Seldi allt og flutti í húsbíl

Sif Traustadóttir Rossi með hundinn sinn hana Sunnu.
Sif Traustadóttir Rossi með hundinn sinn hana Sunnu.

„Ég hafði verið á leigumarkaði í nokkur ár og flutt reglulega. Í hvert skipti sem ég flutti losaði ég mig við eitthvað af eigunum og sá hversu tilgangslaust það var að flytja með mér allskonar dót sem ég notaði sjaldan eða jafnvel aldrei. Ég byrjaði upp úr því að kynna mér mínimalískan lífsstíl og fann að það var eitthvað sem heillaði mig. Ég skoðaði allskonar umfjallanir um fólk sem býr í smáhúsum (tiny houses) og jafnvel í húsbílum. Á sama tíma var ég farin að fá útþrá frá Íslandi, komin með leið á myrkrinu, kuldanum, efnahagsástandinu og stjórnarfarinu og langaði til að prófa að ferðast í lengri tíma en bara í venjulegu sumarfríi. Ég átti pening og ákvað að nota hann ekki til að borga inn á húsnæðislánin og taka sénsinn á að verðbólgan myndi eyða honum, heldur nota hann til að prófa eitthvað alveg nýtt og ferðast í nokkra mánuði. Ég keypti húsbíl í Þýskalandi og ákvað að losa mig við megnið af búslóðinni áður en ég færi. Ég fór út með um það bil tvær ferðatöskur og skildi eftir nokkra kassa í geymslunni heima,“ segir Sif Traustadóttir Rossi dýralæknir þegar hún er spurð út í ævintýri sín.

Sif segir að það fari vel um hana og Sunnu …
Sif segir að það fari vel um hana og Sunnu í húsbílnum og hún sakni einskis.


Þegar Sif er spurð hvað sé algerlega ómissandi í húsbílnum segir hún að það séu tól til þess að geta búið til mat.  

„Það er í raun fátt sem er algerlega ómissandi en ég er með potta, pönnu og helstu nauðsynjar til að geta eldað í bílnum. Svo er ég með föt til skiptanna en það er ekki mikið pláss þannig að ef ég kaupi til dæmis nýja flík verð ég að losa mig við eitthvað annað í staðinn til að hafa pláss. Ég er líka með fartölvu og snjallsíma sem ég gæti ekki hugsað mér að vera án. Síminn er með innbyggt gps og hjálpar mér að rata, hvort sem ég er í bílnum eða að ráfa um borgir og bæi í Evrópu. Ég er með nokkrar bækur í bílnum, þegar ég er búin að lesa þær skil ég þær gjarnan eftir á tjaldstæðum þannig að aðrir geti notið þeirra líka. Ég hef gaman af að teikna og lita og er með fullorðinslitabækur, stílabækur og liti í bílnum til að stytta mér stundir. Bíllinn er um sex metrar á lengd og rétt um tveir að breidd þannig að í heild eru þetta tæpir 12 fermetrar. Ég hef komist að því að ein manneskja þarf ekki mikið meira en þetta til að lifa góðu lífi; baðherbergi með salerni og sturtu, rúm með góðri dýnu, eldhúseiningu með gashellum og ísskáp og borð og sæti þannig að um 4-5 geti setið við borðið. Í bílnum er meira að segja aukarúm fyrir gesti! Það er rennandi vatn í krönum og hægt að hafa heitt vatn þegar þarf. Þegar veðrið er gott, sem er næstum á hverjum degi á sumrin utan Íslands, þá er hægt að vera með borð og stóla úti og njóta þess að vera utandyra.“

Við hvað losaðir þú þig helst áður en þú fórst á vit þessara ævintýra?

„Ég losaði mig við næstum allar bækurnar mínar, nema handbækur og fagbækur sem væri dýrt að endurnýja. Eftir sjö mánaða ferðalag hefur líka komið í ljós að það er ekkert sem ég sakna nema nokkrar bækur. Ég hef reyndar ekki átt sjónvarp síðan 2008 og þau fáu húsgögn sem ég átti orðið eru enn í húsinu mínu í Reykjavík sem ég leigi út. Ég losaði mig við stærstan hluta af fötunum mínum en hélt eftir einhverju sem að ég hélt að ég myndi kannski nota síðar. Ég losaði mig við allskonar hluti sem höfðu safnast upp í gegnum tíðina, allt skraut og allar styttur og þess háttar. Eftir á að hyggja mun ég líklega fara í gegnum þetta aftur þegar ég kem næst til Íslands og losa mig við meirihlutann af því sem eftir er.“

Sif klæðist helst kjólum en ef hún kaupir nýjan kjól …
Sif klæðist helst kjólum en ef hún kaupir nýjan kjól þarf hún að losa sig við einhverja flík úr fataskápnum.

Hvað er í fataskápnum þínum í dag?

„Ég elska kjóla og er með nokkra sparikjóla með mér og nota hvert tækifæri til að klæðast þeim. Síðan er ég með nokkra bómullarkjóla til að nota á sumrin, stuttbuxur, eitt par af síðbuxum og jakka og léttar peysur til að hafa yfir mig á kvöldin. Ég þurfti reyndar að kaupa mér vetrarföt núna nýlega eftir að ég ákvað að fara ekki aftur til Íslands um áramótin eins og ég hafði ætlað. Það er ekki mikið pláss þannig að ég þarf að hugsa vandlega um hverja flík sem er bætt í safnið og vera dugleg að losa mig við föt á móti. Reyndar játa ég að ég hef ekki gaman af því að kaupa föt þannig að ég geri það helst ekki nema ef eitthvað er að detta í sundur og þarf að endurnýja eða eins og núna þegar mig vantaði hlý föt. En ég er bara með eina þykka peysu, eitt par af vettlingum, eina úlpu og svo framvegis. Ekki skúffur og skápa full af fötum sem ég gæti mögulega notað einhvern tímann. Ég geymi engin föt sem passa ekki lengur á mig, ég vil heldur fara með þau í Rauða krossinn og að einhver annar geti notað þau. Það sama gildir um skó, ég er bara með nokkur pör af skóm og sandala til að nota á sumrin. Ég hugsa að í heild sé ég kannski með 10 pör af skóm; spariskó, vetrarskó, strigaskó, létta sumarskó og sandala.“

Um þessar mundir er Sif stödd í kattaathvarfi á Norður-Ítalíu (Parodi's Cats á facebook) og ætlar að dvelja þar fram yfir áramót.

„Húsbíllinn er geymdur á bílastæði þar til í lok janúar en þá fer ég á honum til Rómar. Um jólin fer ég til Spánar að hitta mömmu mína og sonur minn kemur frá Íslandi til að eyða jólunum með okkur. Ég reikna með að búa í húsbílnum í 1-2 mánuði eftir áramótin á meðan ég leita mér að húsnæði í Róm en ég ætla mér að vera þar í nokkra mánuði. Eftir það er alveg óráðið hvað ég geri og hvert lífið leiðir mig.“

Saknar þú einhvers sem þú losaðir þig við?

„Nei, alls ekki. Ég mun líklega losa mig við enn meira þegar ég fer í gegnum kassana næst.“

Hvernig nærðu að fjármagna ferðalagið í húsbílnum?

„Ég hef reiknað út að kostnaðurinn við að ferðast í húsbíl er í raun svipaður og kostnaður við að búa heima hjá sér. Þegar ég ferðast langar vegalengdir fer mikill peningur í dísel og vegatolla en svo er hægt að finna ódýr tjaldstæði og búa einhvers staðar mjög ódýrt með því að keyra styttra. Ég var ekki með neinar tekjur til að byrja með og hef bara lifað af þeim pening sem ég átti áður en ég fór. En núna er ég að vinna í að koma mér upp heimasíðu og vonast til að hafa tekjur af því áfram að hjálpa gæludýraeigendum en bara á annan hátt núna en áður. Ég er með ráðgjöf, fyrirlestra og námskeið fyrir hundaeigendur á síðunni www.sifdyralaeknir.is.

Ég hef ferðast ein með hundinum mínum, henni Sunnu, og ferðabloggið okkar er á facebook undir nafninu „Sunny on the Road“. Þar er hægt að sjá allskonar myndir frá ferðalaginu og sagan er sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir það svolítið öðruvísi og skemmtilegt.“

Sif og Sunna.
Sif og Sunna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál