„Þá var hún rifin af mér og sett beint á vökudeild“

Elma Lísa Gunnarsdóttir prýðir forsíðu Nýs Lífs.
Elma Lísa Gunnarsdóttir prýðir forsíðu Nýs Lífs.

Leikkonan Elma Lísa Gunnarsdóttir hefur komið víða við í leiklistarheiminum og höfum við séð hana í fjölbreyttum hlutverkum, bæði á sviði og á hvíta tjaldinu. Í einkalífinu er þó aðeins eitt hlutverk henni mikilvægast allra, móðurhlutverkið. Hún var um fertugt þegar hún eignaðist sitt fyrsta barn og ráðleggur hún konum að bíða ekki of lengi með barneignir. Enn fremur vill hún opna umræðuna um fæðingartengd áföll og vonar að sín reynsla geti verið fyrsta skrefið að því.

„Ég gerði mér alveg grein fyrir því að það yrði kannski ekki auðvelt að verða ófrísk í kringum fertugt, þegar við ákváðum að reyna að eignast barn, en sem betur fer gekk það hjá okkur. Meðgangan sjálf gekk mjög vel og fæðingin gekk líka vel til að byrja með. Ég var búin að kvíða fyrir sársaukanum en í mínum huga myndi ég fæða hana, fá hana í fangið og við myndum svífa um á bleiku skýi. Þegar leið á fæðinguna kom þó í ljós að naflastrengurinn var flæktur um hana og hún var blá þegar hún kom út. Þá var hún rifin af mér og sett beint á vökudeild þar sem hún var í nokkra daga. Ég vissi allan tímann hvað var í gangi og starfsfólkið var frábært en síðan kom það aftan að manni hversu mikið áfall þetta hafði verið í raun og veru. Enda hafði ég á engan hátt undirbúið mig undir það að eitthvað þessu líkt gæti gerst. Það var í raun ekki fyrr en við vorum komin heim með hana að afleiðingar áfallsins fóru að koma í ljós,“ segir Elma Lísa í viðtalinu.

Elma Lísa mun taka þátt í verkefnum sjálfstæðu leikhúsanna í vetur ásamt því að leika í kvikmynd og telur hún að starfsvettvangur sinn geti skapað nýja umræðuvinkla um flóttamenn og útlendinga á Íslandi.

„Maðurinn er oft svo upptekinn af því að passa upp á sitt og vilja engu deila. Ég held að við Íslendingar hefðum gott af því að skoða okkur sjálf aðeins betur og reyna að vera víðsýnni. Ég er hlynnt því að taka á móti fólki í neyð, en það er líka mikilvægt að við getum sinnt því fólki sem kemur hingað almennilega. Ég er að fara að leika í kvikmynd í vetur sem fjallar um konu sem hefur misst alla peningana sína eftir að kærastinn hennar spilaði þá frá henni. Hún á risastórt hús og tekur á það ráð að leigja tveimur útlenskum konum sitthvort herbergið. Fyrst heldur hún að þetta verði ekkert mál en raunin verður önnur. Hún treystir þeim ekki og þetta verður snúið og erfitt. Þessi saga er flott innlegg í umræðuna um útlendinga á Íslandi í dag. Við verðum að muna að bera virðingu fyrir öllu fólki og koma fram við náungann eins og við viljum að sé komið fram við okkur. Fordómar eru eitt það versta sem til er. Við erum öll á þessari jörð með eitt og sama markmiðið: að lifa af, en við getum ekki gert það á kostnað annarra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál