Endurhlaðinn af skipsfjöl

Egill Ólafsson.
Egill Ólafsson. mbl

„Öll lífsins sumur hafa farið vel í mig, en síðustu tvö sumur hef ég komið endurhlaðinn af skipsfjöl, sem er nýtt – þar sem allt er stöðugt á iðandi ferð að ekki sé nú talað um heilnæmi loftsins og undursamlega nálægð Ægisdætranna níu,“ segir Egill Ólafsson söngvari sem dvaldi á skútunni sinni í Skandinavíu í allt sumar. 

Hefur þú einhvern tímann verið svona lengi á sjó?

Þetta er lengsta úthaldið, þrír sléttir mánuðir og ég upplifi fráhvarfseinkenni; […] það er þessi dauðans kyrrstaða á landi.

Hvernig var að missa eitt íslenskt sumar úr, er hægt að lifa það af?

Íslenskt sumar er í sömu fjölskyldu og sumrin í henni Skandinavíu, en þar sigldum við í  sumar – og það er víða sumarfagurt að ekki sé talað um samfélagsfegurð. 

Það að sigla tekur á líkamlega og kílóin fuku. Segðu mér betur frá því?

Við siglum 91 árs gamalli tréskútu. Þar er öll tækni varðandi segl og reipi eins og hún var í árdaga siglinga fyrir þúsundum ára. Við hífum og strekkjum öll segl á höndum, þar eru engar vélar eða hnappar að styðjast við.  Bátur á hafi úti er aldrei kyrr, sama hvernig viðrar – þú ert alltaf með ilina í beinni snertingu við ölduna og í stöðugri viðbragðsstöðu gagnvart veðri og vindum.  Fyrstu dagarnir eru undirlagðir af vöknun smávöðva í öllum skrokknum, fyrir nú utan súrefnisupptökuna, þá er sælt að sofna þreyttur og vakna fullur af nýrri orku með sólinni og sjófuglunum daginn eftir.

Breytist mataræðið á sjó?

Við borðum meira grænmeti – enda er það einstaklega gott og fjölbreytt og á fínu verði (mun ódýrara en hér heima).  Matarskammtarnir eru minni – þú borðar við vagg og veltu og bruninn er hraðari þess vegna eru nokkrar smámáltíðir yfir langan dag (venjulega siglum við lágmark í 8 - 10 tíma, fer eftir vindi, náttstaður er aldrei alveg ákveðinn – það felst í því ákveðið frelsi.  Okkur er yfirleitt tekið vel í höfnunum og ekki óalgengt að við fáum að liggja við bestu bryggjur – þeir hafa yndi af gömlum tréskipum og hafa þau í hávegum, sérstaklega sænskir og danskir og spjalla mikið.

Hvernig tilfinning er það að vera um borð í bát marga mánuði í röð?

Það er eins og að setjast við hliðina á vindinum þar sem aldan leikur undir. Það hefur sérkennilega róandi áhrif á mitt sálartetur  og ég held ég deili því með Tinnu.

Hvað gerir sjórinn fyrir þig?

Hann togar í allt mitt eðli – en fyrst og síðast er það hin stóra óttablandna virðing, sem við mennirnir ættum ætíð að hafa fyrir undrum og afli náttúrunnar – þegar þeir kraftar birtast er betra að vera ekki með neinn derring.

Hvað um sköpunina og listina. Hefur sjómennskan ekki góð áhrif á hana?  

Það eitt að draga upp segl er sköpun, þar þarf að hafa innsæi af bestu gerð, eins og í listinni – öðruvísi fer segl ekki vel í vindi og hætt er við að það gagnist þá hvorki för né fleyi.

Í hvaða verkefnum ertu að vinna núna?

Nú er ég að fara ásamt með Ragnheiði Gröndal, Hauki Gröndal og þýskri sveit; Strom & Wasser, í sex daga ferð um Austur- og Norðurland sem hefst 6. september.  Ég hef undanfarið starfað með Heinz Ratz, forsprakka sveitarinnar, og við höfum ferðast með honum um Þýskaland. Hann er einstakur kraftaverkamaður á mörgum sviðum og hefur ekki aðeins virkjað okkur þrjú ofan af Íslandi til samstarfs, en afrakstur þess er meðal annars tvöfaldi diskurinn; STROM UND WASSER – REYKJAVÍK, sem hið virta útgáfufélag í Berlín, Taumton, gefur út, heldur hefur hljómsveit hans mörg andlit. Eitt af þeim er samstarf við flóttamenn í flóttamannabúðum í þýskalandi. Þar hefur hann veitt mörgum tónlistarmanninum tækifæri til að nýta hæfileika sina og um leið skapa sér farveg í nýju samfélagi. Eftir tónleikaferðina verður konsert í Kaldalóni í Hörpu í samstarfi við Jasshátíð 13. september.

Hvað gerir þú dagsdaglega í hversdagsleikanum til að viðhalda líkamlegum og andlegum styrk?

Ég fer reglulega í Kramhúsið í hreinar og klárar gólfæfingar ásamt með góðum félögum á svipuðu reki, undir leiðsögn og verndun tveggja meistara sem heita Sóley og Olga.

Hvað drífur þig áfram?

Löngunin til að reyna mig við elementin.       

Tinna Gunnlaugsdóttir og Egill Ólafsson dvöldu í Skandinavíu í sumar …
Tinna Gunnlaugsdóttir og Egill Ólafsson dvöldu í Skandinavíu í sumar á tréskútu.
Tréskútan er glæsileg.
Tréskútan er glæsileg.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál