Þung orð skildu á milli lífs og dauða

Snæbjörn Ragnarsson á tónleikum með Skálmöld.
Snæbjörn Ragnarsson á tónleikum með Skálmöld. Ljósmynd/Florian Trykowski

Rokkarinn Bibbi í Skálmöld eða Snæbjörn Ragnarsson eins og hann heitir fullu nafni á viðburðaríkt ár að baki. Hann eignaðist sitt fyrsta barn en fæðingin var ekki átakalaus og um tíma munaði litlu að illa færi. 

Hvað myndirðu vilja gera aftur einhvern tímann sem þú prófaðir að gera á árinu?

„Ég þarf að gera meira af því að fara út að borða með Agnesi og líka bara þessum fjölmörgu vinum sem ég á. Fólk er uppáhaldið mitt og lítil tilefni eru alltaf best. Ég þarf ekkert að plana fimm vikna heimsálfureisur til að vera glaður. Ég þarf bara fólkið mitt og smá krydd í tilveruna. Maður er aðeins of latur við að fagna litlu hlutunum, þeir gefa lífinu gildi. Ég til dæmis skil ekki af hverju fólk heldur ekki upp á afmælið sitt. Það þarf ekkert að vera eitthvað stórkostlegt en hey, við eigum samt að nota allar mögulegar ástæður til að gera okkur dagamun. Við getum ekkert horft bara á Netflix alla daga og slædað niður enn einn Facebook-metrann. Já ætli það sé ekki það sem ég ætla að gera aftur. Halda upp á öll afmæli sem ég mögulega finn. Og svo þarf ég reyndar að heimsækja nokkrar borgir sem ég kom til á Skálmaldar-flakkinu. Spanið er svo mikið þá að maður fær sjaldnast tíma til að njóta.“

Komstu að einhverju nýju um sjálfan þig á árinu?

„Ég komst að því að ég get skrifað bók. Ég var búinn að hugsa um þetta í þónokkuð mörg ár, ég hef skrifað hitt og þetta gegnum tíðina og alltaf haft það sem ákveðið takmark að skrifa heila bók en það hefur vaxið mér gríðarlega í augum. Ég hefði ekkert endilega veðjað á það fyrirfram að ég hefði eirð í mér til að sitja við og klára verkið en það tókst, og var bara þónokkuð skemmtilegt. En ég viðurkenni að það var samt skemmtilegast að vera búinn að því.“

Hver er eftirminnilegasta manneskjan sem þú hittir á árinu? Eða eftirminnilegasta samtalið?

„Ég eignaðist dóttur í apríl, mitt fyrsta barn. Að hitta hana í fyrsta skipti var alveg magnað og eitthvað sem maður getur aldrei búið sig undir. Eftirminnilegasta samtal ársins átti sér stað nokkrum mínútum áður og var við Agnesi, konuna mína. Fæðingin var vægast sagt gríðarlega erfið og samtalið sem við áttum í þeim hasar var ofboðslegt, bæði okkar á milli og við starfsfólkið. Þar féllu ótrúlega mörg þung orð á stuttum tíma sem skildu á milli lífs og dauða, heilbrigðis og hörmunga.“

Ef þú mættir sleppa einhverju sem þú gerðir eða prófaðir eða eyddir tíma þínum á síðasta ári - hvað yrði það?

„Ég hugsa eiginlega ekki svona. Mér finnst ég alltaf læra af því sem ég geri, jafnvel þótt það sé vitleysa og tímaeyðsla. Það er samt alveg ljómandi að reyna að komast hjá því að gera það sama aftur ef það var vitleysa. Annars er ég nú að rembast við að reyna að muna eftir einhverju sem hefði mátt missa sín á árinu en mér dettur bara ekkert í hug. Djöfull hlýtur að vera gaman að vera ég.“

Ef þú ættir að draga einhvern lærdóm af síðasta ári - hvaða ráð myndirðu gefa sjálfum þér fyrir árið 2016?

„Að gefa mér meiri tíma í verkefnin sem ég tek mér fyrir hendur. Ekki svo að segja að ég vinni hlutina of hratt og illa heldur er ég mjög gjarn á að hætta að vinna í hlutunum áður en ég hef náð hápunktinum. Ég þarf til að mynda að beita sjálfan mig andlegu ofbeldi til þess að hætta ekki bara í hljómsveitunum sem ég er í og stofna nýjar. Ég veit ekki hvað þetta er, nýjungagirni eða athyglisbrestur, en ég dett of oft í þessa gryfju.“

Að lokum - ætlarðu eða langar þig til að að gera eitthvað nýtt á árinu - hvort sem það er áramótaheit eða einfaldlega eða að prófa eitthvað nýtt og hvað þá?

„Ég strengi aldrei áramótaheit. Mér finnst það eitthvað skrýtið. Mér finnst það vera ákveðin afsökun fyrir því að þurfa ekki að hugsa um sjálfan sig og hvað maður gerir dags daglega. Bara ákveða eitthvað og gleyma því síðan. Og rifja það upp aftur um næstu áramót og reyna að slá á móralinn. En það er ekki þar með sagt að ég vilji ekki gera eitthvað frábært á nýju ári. Mig langar að sigra fleiri lönd með Skálmöld og svo hlakka ég mikið til að tala við dóttur mína. Hún er bara átta mánaða núna og veit ekki neitt. Eða jújú, hún heldur örugglega að hún sé að segja helling við mig en þetta er bara bull. Verður gaman að heyra hvað hún hefur að segja, þetta virðist vera eitthvað mjög merkilegt.“

Snæbjörn Ragnarsson.
Snæbjörn Ragnarsson. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál