Dreymir um að verða húsmóðir

Snædís Yrja Kristjánsdóttir.
Snædís Yrja Kristjánsdóttir. Ljósmynd/Ragnheiður Arngrímsdóttir

Snædís Yrja Kristjánsdóttir áttaði sig fljótt á því að hún væri fædd í röngum líkama. Þegar hún fæddist árið 1991 fékk hún nafnið Snæbjörn og var alin upp sem drengur eða þangað til hún tók málin í sínar hendur. Í dag vinnur hún hörðum höndum að því að leiðrétta kyn. Snædís Yrja getur ekki beðið eftir að kynleiðréttingarferlinu ljúki formlega en hún á að gangast undir lokaaðgerð í ágúst eða september.

„Ég byrjaði á hormónunum fyrir um sex mánuðum. Það breytist ótrúlega margt við það að byrja á hormónum. Hárvöxtur minnkaði og sumstaðar hvarf hann alveg, öll líkamshár sem voru dökk áður lýstust og húðin varð mýkri,“ segir Snædís Yrja.

Hún nefnir að matarlyst hafi tekið miklum breytingum eftir að hún byrjaði á hormónunum. Hér áður fyrr sótti hún í saltan mat en nú vill hún meiri sykur. „Bragðlaukarnir eru breyttir,“ segir hún og hlær og bætir því við að hún sé í dag sólgin í súkkulaði sem hún var ekki áður.

„Mér fannst súkkulaði ekkert spes en núna þrái ég það og veit ekkert betra en að liggja uppi í sófa og kvöldin og borða súkkulaði. Ég er líka miklu meira pikkí á mat í dag og borða meira með auganu,“ segir hún.

Snædís Yrja segir að kynleiðrétting gerist í nokkrum skrefum. Hún hafi til dæmis þurft að lifa sem kona í eitt ár áður en kynleiðréttingarferlið hófst formlega. Hún segir að það hafi ekki verið neitt mál því hún hafi í raun lifað eins og kona frá unglingsaldri. „Eitt af mínum fyrstu verkefnum var að fara í leysiaðgerð á andliti til þess að stöðva skeggvöxt en ég er ekki alveg búin, þarf að fara í nokkur skipti í viðbót. Fyrir rúmlega ári fór ég í sílikon-aðgerð og ég verð að játa að það var aðalviðurkenningin fyrir mér. Mér finnst brjóstaaðgerðin mjög nauðsynleg og mér leið strax betur innan um fólk eftir að ég var búin að fara í hana,“ segir Snædís Yrja.

Þegar ég spyr hana út í stærð brjóstapúðanna fer hún að hlæja og segist að sjálfsögðu hafa fengið sér stærstu púðana. „Ég lét setja 800 g í hvort brjóst og er því með rúmlega eitt og hálft kíló framan á mér. Ég ákvað bara að gera þetta almennilega fyrst ég var að þessu á annað borð,“ segir hún og hlær.

Snædís Yrja Kristjánsdóttir prýðir forsíðu Tískublaðs Morgunblaðsins.
Snædís Yrja Kristjánsdóttir prýðir forsíðu Tískublaðs Morgunblaðsins. mbl.is

Aðspurð hvort hún hafi hugsað sér að fara í fleiri lýtaaðgerðir, fyrir utan sjálfa kynleiðréttinguna, segist hún hafa velt öllum mögulegu leiðum fyrir sér.

„Auðvitað sé ég eitthvað sem aðrir sjá ekki og ég hef alveg hugsað þetta fram og til baka. Ég verð samt að játa að ég er heppin andlitslega séð og ég elska sjálfa mig sama hvað á dynur. En það eru margir karlar sem láta minnka á sér nefnið og/eða stækka kinnbeinin, en þetta er ekkert sem ég þarf nauðsynlega á að halda,“ segir hún.

Frá 12 ára aldri hefur Snædís Yrja búið í Hafnarfirði. Þegar ég spyr hana út í fordóma í sinn garð gerir hún lítið úr þeim.

„Ég get ekki sagt að ég hafi upplifað fordóma. Ég hef alltaf verið jákvæð og bjartsýn og það hefur hjálpað mér. Auðvitað hef ég upplifað augngotur hér eða þar en ég hef aldrei látið það hafa áhrif á mig.“

Snædís var ekki nema fimm eða sex ára þegar hún vildi frekar ganga í stelpufötum. Fjölskyldan var því með ákveðið samkomulag. Hún fór í strákafötum í leikskólann en fékk svo að vera í ballerínuskóm og kjólum heima hjá sér. „Ég hef í raun gengið í stelpufötum frá 16 ára aldri og verið með hárlengingar nánast síðan þá. Fyrir mér var því engin ógurleg breyting þegar kynleiðréttingarferlið hófst fyrir alvöru,“ segir hún.

Á einhverjum tímapunkti þurfti Snædís Yrja að velja sér kvenmannsnafn. Hún segist hafa fengið ómældan stuðning frá foreldrum sínum og vinum og fannst ekki annað koma til greina en að foreldrar hennar myndu velja á hana kvenmannsnafn líkt og þau gerðu þegar hún var skírð Snæbjörn á sínum tíma.

„Ég er alveg óendalega heppin með fjölskyldu og vini. Mamma og pabbi hafa verið ótrúlega skilningsrík og hjálpað mér mikið. Þess vegna kom aldrei neitt annað til greina en að þau myndu velja á mig nafn. Mamma valdi Yrja en pabbi Snædísar nafnið,“ segir hún og bætir við:

„Innst inni er ég ótrúlega hamingjusöm að það sé hægt að breyta mér í konu. Að þetta sé allt að gerast og það er bara komið að þessu,“ segir hún.

Þegar ég spyr hana hvort hún hafi aldrei fengið bakþanka með kynleiðréttinguna segir hún svo ekki vera.

„Ég beið alltaf eftir því að fá sjokk. Eftir að ég byrjaði að kalla mig Snædísi bjóst ég við því að fá sjokk en aldrei kom neitt. Ég hef aldei velt því fyrir mér hvort ég væri að gera rétt. Ég er ótrúlega ánægð að þetta sé að gerast,“ segir hún.

Snædís Yrja hefur starfað í bjútíbransanum frá unglingsaldri en hún er bæði naglasérfræðingur og förðunarfræðingur að mennt. Hún er líka hússtjórnarskólagengin og kann því að þrífa, baka og búa til mat. Ólíkt flestum ungum konum þráir hún ekkert heitar en að verða húsmóðir. Þegar ég spyr hana út í ástarlífið játar hún að hana langi í mann.

„Að sjálfsögðu langar mig alltaf í samband. Draumurinn minn væri að finna maka sem maður elskar og gæti lifað hamingjusömu lífi með,“ segir Snædís Yrja og bætir við: „Ég er mjög hrein og bein og vil hafa allt uppi á borðum. Ég hef svo sem fengið ýmis tilboð frá karlmönnum en ég nenni ekki neinum leikjum og nenni alls ekki neinum leyndarmálum. Íslenskir karlmenn eru forvitnir og eru oft að biðja um eitthvað sem mig langar ekki til að gera. Mig langar að finna mér strák sem er yndislegur og góður og kemur eðlilega fram við mig. Hann þarf að vera opinn fyrir því hver ég er og hvað ég er búin að ganga í gegnum,“ segir hún. Þegar við ræðum frekar um karlmenn kemur í ljós að hún hrífst af ákveðnum týpum.

Hægt er að lesa viðtalið í heild sinni í Tískublaði Morgunblaðsins sem kom út í dag. Hægt er að lesa Tískublaðið HÉR. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál