Aðalfjörið fyrir vestan

Birna Jónasdóttir.
Birna Jónasdóttir. Af vef BB

„Hátíðin hefur vaxið með hverju ári; upphaflega var um eitt kvöld að ræða sem síðan þróaðist yfir í tvö og nú er svo komið að gleðin hefst strax á fimmtudeginum, á skírdag, með óformlegri upphitun fyrir helgina og tónlistarviðburðum á víð og dreif um bæinn,“ segir Birna Jónasdóttir, rokkstjóri tónlistarhátíðarinnar Aldrei fór ég suður, sem haldin verður á Ísafirði í 12. sinn páskahelgina 3.-4. apríl.

Aldrei fór ég suður – sem gjarnan er nefnd rokkhátíð alþýðunnar – laðar árlega að sér mikinn fjölda tónlistarunnenda og Birna lofar frábærri músíkveislu fyrir alla fjölskylduna með þéttskipaðri og fjölbreyttri dagskrá. „Á föstudaginn langa verður hátíðin formlega sett klukkan 20 með tónleikum í kirkjunni, í framhaldinu getur fólk svo skellt sér á grínbræðing, útitónleika eða hlustað á lifandi tónlist á kaffihúsum bæjarins.“

Eyrarrósin afhent

Tónlistarveislan daginn eftir verður heldur ekki af lakari endanum, að sögn Birnu. „Laugardagurinn verður smekkfullur af gleði. Eyrarrósin, viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni, verður afhent hér vestra um hádegisbil en verkefnin sem keppa um verðlaunin í ár eru Frystiklefinn á Rifi, Listasafn Árnesinga í Hveragerði og Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði.

Margt verður í boði á laugardeginum, frá morgni til kvölds. Hægt verður að skella sér á heimkomuhátíð í Háskólasetrinu, sækja súputónleika í Krúsinni og síðast en ekki síst er það Skemman okkar inn við Grænagarð þar sem tónlistin mun óma og gleðja hátíðargesti frá klukkan 17 og fram eftir kvöldi.“

Sterk ættarbönd

Aðspurð segir Birna tónleikagesti koma úr ýmsum áttum, þó vissulega séu heimamenn fyrirferðarmiklir ásamt brottfluttum Ísfirðingum. „Hátíðargestir koma alls staðar að. Ísfirðingar og brottfluttir ættingjar og vinir setja sterkan svip á hátíðina en líka nemar, fjölskyldur og aðrir sem hafa ánægju af því að hlusta á góða tónlist en tengjast Vestfjörðum ekki á nokkurn hátt.

Sjálf er ég dæmigerður Ísfirðingur. Ég er fædd hér og uppalin, lagðist svo í nokkurra ára flakk um heiminn en fluttist aftur hingað vestur fyrir nákvæmlega einu ári. Fjarlægðin og árin hafa engu breytt um það að á Ísafirði finnst mér ég alltaf vera komin heim. Það loðir við okkur Ísfirðinga að leita hingað aftur, á æskuslóðirnar, og hátíðin er frábært tækifæri fyrir bæjarbúa og brottflutta til að hittast og endurnýja kynnin.“

Hún segir Rokkhátíð alþýðunnar vera réttnefni fyrir Aldrei fór ég suður; tónlistarhátíðin laði að fólk með misjafnan tónlistarsmekk og gestir séu á öllum aldri. „Á hátíðina mæta krakkar, eldri borgarar og allir þar á milli. Ekki er seldur aðgangur að tónlistarveislunni, hún er opin öllum og það er einmitt svo gaman að kynslóðir geti skemmt sér saman, ungir og gamlir. Oft má sjá þrjá og jafnvel fjóra ættliði standa hlið við hlið og dilla sér við ljúfa reggítóna, dúndrandi rokk eða tryllt popp.“

Frábær stemning

Birna segir tónlistarhátíðina mikla upplifun fyrir bæjarbúa og aðra gesti og hún sé mörgum árlegt tilhlökkunarefni. „Það er svo gaman á Aldrei fór ég suður, þá er frábær andi í bænum; þau orð sem koma fyrst upp í hugann eru virðing, samvinna, gestrisni og faðmlög. Ísfirðingar opna hjörtu sín og bjóða fólk velkomið í bæinn og gestir njóta páskanna á Ísafirði og finna vonandi flestir eitthvað við sitt hæfi í tónlist. Annars er erfitt að lýsa stemningunni á Ísafirði um páskana, menn verða bara að mæta til að upplifa hana sjálfir.“

Spurð út í framboð á gistingu á Ísafirði á páskum segir Birna þau mál alltaf hafa leyst farsællega. „Við erum svo heppin hér vestra að það er næga gistingu að fá; hótelin, gistiheimilin og íbúðirnar eru reyndar flest orðin vel bókuð en við virðumst geta tekið endalaust við. Það er stutt í nágrannaþorpin sem og bændagistingu á svæðinu, það ætti því enginn að þurfa að sofa í snjóhúsi.“

Mugison og Valdimar

Á Aldrei fór ég suður koma tónlistarmennirnir úr öllum áttum og bæði þekktar hljómsveitir og óþekktari troða upp, að sögn Birnu. „Við verðum með góða blöndu af ungum og eldri tónlistarmönnum, stærri nöfnum og lítt þekktari, og mismunandi tónlistarstefnum. Í ár verður sú nýbreytni að við dreifum viðburðunum um bæinn, í stað þess að notast eingöngu við Skemmu Gámaþjónustu Vestfjarða, og veljum markvisst húsnæði sem hentar mismunandi tónlist.

Meðal þekktra flytjenda á Rokkhátíð alþýðunnar á Ísafirði má nefna Mugison, Valdimar Guðmundsson, Prins Póló, Júníus Meyvant og Amaba Dama en meðal annarra flytjenda eru Pink Street Boys, Boogie Trouble, Emmsé Gauti, Guðríður Hansdóttir og Himbrimi. Saga Garðars og Hugleikur Dagsson verða með uppistand í Alþýðuhúsinu, sem einnig gengur undir nafninu Ísafjarðarbíó. Þá munu sigurvegarar Músíktilrauna 2015 stíga á sviðið og verður spennandi að sjá hverjir hreppa verðlaunin í ár.“

Birna tók við stöðu rokkstjóra Aldrei fór ég suður í ársbyrjun 2014 og segir hún starfið bæði krefjandi og skemmtilegt. „Rokkstjóri er nokkurskonar púslari, það eru ótrúlega margir sem koma að hátíðinni og margt sem þarf að smella saman. Það hefur aldrei verið erfitt að finna púslin eða virkja kraftinn sem þarf til að allt gangi upp, en það þarf einhver að hafa yfirsýn og tengja bitana rétt saman. Það má segja að starf rokkstjóra felist í því að spjalla, drekka fullt af kaffi og raða púslinu; ég reyndar uppfylli ekki alveg hæfniskröfur því ég drekk ekki kaffi.“

beggo@mbl.is

Páll Óskar Hjálmtýsson tryllti gesti Aldrei fór ég suður páskana …
Páll Óskar Hjálmtýsson tryllti gesti Aldrei fór ég suður páskana 2012. Ljósmynd/aldrei.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál