Mamma upplifði létti við að rjúfa þögnina

Þóra Karítas Árnadóttir.
Þóra Karítas Árnadóttir. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Það hefur alltaf blundað í mér að skrifa bók og ég var alltaf með penna og bók við höndina þegar ég bjó í London og var í leiklistarnámi. Eftir að ég flutti heim eftir námið vann ég mikið í leikhúsinu og var meðal annars í fjölbreyttum verkum í Þjóðleikhúsinu í rúmt ár, sem var mjög gaman. Efitr að tæpu árssýningartímabili á „Hart í bak“ eftir Jökul Jakobsson lauk setti ég sjálf upp einleikinn „Ég heiti Rachel Corrie“ í Borgarleikhúsinu en eftir það tímabil var ég ekki bundin við sýningar um stund. Þá kom tími þar sem ég fékk andrými til að hugsa um hvað mig langaði mest til að takast á við næst og þá voru skrifin ofarlega á blaði. Ég leyfði mér því að setja mér raunhæf markmið og sótti um Meistaranám í ritlist við Háskóla Íslands til að kanna skrifin betur. Svo leiddi eitt af öðru,“ segir Þóra Karítas Árnadóttir leikkona og rithöfundur sem sendi í vikunni frá sér bókina Mörk - saga mömmu. Bókin fjallar á mjög vandaðan og nærgætinn hátt um kynferðislegt ofbeldi sem móðir hennar varð fyrir. 

Þegar Þóra Karítas er spurð að því hvenær hún hafi byrjaði að vinna í bókinni segir hún að það séu tvö ár síðan.  

„Ég byrjaði fyrir tveimur árum með því að taka eitt viðtal við mömmu en eftir það tók sagan mig strax yfir.“

Hvernig skrifaðir þú bókina?

„Ég var svo heppin að vera með vinnustofu á Suðurgötu í ansi fallegu húsi og ég gat því laumað mér þangað ef ég þurfti frið. Þar tók ég viðtalið við mömmu og svo sat ég þar oft á kvöldin og stundum heilu dagana við skriftir. Ég skoðaði annála í bókabúðum og leyfði þeim að veita mér innblástur, keypti mér fallega bók og gullpenna og settist á kaffihús og byrjaði að skálda. Svo fór ég ein á Flúðir í sumarbústað yfir helgi og vann úr því sem komið var og skrifaði meira og það nýttist mér ótrúlega vel að vera bara ein með efni bókarinnar, fara í göngutúra milli þess sem ég skrifaði og fá algjört næði.“

Komu aldrei upp tímabil þar sem þú strandaðir?

„Ég upplifði þetta svolítið eins og flugvél sem var að taka á loft þegar mér var boðið að hoppa um borð. Eftir að hafa tekið ákvörðun um að skella mér með í ferðalagið var einhvern veginn ekki litið til baka, það var alltaf eitthvað skemmtilegt og nýtt til að skoða og kanna og tíminn flaug bara áfram þar til bókin var tilbúin.“

Hvernig var samband ykkar mæðgnanna á meðan á bókaverkefninu stóð?

„Mjög gott eins og alltaf. Þetta var mjög áreynslulaust ferli því hún var svo tilbúin til að rjúfa þögnina og segja sögu sína. Hún var alltaf að segja hvað hún væri glöð og sátt við þessa ákvörðun og fannst hún strax upplifa létti fyrir tveimur árum þegar hún gaf mér leyfi til að skrifa söguna.“

Hvað er framundan hjá þér?

„Ég er að fara upp á Hljóðbókasafn til að lesa bókina inn fyrir Blindrafélagið í næstu viku og er svo að skipuleggja sumarfrí sem ég ætla meðal annars að eyða í sveitinni minni fyrir norðan.“

Árni Blandon, Erla Rut Árnadóttir og Þóra Karítas Árnadóttir.
Árni Blandon, Erla Rut Árnadóttir og Þóra Karítas Árnadóttir. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál