Ástsjúkt hliðarsjálf með Taggart á heilanum

Kristín Þóra Haraldsdóttir er með mörg járn í eldinum.
Kristín Þóra Haraldsdóttir er með mörg járn í eldinum. Ljósmyndari Jónatan Grétarsson

Kristín Þóra Haraldsdóttir væri að öllum líkindum sálfræðingur ef hún starfaði ekki sem leikkona, enda er hún heilluð af manneskjunni og hegðun hennar. Sjálf segir hún þó að margt sé sameiginlegt með leiklistinni og starfi sálfræðinga, enda sé leiklistin vel til þess fallin að skoða atferli fólks.

„Þetta er í raun það sem ég er að fá að skoða í vinnunni minni á hverjum degi, og er það sem heillar mig mest við leiklistina,“ segir Kristín og bætir við að hún eigi sér þó engin draumahlutverk.

Það er mikið um að vera hjá Kristínu í sumar, enda einkennist líf leikarans að miklum önnum. Þessa dagana fer hún með hlutverk í nýrri þáttaröð sem Ragnar Bragason leikstýrir, en þættirnir nefnast Fangar.

„Þetta er ótrúlega spennandi verkefni og alveg magnað kvennadrama,“ segir Kristín, en þættirnir verða sýndir á RÚV, sem og á öllum Norðurlöndunum.

Upplifir sviðsskrekk fyrir hverja sýningu

Líf leikarans getur reynt töluvert á taugarnar og segist Kristín enn fá sviðsskrekk áður en hún stígur á svið.

„Ég upplifi alltaf sviðskrekk fyrir hverja einustu sýningu. Mér finnst nánast óþægilegt ef hann kemur ekki því hnúturinn i maganum er líka orka og vilji til að gera vel,“ segir Kristín, sem þó er með ráð undir rifi hverju. „Ég nota mikið djúpslökun og dáleiðsluæfingar sem ég lærði hjá Mögnu Birnir. Þær hjálpa mér að treysta að þetta fari vel og ég geti ekki gert betur en mitt allra besta. Kvíði er alltaf skortur a trausti heyrði ég eitt sinn. Ég held það sé mikið til í því, bætir Kristín við að lokum.“

Þó að Kristín lifi og hrærist í heimi leiklistarinnar gefur hún sér tíma til að njóta lífsins með fjölskyldu og vinum. Henni finnst fátt betra en að skella sér upp í sumarbústað með börnunum sínum, enda er hún mikið náttúrubarn.

„Mér líður vel út á landi í guðsgrænni  náttúrunni. Svo veit ég fátt skemmtilegra en að dansa. Að dansa með skemmtilegu fólki, það er uppskrift af hamingjukasti hjá mér,“ segir Kristín og bætir við að vinir, fjölskylda, húmor og dass af dansi sé uppskrift af hinum fullkomna degi.

Hliðarsjálfið með Taggart á heilanum

Kristín Þóra er að sjálfsögðu vön að bregða sér í ýmis hlutverk en hliðarsjálf hennar, hin skoska Rebekka, er fæstum líklega kunnug. En hvaðan kemur hugmyndin?

„Rebekka, eða Riibekka eins og það er borið fram, byrjaði i algjöru gríni milli mín og vinkvenna minna. Hún er mikið að spá i ástina og samskiptum kynjanna. Er með þráhyggju fyrir Taggart og er enn að bíða eftir að Leonardo Dicaprio slái á þráðinn. Svo reyndar þegar ég sjálf  geri eitthvað mjög óspennandi flétta ég því inn í lífspælingar hennar. Eins og að kaupa brauðrist, sem tók mig 2 ár að drífa í, en það varð uppsprettan að umræðu um hvatvísi.“

Þó að Kristín Þóra ani ekki út í hlutina að óhugsuðu máli, líkt og kaupin á brauðrist gefa til kynna, er hún ekki með fimm ára plan. Enda segist hún vera afspyrnu léleg í áætlanagerð.

„Ég rétt næ utan um hvað eigi að vera í matinn í næstu viku. Það er víst svo praktískt að vera með matseðil. Þannig að fimm ára plan er full metnaðarfullt fyrir mig að svo stöddu. Vonandi verð ég þó búin að læra að vera meira í núinu,“ bætir Kristín við að endingu létt í bragði.

Hér má sjá hliðarsjálf Kristínar Þóru ræða mikilvæg málefni og lífið almennt.



 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál