Drottning stemmningarinnar

Áslaug Snorradóttir, ljósmyndari og matarlistamaður.
Áslaug Snorradóttir, ljósmyndari og matarlistamaður. mbl

Áslaug Snorradóttir, ljósmyndari og matarlistakona, er ævintýrakona fram í fingurgóma. Hún hefur alltaf verið óhrædd við að fara eigin leiðir og einhvern veginn nær hún alltaf að búa til stemningu sem ekki er á færi allra. Undirrituð er svo lánsöm að hafa fengið að kynnast henni í gegnum störf sín í gegnum tíðina og getur því fullyrt að þar sem Áslaug er þar eru ævintýri. Fyrir langa löngu sá undirrituð myndir af heimili Áslaugar þar sem litrík gluggatjöld frá Marimekko prýddu stofuna. Þetta var löngu áður en slíkar gardínur komust í tísku. 

„Gardínurnar voru keyptar í Færeyjum fyrir ca 20 árum og var það orginal Maja Ísola 30 metra strangi frá Marimekko-1968 ef mig minnir rétt. Ég flutti hann með Norrænu og hengdi upp í alla glugga og saumaði nokkur dress. En svo datt mynstrið hressilega í tízku og ég tók herlegheitin niður – það var einhvern veginn of mikið. Eftir það er sjaldan dregið fyrir hjá mér en látið nægja rúllugardinur rétt yfir blánóttina á sumarmánuðum. Með einstaka undantekningu hengi ég upp litríka saría ef þannig liggur á mér en í nýjum kaflaskiptum hjá mér er ég að hvíla mig á öllu glingrinu og zena og fenga heimilið,“ segir Áslaug. Við Áslaug ætluðum alls ekki að ræða um gluggatjöld fortíðarinnar í þessu viðtali heldur nýútkomna bók hennar, Íslensk ofurfæða, villt og tamin, sem nýlega kom út hjá Forlaginu. 

Agúrka með laxi.
Agúrka með laxi. Ljósmynd/Áslaug Snorradóttir

Í bókinni notar Áslaug hollt og litríkt hráefni af nægtarborði Íslands. Áslaug er þekkt fyrir sínar frábæru veislur og hefur unun af því að kveikja hugmyndir og fræða fólkið í kringum sig. Hún segir hvatann að bókinni hafi verið að líta okkur nær því það sé allt við hliðina á okkur eða handan við hornið. 

Áslaug er drottning stemmningarinnar og hefur í gegnum tíðina búið til flottustu veislur sem um getur. Þegar hún er spurð út í þetta snýr hún eiginlega bara út úr. 

„Ég hef alltaf verið áhugasöm um nærgæti. Langar ekkert sérstaklega í spaghetti vongole nema í pugli eins með gæsalifur. Því hef hef ég ægilega unun að borða skötuselslifrina hjá Gísla á Slippnum í Vestmannaeyjum og góðu hvannar-rabarbara-kerfilskokteila,“ segir hún og brosir. 

Áslaug segir að með bókinni Íslensk ofurfæða, villt og tamin, hafi hún viljað heiðra íslenska náttúru og allt það frábæra fólk sem er að rækta og framleiða alls konar góðgæti hérlendis af mikilli ástríðu og metnaði. 

„Við með okkar frábæra vatn, loft og orku gætum sett heimsmet í ræktun á hollustu. Það ætti að vera norm að sötra krækiberjasaft, borða þara og japla á grænkáli allt árið það er hin sanna ofurfæða, krækiber vaxa sama hvernig viðrar og grænkálið stendur enn að vori í skafli eftir veturinn. Það eru forréttindi að búa við okkar hreina vatn, spírur eru 90% vatn þannig að sjálfsögðu veljum við íslenskt. Frekar langsótt að flytja inn frá Evrópu. Eins með alla drykkina hressilega langsótt að flytja inn vatnsblandaða drykki,“ segir hún og bætir við: 

„Rúnar Marvins orðaði það skemmtilega þegar hann sagði: „flestir reyta arfann í garðinum og hlaupa svo útí búð að kaupa ruccola frá ítalíu“. Svo sagði hann: „það er hollt að borða þara, en það veit það enginn“. Þetta er allt beint fyrir framan okkur og það er bara spurning um að veita því meiri athygli og heiðra nægætið," segir Áslaug. 

Hér leikur Áslaug sér með agúrkur.
Hér leikur Áslaug sér með agúrkur. Ljósmynd/Áslaug Snorra

Sigríður Ásta sá um textaflæðið í bókinni, Kristín Björgvins, raðari og stílisti hjálpaði til við stíliseringar ásamt fleira fólki. Áslaug  segir að með henni hafi verið alls konar gleðigjafar sem hafi gert bókina ennþá áhugaverðari. „Íris Ann tók myndir af réttum þeirra Lucasi á Coocoo's nest. Alltaf gaman að hafa nokkur sjónarhorn en öll eigum við það sameiginlega ástríðu á íslenskri náttúru, hráefni og skemmtilegum lífstíl. Varðandi þau Coocoo's hjón þá eru engöngu landnámshænuegg frá Júlla í Þykkvabæ, því mæli ég sérstaklega með brunch hjá þeim.“

Áslaug segir að það sé alltaf gaman að vinna með fólki – ekki vera ein úti í horni. „Mér finnst miklu skemmtilegra að sjá veröldina út frá fleirum en mér, það verður allt svo stærra og fjölbreyttara.“

Þegar við tölum um gráan hversdagsleikann segist Áslaug aldrei hafa verið sérlega spennt fyrir honum yfirhöfuð, ekki nema þegar hún hefur tekið ákvörðun um að grátt og drapp geti verið áhugavert. Þá gerir hún það spennandi. 

„Ég vel frekar að beina athyglinni að litagleði, fjöri og anda inn lífsgleðinni,“ segir hún. 

Ég veit fyrir víst að Áslaug hugsar mjög vel um mataræði sitt og borðar helst bara það sem er gott fyrir hana. Þegar ég spyr hana út í þetta segir hún að þetta hafi byrjað strax í æsku. 

„Frá upphafi hef ég alltaf verið áhugasöm um litríkan og hollan mat, það kom bara að sjálfum sér í barnæsku. Alin upp í Svíaríki, þeir eru mikið stemmningsfólk, alltaf í skógarferðum, týnandi eitt og annað, eldandi úti lon og don og sjaldan hef ég farið án nestis. Það er líka rík hefð fyrir borðbúnaði og fallegum fylgihlutum sem hafa fengið að eldast með viðkomandi þó svo að IKEA hafi gert margt gott en það er jafnvægið sem er svo fínt í öllu.

Þannig mikið hef ég frá uppeldinu þaðan. Ég elska stemmningar og að búa þær til af einlægni og gleði. Að njóta og sjá fegurðina í hinu smáa tel ég vera fullkomna lífsfyllingu. Svo er lífið alls konar og þar liggja töfrarnir, margar leiðir að öllu sem er stórkostlegt frelsi. Þannig eru mín verk. Það er ómögulegt að þvinga eitthvað fram og ósjálfrátt verður allt í lit.“

Um þessar mundir er Áslaug stödd á Grænhöfðaeyjum. Eins og hún lýsir því eru dagarnir papaya, sól, sjór og vinna. „Við heimkomu mun ég flakka um landið, taka myndir umvafin íslenskri náttúru en það er efsta stig á tilverunni, fullkomin sæla og hamingja,“ segir hún aðspurð að því sem sé framundan. 

Ljósmynd/Áslaug Snorra
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál