Keppnin er stökkpallur

Valgeir Magnússon, framkvæmdastjóri Pipar/TBWA.
Valgeir Magnússon, framkvæmdastjóri Pipar/TBWA. mbl.is/Rósa Braga

Sagan hefur sýnt að Eurovision getur verið stórt tækifæri fyrir hæfileikaríkt tónlistarfólk. Fyrir marga hefur keppnin reynst stökkpallur inn í heimsfrægðina og gert lítt þekkta listamenn að vellauðugum stjörnum. Aðrir hafa nánast gleymst strax og byrjað er að telja stigin.

Valgeir Magnússon fylgir íslenska hópnum út til Vínarborgar og er þar í hlutverki markaðsstjóra, fjölmiðlastjóra, umsjónarmanns og umboðsmanns. Þetta hefur hann gert frá árinu 2010. Valgeir er framkvæmdastjóri auglýsingastofunanr Pipar/TBWA og segir hann að þetta hlutverk hafi fallið í hans skaut í gegnum markaðsstarfið þar. „Fram að því hafði ég látið mér nægja að fylgjast með keppninni eins og allir aðrir.“

Risastór gluggi

Eurovision er mikið ævintýri og sjónarspil, og ef listamennirnir halda rétt á spilunum geta þeir notað keppnina til að koma sér á kortið til langframa.

„Eurovision-keppnin er umfram allt stór gluggi, og sennilega stærsti glugginn sem lítt þekktur söngvari getur fengið aðgang að. Það eru helst sjónvarpsþættir eins og Amerian Idol sem komast nálægt því að skapa viðlíka sýnileika en Eurovision er mun stærri viðburður og frábrugðið Idol að því leyti að söngvarinn eignast sitt eigið lag sem fylgir honum út allan ferilinn. Idol-keppnirnar felast eingöngu í því að flytja ábreiður.“

Hlutverk Valgeirs er að stuðla að því að keppendur nýti gluggann sem best. Felst stór hluti vinnunnar í því að skapa umgjörðina í kringum keppandann eða keppendurna svo að fjölmiðlar og fólkið heima í stofu skynji vel fyrir hvað listamaðurinn stendur.

„Starfið felst meðal annars í því að útbúa gott kynningarefni, halda úti vandaðri vefsíðu fyrir íslenska liðið og senda reglulega út fréttabréf til fjölmiðla og aðdáenda,“ segir Valgeir. „Við undirbúum okkur líka vel fyrir blaðamannafundina, pælum í því hvaða spurninga má vænta og hvernig svör eru við hæfi svo að listamaðurinn komi persónu sinni og ímynd vel til skila.“

Búa til heilsteypt vörumerki

Þarf að huga vandlega að heildarsamræminu á öllum vígstöðvum, og hvert smáatriði getur skipt máli, frá búningunum yfir í vel heppnaða myndatöku. „Í reynd erum við að vinna að því að gera listamanninn að vörumerki.“

Að þessu sögðu verður að muna að halda jarðsambandi. Jafnvel ef allt gengur að óskum í keppninni eru frægð og frami ekki vís. Valgeir segir líka hægt að skilgreina árangurinn á marga mismunandi vegu. Mjög fáir nái að nýta Eurovision til að verða næsta Celine Dion eða Abba en mörgum takist að skapa sér frægð víða um heim, öðlast skara aðdáenda og halda vel sótta tónleika hér og þar.

Markvisst hjá Heru

Af öllum íslensku keppendunum segir Valgeir að Heru Björk hafi tekist best að nýta tækifærið og hún hafi byggt ferilinn markvisst upp. „Útkoman er sú að hún hefur verið á þeytingi um heiminn undanfarin fimm ár og á fjögur alþjóðlega þekkt lög sem eru í spilun í fjölda landa.“

Það gerir árangur Heru ekki síst merkilegan að henni reiddi ekkert sérstaklega vel af í Eurovision þar sem hún landaði 19. sætinu. „Hún hefur unnið statt og stöðugt að þessu marki. Fyrst komst hún á kortið í forkeppninni í Danmörku með laginu „Someday“. Þá keppti hún fyrir hönd Íslands með „Je Ne Sais Quoi“, sendi frá sér lagið „Feel the Love Tonight“ sem varð einkennislag Gay Pride í New York og Mr. Gay USA, og loks ári síðar að hún tekur þátt í söngvakeppni í Síle með lagið „Because You Can“.

Valgeir bendir líka á að Hera hafi gætt þess að hafa svipaðan stíl á þeim lögum sem hún lagði áherslu á. „Sumir brenna sig á því að verða frægir fyrir ákveðið lag, en breyta svo strax um stefnu með næsta lagi. Sá hópur sem fékk áhuga á listamanninum vegna fyrra lagsins reynist kannski ekki hrifinn þegar breytt er um stíl og snýr sér að einhverju öðru.“

Möguleikarnir heima

Markmiðið þarf síðan ekki endilega að vera heimsfrægð. Það eitt að taka þátt, og hvað þá að sigra í forkeppninni heima fyrir, skapar strax nýja möguleika á heimamarkaðinum. „Nú þegar hafa Maríu Ólafsdóttur opnast tækifæri sem henni hefðu aldrei staðið til boða fyrir fjórum mánuðum. Er búið að bóka hana á fjölda tónleika og verður í miklu að snúast hjá henni þegar jólatónleikatímabilið gengur í garð.“

Valgeir Magnússon, framkvæmdastjóri PIPAR/TBWA.
Valgeir Magnússon, framkvæmdastjóri PIPAR/TBWA.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál