Dreymir um að verða arkitekt

Svanhildur Skarphéðinsdóttir tekur þátt í Ungfrú Íslandi 2016.
Svanhildur Skarphéðinsdóttir tekur þátt í Ungfrú Íslandi 2016.

Svanhildur Skarphéðinsdóttir, 18 ára nemi, er ein af þeim sem tekur þátt í Ungfrú Íslandi 2016 en keppnin fer fram á laugardaginn í Hörpu. Svanhildur er á föstu en hennar helstu áhugamál eru innanhússhönnun, tíska og ferðalög. 

Hvað er búið að vera áhugaverðast í undirbúningi keppninnar? Það sem hefur verið áhugaverðast að mínu mati er að upplifa alla þessa skemmtilegu hluti sem við höfum fengið að gera. Eins og fara í buggy adventures, allar þessar æðislegu myndatökur sem við höfum fengið að taka þátt í og að sjálfsögðu stendur hæst upp úr góðgerðarstarfið. Það er eitthvað sem ég mun aldrei gleyma og það mun ég svo sannarlega taka með mér út í lífið. Góðgerðarstarfið var æðislegt frá A-Ö og eitt af því skemmtilegasta verkefni sem ég hef gert í lífinu. Svo auðvitað það að hafa fengið að kynnast þessum æðislegu stelpum í kringum allt þetta ferli.

Þekkið þið einhvern sem hefur tekið þátt í Ungfrú Ísland? Já, ég hef kannast við margar sem hafa tekið þátt og keppti frænka mín í Ungfrú Íslandi árið 2009.

Hvað drífur þig áfram í lífinu? Það sem dregur mig áfram í lífinu er að vera sterk og takast vel á við öll þau verkefni sem mér eru gefin. Njóta þess að fá meiri reynslu út í lífið hvort sem hún sé slæm eða góð. Einnig dregur það mig áfram að vera hraust og hafa góða heilsu og að sjálfsögðu dregur yndislega fjölskyldan mín mig áfram í lífinu sem stendur með mér hvert sem ég fer og hvað sem ég geri.

Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór? Það sem ég stefni á að verða í framtíðinni er innanhússhönnuður og arkitekt. Það er draumur sem mig hefur dreymt frá því ég var lítil og er ég enn þá staðráðin í því. Planið er að klára framhaldsskólann minn og halda síðan áfram út í nám til Danmerkur.

Hvað gerir þú þegar þú vilt hafa það virkilega gott? Það sem ég geri er að hugsa vel um sjálfa mig. Að eiga góða stund með sjálfri mér er ómetanlegt. Þá nýt ég þess að slaka á í baði, setja á mig maska og hafa síðan góða kvöldstund með kertum, ostum og kexi. Það er eitthvað sem mér þykir voða vænt um að gera hvort sem það er með sjálfri mér eða öðrum.

Hvað æfir þú oft í viku og hversu lengi í senn? Ég hef verið í hvíld í allt sumar frá æfingum vegna þess að ég lenti í hörðum árekstri í vetur og hef verið hjá sjúkraþjálfara. En áður var ég að æfa svona 3-4 sinnum á viku. En á meðan keppninni stendur hef ég verið að nota „ultra tone“ í Laugum mikið sem er hreint út sagt tær snilld og taka nokkrar brennslu æfingar með þegar ég treysti mér til.

Þurftir þú að hætta að borða eitthvað eftir að þú byrjaðir að æfa fyrir Ungfrú Ísland? Ég hef yfirleitt borðað svona í hollari kantinum allt mitt líf. En að sjálfsögðu þarf maður að huga meira að mataræðinu þegar maður tekur þátt í svona keppni. En ég missti mig ekki og ég leyfði mér líka að borða hollan íslenskan mat með fisk, kartöflum og sósu og svoleiðis. Þegar ég borða góðan mat líður mér best en að sjálfsögðu reyni ég að vera dugleg að borða það sem hollt var og velja hollari kostinn.

Hvað er það skemmtilegasta sem þú gerir? Það sem mér finnst skemmtilegast að gera er að fara í sund og teikna. Ég elska að fara í sund og slaka á og finnst mér ég alltaf endurnærð eftir sundið. Einnig það sem stendur alltaf efst upp hjá mér er að teikna inn í hús og hanna hús og nýt ég þess í botn þegar ég teikna.

En það leiðinlegasta? Það leiðinlegasta sem ég geri er að kveðja einhvern til lengdar. Það er hlutur sem mér hefur alltaf fundist gríðarlega erfiður frá því ég var lítil stelpa. En þegar ég var ung þá fannst mér leiðinlegast að fara að sofa en í dag hefur það breyst og elska ég að fá góðan svefn.

Getur þú lýst stílnum þínum? Ég hugsa mest um heimilisstíl minn. Ég og kærastinn minn erum með litla bílskúrsíbúð hjá tengdaforeldrum mínum og hef ég gert þessa íbúð alveg eins sæta og ég vil hafa hana. En ég hef rosalega stóran stíl, ég elska bæði stílhreint, gamaldags stíl, litaðan stíl og alls kyns svo að ég gæti lengi talið. Ég myndi segja að ég fái þetta frá mömmu minni þar sem ég ólst upp á fallegu heimili og pældum við mikið í fallegum hlutum og í dag geri ég það enn. Hér er mynd af stofunni minni sem lýsir stílnum mínum best.

Eru einhver tískuslys í fataskápnum þínum? Ég hef alltaf frá því ég var lítið barn hugsað mikið út í það hverju ég klæðist. Og reifst ég oft við mömmu þegar ég var yngri að ég ætlaði ekki að vera svona klædd, ég vildi alltaf velja allt sjálf. Og þótt ég segi sjálf frá hefur mér aldrei fundist neitt ljótt sem ég klæðist, en kannski ef ég skoða gamlar myndir finnst mér sum föt ljót sem ég klæddist þá en voru þá flott á sínum tíma. 

Hver er fyrirmyndin þín í lífinu? Fyrirmyndin mín í lífinu myndi ég segja að væri móðir mín. Hún hefur kennt mér að vera sterk og dugleg í lífinu og kennt mér að vera besta útgáfan að sjálfri mér. Ég dáist að henni og öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur í lífinu og það gerir hún alltaf af krafti. Hún er góð við alla í kringum sig og er með fallegt hjarta. Og fæ ég oft að heyra að ég sé jafnhjartahlý og góð og mamma mín. Enda erum við mjög líkar. 

Hvar ætlar þú að vera stödd í lífinu eftir 10 ár? Í Danmörku að vinna sem innanhúshönnuður og arkitekt, og vonandi kannski komin með barn. Bara að njóta lífsins til fulls og vera hamingjusöm. Mottóið er bara að vera alltaf besta útgáfan af sjálfri mér og fylgja mínum draumum. Þannig að eftir tíu ár verð ég að fylgja mínum draumum í lífinu. 

Hvað gerir þig hamingjusama? Að sinna mínum áhugamálum og hafa tíma fyrir sjálfa mig. Svo að sjálfsögðu gerir mig mest hamingjusama að vera með fjölskyldunni minni, þá er ég alltaf glöð og það geislar af mér. Fjölskyldan er það dýrmætasta í lífinu og að vera hraust og hafa góða heilsu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál