Misstu maka sína og fundu ástina

Katrín Aðalsteinsdóttir og Kim Björgvin Stefánsson eru í viðtali við …
Katrín Aðalsteinsdóttir og Kim Björgvin Stefánsson eru í viðtali við DV í dag.

Katrín Aðalsteinsdóttir og Kim Björgvin Stefánsson kynntust í gegnum Ljónshjarta, sem er félag fyrir ungar ekkjur og ekkla. Katrín missti eiginmann sinn, Halldór Nilsson, 2012 en hann laut lægra haldi fyrir geðhvarfasýki. Kim missti eiginkonu sína, Sigrúnu Þöll Þorsteinsdóttur í apríl 2014. Í viðtali við DV ræða þau Kim og Katrín um lífið eftir makamissi.

„Við kynntumst í gegnum Ljónshjarta, sem er félag fyrir ungar ekkjur og ekkla. Þannig að hann er í sömu stöðu og ég. Við erum að byrja að búa almennilega saman núna,“ segir Katrín.

Í DV kemur fram að þau séu að koma sér fyrir í fínu húsi í Keflavík sem rúmi sex manna fjölskyldu en Katrín á þrjár dætur og Kim á einn son.

„Þetta small bara strax hjá okkur,“ segir Katrín sem geislar af hamingju þegar hún talar um kærastann sinn og lífið sem þau eru að skapa sér saman. „Stelpurnar eru farnar að kalla hann pabba, en það er eitthvað sem ég bjóst ekki við svona fljótt. Þær hafa auðvitað aldrei kynnst neinum pabba og tóku honum strax opnum örmum,“ segir hún í samtali við DV.

Katrín og Kim hittust fyrst í jólakortagerð á vegum Ljónshjarta, fyrir síðustu jól, þar sem öll börnin voru með í för. Og ótrúleg tilviljun réð því eiginlega að nánari kynni tókust með þeim fljótlega í kjölfarið. „Það vildi svo skemmtilega til að við vorum bæði á leiðinni til Parísar. Það liðu um tvær vikur á milli ferða hjá okkur. Hann fór á undan og kom og hitti mig þegar hann kom heim og sagði mér hvaða staði ég ætti að skoða. Svo bara fór hann eiginlega aldrei aftur,“ segir Katrín sposk á svip og skellir upp úr. Enda ansi skemmtilegt hvernig þau fundu hvort annað – akkúrat á réttum tíma.

„Þetta er eitthvað sem ég bjóst ekki við fyrir tveimur árum. Ég bjóst við að ég yrði ein að eilífu. Ég hugsaði með mér að ef ég kynntist manni, þá væri hann ansi ruglaður að taka við þessum pakka. Þetta var fjarlægur draumur sem ég bjóst aldrei við að rættist.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál