Fótboltabullur eyðileggja stemninguna

Þórarinn Þórarinsson blaðamaður og umsjónarmaður Badabing á Hringbraut.
Þórarinn Þórarinsson blaðamaður og umsjónarmaður Badabing á Hringbraut. mbl

Þórarinn Þórarinsson blaðamaður og umsjónarmaður síðdegisþáttarins Badabing á Hringbraut er með fyndnari mönnum sem ganga lausir. Hann er ekki að láta pjatt nútímans þvælast fyrir sér og lifir einföldu og fábrotnu lífi eins og hann segir sjálfur frá. Hann til dæmis hreyfir sig helst ekki nema þegar hann þarf að ganga á milli staða og svo hefur hann tileinkað sér bíllausan lífsstíl. Ég spurði hann spjörunum úr. 

Hvernig ertu?

„Ég vakna oftast þreyttur, varla með sjálfum mér sem skilar sér í blöndu af depurð og pirringi en hef oft verið verri. Miklu verri.“

Hvað gerir alla daga betri og innihaldsríkari?

„Nú geta ekki allir dagar verið góðir og innihaldsríkir. Það væri nú meiri hamingjuhaugurinn en mér líður alltaf best á sálinni á meðan og eftir að ég er búinn að vera í einhverju flippi með krökkunum mínum. Góður kaffibolli á rétta mómentinu getur líka gert kraftaverk.“

Hvaða hreyfing er í mestu uppáhaldi og hvers vegna?

„Ég hata hreyfingu og lít á hana sem illa nauðsyn frekar en eitthvað til að dásama og þrá. Þar sem ég hef tamið mér hinn mjög svo geggjaða bíllausa lífsstíl geng ég mikið og það er ágætt og oft hugvekjandi. Annars er sund eina líkamsræktin sem ég get mögulega sætt mig við.“

Hvað borðar þú til að láta þér líða betur?

„Béarnaise-hamborgara á Hvíta riddaranum í Mosó. Hann er alltaf jafn fáránlega góður og fer með mig hálfa leið til himnaríkis. Eini gallinn er að ég get ekki borðað hann hvenær sem er vegna þess að veitingastaðurinn er líka sportbar og maður missir matarlystina þegar það eru leikir í enska boltanum og staðurinn fyllist af greindarskertum bjórbullum. Liverpool-leikir virðast til dæmis draga að sér sérstaklega þreytandi mannskap.“

Ef þú ættir að veita einhverjum orðu, hver fengi hana og hvers vegna?

„Ég hef miklar efasemdir um orðuveitingar, sérstaklega þær sem tíðkast á Bessastöðum þar sem fólk fær heiðursmerki fyrir að mæta reglulega í vinnuna í stjórnsýslunni í 25 ár eða svo. Orður eiga þeir að fá sem leggja líf sitt að veði til þess að hjálpa öðrum eða bæta heiminn. En ég sá einhvers staðar á netinu tillögu um að Jóhannes Kr. Kristjánsson blaðamaður ætti skilið fálkaorðu og ég get alveg stutt það.“

Ef þú mættir koma með leynigest í matarboð, hvern myndir þú taka með þér?

„Angelinu Jolie. Vegna þess að ég elska hana og finnst að hún eigi alltaf að vera með mér.“

Hvert dreymir þig um að komast?

„Ég er orðinn svo lífsreyndur og um leið lífsleiður að ég er löngu hættur að láta mig dreyma en á eftir að heimsækja gröf Jims Morrisons í Père-Lachaise-kirkjugarðinum í París og svo þyrfti ég endilega að komast í pílagrímsferð til New Jersey á söguslóðir The Sopranos og kíkja meðal annars á búlluna sem var dubbuð upp sem strippklúbburinn BadaBing! í þessum stórkostlegu sjónvarpsþáttum.“

Hvað ætlar þú að gera í sumarfríinu?

„Ég er voða lítið í sumarfríum en týndi sonurinn minn sem býr í Danmörku og ég hef ekki hitt í rúmt ár kemur til landsins í tvær vikur í júlí. Það verður ekki bara hápunktur sumarsins, heldur ársins og við munum nördast eitthvað saman.“

Hvað gerir þú alltaf um helgar?

„Ég sef rosalega mikið um helgar. Læt vekjarann hringja klukkan 11 á laugardögum og byrja að hlusta á Vikulokin á Rás 1 og sofna yfirleitt aftur og læt það svo bara ráðast hvort og hvenær ég nenni að hreyfa mig. Aðra hverja helgi set ég svo í tvær vélar og næ þannig að þvo öll fötin mín. Ég lifi ákaflega einföldu og fábrotnu lífi.“

Þórarinn Þórarinsson.
Þórarinn Þórarinsson. mbl
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál