Fíkniefnaneysla vaxandi vandi kvenna

Guðrún Margrét Einarsdóttir dagskrárstjóri Hlaðgerðarkots.
Guðrún Margrét Einarsdóttir dagskrárstjóri Hlaðgerðarkots.

Guðrún Margrét Einarsdóttir, dagskrárstjóri í Hlaðgerðarkoti, hefur starfað sem áfengisráðgjafi í meira en tvo áratugi. Henni hefur tekist að samtvinna faglega þekkingu og náungakærleik í meðferð sem á sér ekki hliðstæðu hérlendis.

Árið 2014 voru 320 innlagnir í Hlaðgerðarkot og fjölgaði um 46 frá árinu áður.

„Við finnum fyrir auknum áhuga á að komast í meðferð hjá okkur,“ segir Guðrún Margrét.

„Það hefur sérstaklega fjölgað í yngri hópunum en af þessum 320 innlögnum voru 161 vistmenn 39 ára og yngri og 87 vistmenn 29 ára og yngri. Við tökum inn fólk frá 18 ára aldri og jafnvel yngra ef um barnaverndarmál er að ræða. Það er afskaplega ánægjulegt að geta hjálpað þessu unga fólki en margir úr þeim hópi tala um hvað það sé gott að komast í frið og ró í sveitinni þar sem ekki eru mjög margir sjúklingar. Við finnum að orðspor Hlaðgerðarkots berst hratt út í þessum hópi en sá misskilningur var áberandi á árum áður að Hlaðgerðarkot væri úrræði sem einkum væri ætlað eldri og langt gengnum alkóhólistum. Unga fólkið okkar þarf ekki síður á væntumþykju og virðingu að halda og það fær að njóta þess í Hlaðgerðarkoti. Flestir sjúklinganna eru frá 18 ára og upp í fertugt. Þetta er fólk af öllum þjóðfélagsstigum alls staðar að af landinu og hópurinn blandast skemmtilega saman. Vistmenn eru þverskurðurinn af Íslendingum og útlendingar líka. Samsetning sjúklingahópsins hefur breyst mikið á undanförnum árum en fyrst þegar ég var að byrja notuðu flestir aðallega áfengi. Flest af unga fólkinu sem sækir til okkar nú notar önnur efni og á því má greina að þetta er orðinn harðari heimur. Geðsjúkdómar eru líka orðnir algengari í þessum hópi og fara vaxandi.“

Það vekur athygli að endurkomuhlutfallið er mjög lágt í Hlaðgerðarkoti.

„Árið 2014 voru endurkomur aðeins 25 en 27 árið áður,“ segir Guðrún. „Það gefur okkur vísbendingu um góðan árangur. Af þeim sem voru að koma í fyrsta sinn í meðferð árið 2014 voru konur 111 og karlar 184. Í endurkomuhópnum voru 11 karlar og 14 konur.“

Alkóhólismi og fíkniefnaneysla er vaxandi vandi meðal kvenna en í Hlaðgerðarkoti er sérstök herbergisálma fyrir konur.

„Við höfum valið að vera með blandaða meðferð en það hefur sína kosti og galla. Við erum með fáar og einfaldar umgengnisreglur en karlar mega ekki fara inn á kvennagang og öfugt. Fólk á alveg nóg með sjálft sig þegar það er í meðferð þannig að óheimilt er að stofna til tilfinningasambanda og það er brottrekstrarsök. Við lítum svo á að það sé skylda okkar að hjálpa báðum kynjum og viljum ekki útiloka neinn frá meðferð í Hlaðgerðarkoti. Neysluheimurinn verður stöðugt grimmari og ljótari og það bitnar ekki síst á konunum. Þær þurfa á úrræði eins og Hlaðgerðarkoti að halda og það er dásamlegt að sjá þær öðlast sjálfsvirðinguna á ný.“

Hverjar eru helstu breytingarnar sem orðið hafa í Hlaðgerðarkoti síðan þú tókst við sem dagskrárstjóri fyrir 10 árum?

„Við uppfærðum dagskrána mikið eftir að ég byrjaði en við vorum þrír reyndir áfengisráðgjafar sem hófum störf í Hlaðgerðarkoti á svipuðum tíma. Við fórum að vera með fasta fyrirlestra sem rúlla á sex vikna fresti og bættum miklu við AA-starfið en félagar úr AA- samtökunum koma með fundi í Hlaðgerðarkot fimm sinum í viku auk þess sem vistmenn halda sína eigin fundi. Prógrammið er síðan í stöðugri endurskoðun og við slípum það til eftir því sem við á hverju sinni. Þeim fjölgar sem auk alkóhólisma stríða við spilafíkn og okkur hefur lærst að það er mjög mikilvægt að taka á henni samfara alkóhólismanum. Meðferðarstarfið gengur út á að kenna fólki að breyta lífi sínu og tileinka sér aðferðir sem það getur notað til að takast á við verkefni dagsins í stað þess að flýja í neyslu. Við höfum sporin 12 til að byggja á og kynnum fólk líka fyrir Nýja testamentinu og Biblíunni. Við sýnum því fram á að með því að grundvalla líf sitt á þessari hugmyndafræði á fólk von um að eignast betra og innihaldsríkara líf.“

Er eitthvað í meðferðinni í Hlaðgerðarkoti sem ekki er í boði annars staðar og þér finnst mikilvægt að halda í?

„Já, við erum mest með 32 einstaklinga í meðferð á hverjum tíma og þetta er því minna en víða annars staðar. Það gefur okkur færi á að hafa meðferðina einstaklingsmiðaðri. Ef fólk er t.d. í langtímameðferð höfum við tækifæri til að leyfa því að gera ýmislegt fleira með meðferðinni. Það getur æft sig að fara heim og á uppbyggjandi námskeið úti í bæ áður en við útskrifum það. Við höfum jafnframt verið í góðu samstarfi við Landspítalann ef fólk er með átröskun eða eitthvað þess háttar. Að undanförnu höfum við jafnframt verið í góðu samstarfi við Drekaslóð sem er samtök fyrir þolendur ofbeldis. Fólk sem er kannski í Hlaðgerðarkoti í hálft ár fær tækifæri til að byrja að vinna úr slíkum málum áður en það fer héðan og við leggjum línurnar um framhaldið eftir meðferðina. Þá finnst mér mikilvægt að hafa tækifæri til að taka aðstandendur í innlögn eins og við gerum stundum. Við bjóðum upp á vikudvöl þar sem fólk fær tækifæri til að endurmeta bata sinn og aðstandendur sem komið hafa í vikudvöl hafa stundum verið í sex vikur því þeir eru kannski ekki minna veikir en alkóhólistarnir sem þeir eru í sambandi við. Hlaðgerðarkot er miklu meira meðferðarheimili en stofnun. Hér kemur margt ungt fólk og mér finnst mikilvægt að bjóða því upp á tilbreytingu, t.d. með því að hafa laugardaga sem nammidaga og leyfa því að leggja saman í púkk og panta pítsu fyrsta laugardag í hverjum mánuði. Margir þessara krakka eru kannski alin upp í alkóhólisma og þekkja ekki hvernig venjulegt heimilislíf er. Þeir fá þá kannski smjörþefinn af því hér að það er hægt að gera margt skemmtilegt án þess að vera í neyslu.“

Nú eiga margir erfitt með að ná bata frá neyslu vímuefna. Fyllir það þig aldrei vonleysi þegar fólk er að koma í enn eina meðferðina?

„Ég hef þá trú að fólk auki líkur sínar á bata með því að koma aftur og aftur. Við höfum ítrekað séð kraftaverk gerast og fólk hætta neyslu eftir að hafa komið oft í meðferð. Síðan eru aðrir sem koma til að fá líknandi meðferð og þá er maður kannski meira að hugsa um þá sem eru í kringum þá eins og fjölskylduna og aðra aðstandendur.“ En er eitthvað sem þú getur bent á sem þeir eiga sameiginlegt sem ná bata? „Maður sér fljótt að fólk kemur í meðferð með mismunandi hugarfari. Sumir mæta illa í prógramm og eru bara að hvíla sig eða róa umhverfi sitt. Síðan eru aðrir sem vinna vel frá byrjun í meðferðinni og taka leiðsögn. Ég held að þeir sem ná árangri eigi það sameiginlegt að hafa tekið leiðsögn. Þeir hafa farið eftir því sem við höfum bent þeim á, fylgt útskriftaráætlun sinni og flutt inn á áfangaheimili ef því er að skipta. Þessir einstaklingar stunda AA-fundi, fara á samkomur og gera einfalda hluti sem henta þeim. Þeir sem ljúka meðferð í Hlaðgerðarkoti geta sótt um búsetu á áfangaheimilunum Sporinu og Brú. Þar geta þeir dvalið í allt að tvö ár á meðan þeir fóta sig í lífinu og fara í skóla eða vinnu. Árangur þeirra sem farið hafa þessa leið hefur verið sérstaklega góður. En þeir sem falla, hvað eiga þeir sameiginlegt? „Þetta er sjúkdómur eins og hver annar. Sumir sem fara á hjartalækningadeild komast í gott stand en fá síðan hjartsláttartruflanir seinna. Einkennin geta komið upp hvenær sem er og ég held að það sé ekki til neitt eitt svar við því af hverju alkóhólistar falla annað en það að þeir eru alkóhólistar.“

Hvað finnst þér ánægjulegast og erfiðast við að starfa með alkahólistum?

„Mér finnst mjög ánægjulegt að sjá þegar fólk nær árangri og gefur sér tíma til að vinna í sínum málum. Það er alltaf að aukast að fólk sé tilbúið að taka langtímameðferð og það gleður mig sérstaklega þegar ég hitti fyrrverandi skjólstæðinga, í félagsmiðstöð Samhjálpar eða á förnum vegi, sem eru edrú og hafa öðlast nýtt líf. Það er náttúrulega skemmtilegast við starfið þegar maður sér að vinnan okkar er að bera árangur. Það er erfitt að heyra þegar fólk er að deyja úr þessum sjúkdómi og er kannski nýfarið frá okkur. Erfiðast er að horfa upp á fjölskyldur sem þjást vegna alkóhólisma og börnin sem líða fyrir hann.“

Hlaðgerðarkot var byggt á tíma síðari heimsstyrjaldar en Samhjálp keypti það af Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur og það var vígt sem meðferðarheimili 6. júlí árið 1974.

Hvað er þér efst í huga þegar þú lítur yfir þessa rúmlega fjóra áratugi sem meðferðin hefur verið starfrækt?

„Þakklæti fyrir hvað við erum í dag og hvað starfið hefur gengið vel. Samhjálp hefur öðlast virðingarsess í þjóðfélaginu og fólk leitar mikið til okkar. Biðlistarnir eru langir og fólki líður vel í meðferð í Hlaðgerðarkoti. Þó að ástandið sé erfitt leitar það samt til okkar og það sem ég gleðst mest yfir er að við lifum og erum að vaxa og dafna. Mér finnst líka mjög dýrmætt hvað það er gott starfsfólk sem vinnur hjá okkur. Starfsmannaveltan er lítil og fólki líður vel i vinnunni. Mér finnst það líka mikilvægt. Ég vona að við höldum áfram á sömu braut, trú því markmiði okkar að sinna veiku fólki og sýna þeim kærleika sem minna mega sín.“

Guðrún Margrét vonast til að Hlaðgerðarkot fái aukinn skilning á fjárþörf sinni til að hægt verði að halda starfinu áfram í sama anda og gert hefur verið.

„Húsakosturinn í Hlaðgerðarkoti er farinn að láta á sjá og við þurfum að fara í miklar endurbætur. Hagkvæmasti kosturinn er án efa að rífa stóran hluta af elstu byggingunum og reisa ný herbergi, sem svara betur kalli nútímans fyrir sjúklingana. Við förum full bjartsýni í þessa landssöfnun fyrir Hlaðgerðarkot og treystum því að þjóðin leggist á eitt um að hún verði sem glæsilegust. Það er ekki til betri fjárfesting en að fjárfesta í bata við alkóhólisma því á bak við hvern alkóhólista eru oftast nokkrir einstaklingar sem þjást ekki síður af völdum sjúkdómsins.“

Á degi hverjum eru að jafnaði um 60-70 einstaklingar á biðlista eftir að komast í Hlaðgerðarkot.

„Það þýðir að það eru u.þ.b. 420 einstaklingar sem við getum ekki sinnt á ársgrundvelli,“ segir Guðrún Margrét.

„Ég vona sannarlega að söfnunin fyrir Hlaðgerðarkot verði til þess að fleiri úr þessum hópi komist til okkar og fái tækifæri til að öðlast bata og betra líf.“

Viðtalið birtist í blaði Samhjálpar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál