„Ég er bara einhverskonar ódrepandi skoffín“

Jón Gnarr.
Jón Gnarr. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

„Nú er að verða ár síðan ég hætti sem borgarstjóri og mér finnst ég fyrst núna vera að jafna mig. Lífið er jafn skrítið og það hefur alltaf verið. Margt hefur breyst. Ég var að klára að skrifa Útlagann, sem er þriðja og síðasta bókin í æskuminningatrílógíunni minni. Nú fer ég að einbeita mér að því að klára að skrifa sjónvarpsþættina Borgarstjórinn. Ég er líka byrjaður að undirbúa ritun bókar um Besta flokkinn, kosningarnar, veru mína í Ráðhúsinu og lífið eftir það. Kannski ný trílógía? Ég er voðamikið beðinn um að koma hingað og þangað útí heim og röfla eitthvað og mun gera eitthvað af því. Eftir helgi fer ég á barnabókahátíð í Vínarborg og svo í upplestrarferð um Þýskaland, Sviss og Austurríki. Ég er rithöfundur. Mér finnst ég samt ekki vera það. Mér hefur aldrei fundist ég vera neitt annað en aumingi,“ segir Jón Gnarr á Facebook-síðu sinni. 

„Sem barn var ég talinn afbrigðilegur. Það var ekki einu sinni til neitt orð yfir fólk einsog mig. Það var kallað Maladaptio. Það er fólk sem getur ekki aðlagast neinu. Ég var aumingi í skóla og aumingi í vinnu, latur og alltaf út á þekju. Ég var pönkari sem hafði ekki gaman af tónlist. Hverskonar gerpi er það? Ég er alltaf boðflenna. Ég var leikari en samt ekki alvöru. Aðrir leikarar litu mig hornauga. Ég var ekki einn af þeim enda ekki leikaramenntaður. Svo varð ég stjórnmálamaður en samt ekki og boðflenna þar einsog í leiklistinni. Og nú er ég rithöfundur. Mér finnst ég samt ekki alvöru rithöfundur. Þeir eru einhvernveginn öðruvísi en ég, gáfaðir og einrænir á meðan ég er frekar vitlaus og eirðarlaus félagsvera. Meira að segja Guðbergur Bergsson skilur ekkert í mér og þó skilur hann mjög margt. Ég er bara einhverskonar ódrepandi skoffín.“

Jón finnur sig bara á tveimur stöðum á landinu.

„Aðeins á Vogi eða Litla Hrauni finnst mér ég vera á meðal jafningja. Ég á ekki einu sinni samleið með sjálfum mér. Mitt eina haldreipi í þessu lífi er fjölskyldan mín og vinir. Fyrir þau er ég þakklátur. Ég meina ekkert illt og hef aldrei gert og óska öllum blessunar, meira að segja þeim sem óska mér einhvers annars. Ég leita sannleikans, af einlægni en um leið fullur efasemda. Ég veit ekki hvar hann er en bara hvar hann er ekki. Hann er ekki í trú. Trú er nú bara fyrir mér bara upploginn sannleikur. Hann er ekki í pólitík eða heimspeki. Mestan sannleika hef ég fundið í góðu og gáfuðu fólki og ekki bara afþví að það hugsi eða segi eitthvað gáfulegt heldur afþví að það vinnur samkvæmt því. Það eru svo margir sem segja eitt en gera svo eitthvað annað, þykjast vita alla skapaða hluti en kunna svo ekki neitt. Ást er innihaldslaust orð sem hefur nákvæmlega enga merkingu ef engar athafnir fylgja. Bókin um veginn er eina bókin sem ég hef fundið um ævina sem hefur snefil af sannleika í sér,“ segir hann og kveður með stæl: 

Með kærri kveðju

Jón Gnarr 100% íslenskur aumingi

Jón Gnarr og Jóga Jóhannsdóttir konan hans.
Jón Gnarr og Jóga Jóhannsdóttir konan hans. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál