Vill ekki vera dæmd af verkum foreldranna

Mæðgurnar Ragnheiður Pétursdóttir Melsted og Sylvía Erla Melsted.
Mæðgurnar Ragnheiður Pétursdóttir Melsted og Sylvía Erla Melsted.
„Mamma segir að ég hafi alltaf verið dansandi og syngjandi og var mjög oft með skemmtiatriði heima hjá okkur þegar ég var yngri,“ segir Sylvía Erla Melsted 19 ára Verzlunarskólamær er að gefa út sitt fyrsta lag. Lagið heitir Getaway og er útsett af Lárusi Erni Arnarsyni.
Það má eiginlega segja að Sylvía sé alin upp í Latabæ en hún er dóttir Ragnheiðar Pétursdóttur Melsted og Magnúsar Scheving. Þegar hún er spurð að því hvort Latibær hafi haft einhver áhrif á hana segir hún að mamma hennar hafi verið sérstaklega meðvituð um stöðuna.
„Mamma passaði alltaf að við ættum eðlilegt líf. Við systkinin vorum mjög sjaldan inni í þessu Latabæjar lífi. Við áttum bara líf hérna á Seltjarnarnesi. Latibær var bara vinna foreldra minna. Mig langar bara til að vera Sylvía og vona að ég verði metin af mínum eigin verðleikum og dæmd af mínum verkum en ekki fyrir hvaða foreldra ég á,“ segir hún. 
Aðspurð  hvort hún hafi lært eitthvað af Latabæ neitar hún því ekki.

„Það hefur kennt mér að gera hlutina vel, leggja á mig og vera dugleg. Einnig hef ég lært að maður uppsker eins maður sáir, og ég meina það frá öllum hliðum lífsins eins og með vinnu, fjölskyldu og vini. Mamma mín hefur alltaf sagt mér „þú getur gert allt sem þú ætlar þér, þú verður bara að hugsa til himins, hafa fæturna á jörðinni og vera með hjartað á réttum stað“.
Hvað finnst mömmu þinn um að þú sért búin að gefa út þitt fyrsta lag?

„Mamma er besta mamma í heimi. Hún styður mig í öllu sem ég tek fyrir hendur,“ segir Sylvía og játar að mamma hennar pressi mikið á að hún klári stúdentsprófið. Ég er með svo mikið af hugmyndum, það er svo margt sem mig langar að gera. Það sem hún vill er að ég klári þau verkefni vel sem ég tek mér fyrir hendur og stúdentinn er eitt af þeim verkefnum. Reyndar hef ég alltaf ætlað mér að klára þetta stúdentsverkefnið með stæl en hún hefur hjálpað mér mikið við að halda fókus á því verkefni og vera ekki að gera of mikið í einu, því þá þá er hætta á því að maður geri ekkert vel,“ segir hún.


Sylvía byrjaði fjögurra ára gömul að læra á píanó í Suzuki. Auk þess var hún í dansi, fimleikum, handbolta og fótbolta hjá Gróttu. „Ég komst fljótt að því að boltaíþróttir væru ekki mitt sterkasta fag og fann að dansinn átti betur við mig.
Síðan byrjaði ég að læra söng 10 ára og er núna að læra Óperu hjá Alinu Dublik. Þó ég sé ekki að syngja óperu í dag þá hentar tæknin sem óperan hefur upp á að bjóða minni rödd vel,“ segir Sylvía.
Hún var ekki há í loftinu þegar hún byrjaði að semja texta en segir að það hafi ekki komið neitt af viti fyrr en hún varð 16 ára.

„Ég byrjaði að semja texta 10 ára, en fór að semja eitthvað að viti 16 ára. Ég sem flesta textana mína svo að það sé auðveldara að tengjast mér. Allir textarnir mínir segja ákveðna sögur, textarnir mínir eru mín leið til að tjá mig,“ segir hún.
Hún hefur lagt mikinn metnað í að þróa og finna sig í tónlistinni.

„Ég kynntist Lárusi Arnarsyni í Versló og við fórum að vinna saman. Hann er algjör snillingur! Síðan kynntist ég Svía í gegnum Eurovision sem ég tók þátt í 2013, sem ég fór að vinna með. Ég hef verið að vinna með manni frá L.A sem heitir Printz Board, hann hefur hjálpað mér rosalega mikið. Hann hefur hjálpað mér að komast út fyrir þægindahringinn minn. Einnig vann StopWaitGo að einu lagi með mér. Ég er mjög þakklát fyrir alla þá hjálp sem ég hef fengið, og allir þessir strákar eru rosa pro og góðir tónlistarmenn. Algjörir snillingar,“ segir hún.
Sylvía segir að þegar hún var barn hafi hana dreymt um að komast í Versló en þar sem hún sé lesblind hafi hún þurft að leggja meira á sig en hinir til að ná því.

„Í dag er ég mjög þakklát fyrir að vera lesblind því það hefur kennt mér svo mikið. Ég get nú alveg viðurkennt að mér finnst ekki allt sem snýr að skólanum skemmtilegt en það er ekki allt skemmtileg sem maður þarf að gera í lífinu en ég trúi því að ef maður leggur 100% á sig og gerir vel í því sem manni finnst ekki endilega skemmtilegt þá mun maður leggja 1.000% á sig í því sem manni finnst skemmtilegt og elskar að gera.
Maður fær alltaf ákveðin verkefni í lífinu og lesblindan er eitt af þeim hjá mér, og ég ætla að vinna það verkefni vel með bros á vör og vera þakklát fyrir að læra að leggja á mig því að það mun nýtast mér í lífinu.


Sylvía Erla Melsted gefur út sitt fyrsta lag.
Sylvía Erla Melsted gefur út sitt fyrsta lag.
Sylvía Erla Melsted.
Sylvía Erla Melsted.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál