Rikka lenti í hjólreiðaslysi á Spáni

Kolbrún Björnsdóttir og Friðrika Hjördís Geirsdóttir áður en þær lentu …
Kolbrún Björnsdóttir og Friðrika Hjördís Geirsdóttir áður en þær lentu í hjólreiðaslysinu. Ljósmynd/Instagram

Friðrika Hjördís Geirsdóttir eða Rikka eins og hún er kölluð sagði frá því á vef sínum rétt í þessu að hún hafi orðið fyrir reiðhjólaslysi á Spáni og hún hafi ekki getað hreyft sig í mánuð.

„Fyrir manneskju eins og mig þá hefur þetta verið mjög erfiður tími en á sama tíma óskaplega lærdómsríkur. Fyrst og fremst er ég þakklát fyrir að ekki fór verr og voga mér ekki að kvarta yfir mínu hlutskipti,“ segir Rikka. 

Rikka er mjög spontant og hvatvís og ákvað að fara með vinkonum sínum til Suður-Spánar í skipulagða hjólaferð á vegum Heimsferða. 

„Elli Cassata, vinur minn og eiginmaður Lilja Óskar vinkonu minnar, sá um skipulagningu ferðarinnar sem var alveg einstaklega girnileg. Fyrir þá sem hafa gaman af hjólreiðum þá hljóma daglangir hjólreiðartúrar í sól og fallegu umhverfi eins og draumur, auk þess sem þar bætist við frábær félagsskapur.

Við Kolla mín Björnsdóttir vorum nýstignar af gönguskíðum en helgina áður gengum við frá Sigöldu inn í Landmannalaugar og tilbaka daginn eftir. Sú ferð var undirbúningsferð fyrir nýliðna Fossavatnsgöngu sem svo er hluti af Landvættarkeppninni sem við ásamt fleiri góðum vinum erum skráðar í. En sú keppni snýst um að klára fjögur afrek á innan við 12 mánuðum.

Við byrjuðum fyrsta daginn á því að hjóla létta 40 km, svona rétt til að hita upp og til þess að ofbjóða ekki lærunum. Um kvöldið vorum við bara nokkuð ánægð með dagsverkið og ákváðum í sameiningu að á morgun skyldum við rjúfa 100 km múrinn. Þetta var metnaðarfullt markmið, sérstaklega þar sem sumir í hópnum höfðu varla hjólað lengra en út innkeyrsluna heima hjá sér,“ segir hún. 

Stelpurnar lögðu snemma af stað um morguninn enda áttu þær mikið verk fyrir höndum. Rikka segir að tilfinningin hafi verið ólýsanleg að finna fyrir frelsinu á hjólinu og volgan mótvindinn mæta líkamanum. Eftir að hafa hjólað allan morguninn lögðu þær hjólunum í fögrum ævintýrabæ og fengu sér ljúffengan hádegismat. 

„Með fullan maga héldum við förinni áfram. Ég hafði verið að vandræðast með slöngu (fyrir dekkin, ekki lifandi slöngu) og kom henni hvergi fyrir þannig að ég stakk henni undir sætið á hjólinu, ég hefði betur látið það ógert því þegar ég var að hjóla niður langa, bratta, ómótstæðilega girnilega brekku þá byrjaði slangan að losna undan sætinu. Með frosið bros á andlitinu tók ég náttúrulega ekki eftir neinu fyrr en ég var komin niður brekkuna en þá hafði slangan vafið sig utan um hjólastellið. Ég krossa mig bara og þakka æðri máttarvöldum fyrir að hún hafi ekki flækst í hjólinu sjálfu, það hefði endað illa. Slangan var ónýt og henni hent í næstu ruslatunnu og svo var haldið áfram. Ég viðurkenni að mér brá nú svolítið og leit á þetta sem ákveðið viðvörunarmerki,“ segir hún og bætir við: 

„Til að gera langa sögu stutta þá rjátlaðist nú af mér þessi ótti og ég fór að njóta þess að vera á fallega fáknum mínum. Þegar við vorum búin að ljúka 70 km komum við að langþráðri brekku, sólin skein hátt á himni og volgur blær lék um andlitið á mér. Mikið óskaplega var þetta dásamlegt. Þegar ég var svo að renna mér niður þessa yndislegu brekku fann ég allt í einu högg, heyrði loftið renna úr framdekkinu og svo man ég ekki meir. Ég rankaði við mér á götunni, hálftilfinningalaus. Ég sá allt svart en rankaði svo við mér og datt úr til skiptis. Ég heyrði Kollu mína kalla á mig með kökkinn í hálsinum. Ég fann ekki fyrir neinu. Ég vil nú ekki dramatisera neitt því á þessari stundu var augljóst að ég var ekki brotin. Ég var nú samt flutt í sjúkrabíl á næstu heilsugæslustöð þar sem gert var að helstu sárum. Síðan var ég send heim á hótel,“ segir hún. 

Þegar Rikka kom upp á hótel var hún dálítið vönkuð og fann hvernig lærið á henni var farið að bólgna upp. 

„Ég beit nú bara á jaxlinn, klæddi mig upp og fór í kvöldmat með fólkinu mínu. Fljótlega fór mér svo að svima og verða flökurt sem endaði á því að ég kastaði upp á mig alla og fína Diane Von Furstenberg kjólinn minn. Mikið óskaplega var þetta allt saman glæsilegt. Ég var send aftur upp á spítala þar sem ég hafði augljóslega fengið heilahristing. Þar var ég næturlangt og er í rauninni búin að vera að jafna mig síðan. Ég þurfti að láta tappa blóð af Hematomu á lærinu á mér og var svolítinn tíma að jafna mig eftir heilahristinginn. En ég er heil og voga mér ekki að kvarta,“ segir hún. Hægt er að lesa færsluna á Rikka.is í heild sinni HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál