„Ég er best klæddi maðurinn á heimilinu“

Kampakátur Gunni klikk!
Kampakátur Gunni klikk! mbl.is/Styrmir Kári

Gunnar Helgason, rithöfundur og skemmtikraftur, hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokknum Barna- og unglingabækur fyrir bók sína Mamma klikk! Ég spurði hann spjörunum úr. 

Hvað er skemmtilegast við vinnuna?

Allt skemmtilega fólkið sem ég vinn með. Og svo eru verkefnin mjög fjölbreytt þannig að enginn dagur er öðrum líkur. Nema þegar ég fer að skrifa. Þá hlakka ég til að vakna og hitta fólkið sem ég er að skrifa um.

Er geymslan full af drasli?

Nei, ekkert svo full. Það er eitthvað þar sem maður tímir ekki að henda en þetta er ekkert vandræðalegt.

Hefurðu hent einhverju sem þú sérð rosalega eftir?

Ekki ég en Björk konan mín gaf einu sinni jakka í Rauða krossinn sem var í fullri notkun. Ég hef oft skammað hana fyrir að láta hann fara. Algjör uppáhaldsflík. Brúnn Levi's jakki sem ég keypti í Eurodisney-garðinum í Frakklandi. Hann var að vísu orðinn svolítið lúinn.

Hvað langar þig mest í fyrir sumarið (föt/fylgihlutir)?

Mig vantar ekki neitt. Nema kannski nokkrar púpur.

Hvernig eru plönin í sumarfríinu?

Við fjölskyldan höfum ekki farið í sumarfrí saman síðan árið 2007. En nú förum við til Frakklands. Það eru mjög miklar líkur á að við skellum okkur á völlinn þar.

Hvað er ómissandi í sumarfríið?

Góða skapið númer eitt og góð bók númer tvö.

Ertu duglegur að láta drauma þína rætast?

Já, ég myndi nú segja það.

Ertu a-manneskja eða b?

Ég reyni að vera A manneskja. Vakna snemma og fara að vinna. Það gengur ekki alltaf því maður er svo oft að vinna lengi fram eftir.

Borðarðu morgunmat?

Já, kornfleks og kaffi.

Ertu duglegur að elda?

Já, og mér fer stöðugt fram miðað við viðbrögð sona minna við síðustu tilraunum.

Linsubaunabuff eða steik?

Steik. Hef reyndar aldrei smakkað hitt.

Áttu líkamsræktarkort?

Neibb. En ég á vísan stað í framlínunni á æfingum hjá heldri mönnum Þróttar, sem ég er nú loksins farinn að hitta aftur eftir langt hlé.

Notarðu hjól?

Nei, því miður. Ég á hjól en nota það ekki nógu mikið.

Hvernig myndirðu lýsa fatastílnum?

Hann er fullkominn! Ég er best klæddi maðurinn á heimilinu, ekki spurning.

Tekurðu áhættu þegar útlitið er annars vegar?

Nei, ég gerði það á níunda áratugnum og aðeins inn á þann tíunda en reyni að forðast allar áhættur síðan. Þær borguðu sig fæstar.

Ertu með eða á móti fegrunaraðgerðum?

Er ekki allt best í hófi? Ég hef sjálfur látið rétta nefið eftir einhver slys og svona þannig að mér er bara alveg nákvæmlega sama hvað fólk gerir við peningana sína. Skiptir ekki bara aðal máli að fólki líði vel í eigin skinni?

Finnst þér útlitsdýrkun ganga út í öfgar?

Ég hef nú bara sama sem ekkert pælt í því. Ég segi bara aftur: Er ekki allt best í hófi?

Ræktarðu vini þína?

Tja…ég reyni. Það er bara svo mikið að gera hjá öllum. Facebook er dásamlegt tæki til að fylgjast með vinum sínum og senda kveðjur. En á sumrin fer ég að veiða með þeim. Og það er skemmtilegst í heimi!

Áttu gæludýr?

Já, við eigum hund og nokkra hesta. Björk er mikil dýramanneskja og ég er alltaf að reyna að vera jafngóður við dýrin og hún.

Uppáhaldshlutur?

Má segja tölvan og síminn? Eða eru það of mikil vinnutæki? Og eldgamli jeppinn minn er mikið elskaður. Aðrir hlutir eru bara hlutir fyrir mér.

Besta bókin og eftirminnilegasta myndin?

Jón Oddur og Jón Bjarni er alltaf efst á lista hjá mér. Óvinafagnaður var frábær og svo er Konan við þúsund gráður alveg stórkostleg. Eftirminnilegasta myndin...hmm...þetta er stór spurning. Ein mynd hafði gríðarleg áhrif á mig þegar ég sá hana en hún heitir The Survivor og gerist í borgarastríðinu í fyrrverandi Júgóslavíu. Það hafa bara mjög fáir séð þessa mynd. Ég sá hana í regnboganum og ég hef ekki séð neina mynd sem hefur haft sterkari áhrif á mig.

Helsta fyrirmynd þín í lífinu?

Það eru nokkrir. Björk er mikil fyrirmynd og svo Felix og Ási bróðir, já og Nína og Hallgrímur og mamma og pabbi … og tengdaforeldrarnir og Jói G … og Guðrún Helgadóttir. Hún er snillingur sem mig langar að líkjast.

Hverju myndirðu breyta í lífi þínu ef þú gætir?

Vinna minna. Fyrir meiri pening!

Hefurðu gert eitthvað sem þú sérð eftir?

Já, ætli það ekki. Man samt ekki alveg eftir neinu sérstöku í augnablikinu.

Gætirðu hugsað þér að búa annars staðar í heiminum?

Nei. Það er búið að ræða það fram og til baka á mínu heimili. Hér viljum við vera. Við fórum bæði sem skiptinemar, hjónin, og svo höfum við unnið talsvert erlendis og grasið er ekki grænna þar.

Það besta við Ísland?

Hér er allt til alls. Hreint loft, gott vatn, fjölskylda og vinir og frábærar veiðiár. Og fótboltinn er á uppleið. Er hægt að biðja um meira?

Það versta við Ísland?

Má ekki bæta heilbrigðiskerfið? Og stjórnmálaumræðuna. Og bankakerfið? Annars er ég nokkuð sáttur.

Gunnar Helgason.
Gunnar Helgason. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson
Gunnar Helgason, Gunnar Þór Bjarnason og Einar Már Guðmundsson hlutu …
Gunnar Helgason, Gunnar Þór Bjarnason og Einar Már Guðmundsson hlutu bókmenntaverðlaunin í ár. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál