Sjósundið breytti lífinu

Herdís Anna Þorvaldsdóttir.
Herdís Anna Þorvaldsdóttir.

Herdísi Önnu Þorvaldsdóttur, framkvæmdastjóra Þyrluþjónustunnar Helo, dreymir um að eignast sjósundskó og hanska en hún kynntist sjósundi í sumar og er óstöðvandi í því. Herdís er barnabarn Herdísar Þorvaldsdóttur heitinnar og dr. Gunnlaugs Þórðarsonar og segir að þau tvö hafi verið miklir áhrifavaldar í hennar lífi. Nú vill Herdís komast á þing en hún tekur þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins sem fram fer um helgina. 

Ertu byrjuð að skipu­leggja haustverkin?

Haustverkin eru svolítið annars eðlis þetta árið, ég er meira í þvi að tína atkvæði heldur en ber og sveppi eins og er. En eftir prófkjör ætla ég að njóta lystisemda síðsumarsins.

Er geymsl­an full af drasli? 

Já, hún fyllist reglulega en ég skilgreini það ekki sem drasl sem þar er.

Áttu erfitt með að losa þig við gam­alt dót? 

Ég á ekkert erfitt með að losa mig við það inn í bílskúr en svo strandar það gjarnan þar. Ég er samt dugleg að koma gömlu dóti í gagnið til þeirra sem það nýtist.  

Hef­urðu hent ein­hverju sem þú sérð rosa­lega eft­ir? 

Því sem ég hef tekið ákvörðun um að henda er ég alveg sátt við að losa mig við úr mínu lífi en það hefur gerst að ég sakni einhvers sem mig grunar að hafi farið út með ruslinu óviljandi og það getur verið pirrandi. Annars reyni ég að tengjast veraldlegum hlutum ekki of miklum tilfinningaböndum. 

Hvað lang­ar þig mest í fyr­ir veturinn (föt/​fylgi­hlut­ir)?

Sjósundskó og hanska til að fara með í sjósundið þegar fer að kólna í veðri og svo væri ég til í hlýja úlpu og hita í stýrið svona milli þess sem ég kæli mig niður í sundinu.

Hvað gerðir þú í sumarfríinu? 

Ég byrjaði að stunda sjósund sem er eitt það allra besta sem ég hef gert fyrir sjálfa mig og líklega þess vegna sem ég er komin í framboð, maður verður svo fullur af orku.

Ég ferðaðist líka mikið með börnunum mínum í sumar. Við keyrðum um Svíþjóð og hittum systur mína og ættingja, fórum óvænt á Deep Purple-tónleika og heimsóttum Egil og Tinnu frænku í skútuna þeirra Sjófuglinn.

Svo keyrðum við hringinn um Ísland og leituðum að Pokimonum og ílengdumst í Neskaupstað af því maturinn þar var svo góður og ég synti í Norðfirði sem var alveg einstakt. 

Herdís Anna Þorvaldsdóttir með börnunum sínum þremur.
Herdís Anna Þorvaldsdóttir með börnunum sínum þremur.

Ertu dug­leg að láta drauma þína ræt­ast? 

Já ég er alla vega dugleg að ýta mér út fyrir þægindarammann sem er mikilvægt í því ferli að sækjast eftir draumunum. Þátttakan í prófkjörinu er einmitt einn liður i því að láta draum rætast.

Ertu a-mann­eskja eða b?

Það ætti að vera til skilgreiningin c-manneskja. 

Borðarðu morg­un­mat? 

Það er svona happa glappa en ég tek alltaf lýsi og D-vítamín á morgnana.

Ertu dug­leg að elda? 

Ég elda ekki oft af því maðurinn minn er yfirleitt fyrri til og frábær kokkur en mér finnst það gaman við og við og elda alltaf rjúpurnar á jólunum.

Áttu lík­ams­rækt­ar­kort?  

Já, ég er með kort í líkamsrækt þar sem ég kann mjög vel við mig og svo er ég með sundkort sem ég nýti alveg extra vel.

Hvernig mynd­irðu lýsa fata­stíln­um? 

Ég held ég hafi frekar einfaldan, klassískan fatastíl, ég er oftast í gallabuxum hversdags og hælum og jakka nema þegar ég skelli mér í Ellu-kjól sem Elínrós Líndal vinkona mín framleiddi. Kjólarnir hennar eru uppáhaldsflíkurnar mínar og ég veit ekki alveg hvað ég geri þegar ég verð búin að ganga þá út. 

Tek­urðu áhætt­u þegar út­litið er ann­ars veg­ar?

Það er nú varla hægt að segja það, minn stíll hefur lítið breyst í gegnum tíðina. Það tekur til dæmis enginn eftir því þegar ég fer í klippingu en það gerist svona tvisvar á ári. En ég er stundum svolítið litaglöð í fatavali, minnug orða Herdísar ömmu minnar sem sagði að það væri svo niðurdrepandi að allir væru alltaf í svörtu. 

Ertu með eða á móti fegr­un­araðgerðum? 

Mér finnst sjálfsagt að fólk geri það sem það vill við sjálft sig og líti út eins og það langar til svo lengi sem það skaðar engan. Ég hef sjálf ekki enn þá nýtt mér fegrunaraðgerðir en á það kannski inni seinna meir.

Finnst þér út­lits­dýrk­un ganga út í öfg­ar? 

Já, ég held að við eigum það til að láta útlitið hafa allt of mikil áhrif á okkur. Ég hef samt trú á mannskepnunni og þróuninni og að við munum með aukinni fræðslu og meðvitund hætta að upphefja fólk eða draga það í dilka vegna útlitseinkenna þess. 

Þessi mynd var tekin í vikunni þegar Herdís skellti sér …
Þessi mynd var tekin í vikunni þegar Herdís skellti sér í sjósund.

Upp­á­halds­hlut­ur? 

Það myndi vera sá hlutur sem sameinar hvað best notagildi og fallega hönnun, síminn minn.

Besta bók­in? 

Mætur maður benti mér á Góða dátann Sveik og ég er að verða nokkuð góð í að rifja upp tilsvör dátans.

Eft­ir­minni­leg­asta mynd­in? 

Bitter Moon kemur reglulega upp í hugann, þar lýsir Roman Polanski af svo mikilli dýpt togstreitu og valdatafli í samlífi fólks.

Helsta fyr­ir­mynd þín í líf­inu?

Það eru þá helst allar mögnuðu konurnar sem ég hef fylgt á lífleiðinni, þá sérstaklega ömmurnar. Þær voru svo sjálfstæðar og miklir frumkvöðlar sem skiluðu sínu til að bæta samfélagið sem við búum í. Ég verð reyndar líka að minnast á dr. jur. Gunnlaug Þórðarson afa minn en hans sýn til lífsins blæs mér alltaf í brjóst hvernig maður á að hafa gleðina að leiðarljósi. 

Hverju mynd­irðu breyta í lífi þínu ef þú gæt­ir? 

Því sem ég get breytt er ég stöðugt að vinna í að breyta. Þess vegna fór ég til dæmis út í stjórnmál. Annars væri ég til í að veturnir hér væru aðeins bjartari og hlýrri en ég myndi samt aldrei skipta út íslensku sumrunum fyrir það.

Hef­urðu gert eitt­hvað sem þú sérð eft­ir? 

Já, alveg örugglega en það er ekkert sem ég get ekki lifað með og ekkert sem ásækir mig þannig að mér detti neitt sérstaklega í hug á þessari stundu. Ég sé alla vega ekki eftir að hafa farið í framboð en ég hefði líklega séð eftir að hafa ekki gert það. Það er frekar þannig að maður sjái eftir því sem maður gerir ekki í lífinu.

Ég býð þeim sem hafa áhuga á að kynnast mér betur að hitta mig í pottinum á Ylströndinni á föstudaginn í hádeginu. Ég hef ekki enn þá hitt manneskju sem hefur séð efir því að prófa sjósund. 

Herdís Anna Þorvaldsdóttir í sjósundi.
Herdís Anna Þorvaldsdóttir í sjósundi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál