbæ

Þegar þær útskrifuðust af uppistandsnámskeiðinu hófu þær Agnes og amma hennar námskeið í spuna en framundan hjá þeim er leikrit sem María skrifar upp úr fundagerðum kvenfélags Mosfellsbæjar og Agnes leikstýrir. Milli tíu og fimmtán konur taka þátt í uppsetningunni sem er blanda af söng og revíu. 

„Þetta er mjög fyndið verk og fróðlegt. Fundargerðirnar ná eitthvað hundrað ár aftur í tímann en verkið er flutt í tilefni af 100 ára kosningarétti kvenna sem er á þessu ári,“ segir þessi skapandi og skemmtilega kona að lokum. 

Rétt er að geta þess að kvenfélagsleikritið verður flutt á bókasafni Mosfellsbæjar hinn 28. apríl klukkan 20:00. 

Leikkonan Agnes er með ótal verkefni framunda.
Leikkonan Agnes er með ótal verkefni framunda. Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál