Íslensk og leikstýrir Red Hot Chili Peppers

Þóranna Sigurðardóttir, Atnthony og Sturla.
Þóranna Sigurðardóttir, Atnthony og Sturla.

Þóranna Sigurðardóttir, eða Tóta eins og hún er kölluð, er leikstjóri nýjasta myndbands stórsveitarinnar Red Hot Chili Peppers. Hún hefur búið og starfað í Los Angeles í meira en áratug og vinnur að býsna spennandi verkefnum. Hún segist ekki lifa neitt öðruvísi lífi en aðrir hér á plánetunni. Undirrituð getur þó staðfest, eftir að hafa hitt hana í Los Angeles á dögunum, að hún er vel tengd inn í heim sem mörgum finnst spennandi. 

„Ég kynntist Anthony og Flea 1992 hér í LA og er búin að halda sambandi við þá síðan. Þegar ég var að fjármagna stuttmyndina mína Zelos gáfu þeir smá pening í hana. Svo þegar þeir fengu að sjá Zelos voru þeir mjög hrifinir og vildu endilega að ég leikstýrði myndbandi þegar nýja platan kæmi út. Fyrst ætluðum við að gera myndband fyrir Dark Necessities og taka á Íslandi, en Anthony var veikur á þeim tíma og það gekk ekki upp. Olivia Wilde leikstýrði því myndbandi fyrir þá og gerði mjög vel. Ég er svo ánægð með að bandið hafi valið tvo kvenleikstjóra til að gera fyrstu myndböndin á plötunni. Svo kom Anthony til mín með þessa hugmynd að gera Saturday Night Fever-þema myndband fyrir Go Robot og ég gat ekki annað en sagt já, þó að ég hafði bara nokkra daga til stefnu,“ segir Tóta. 

Hvernig vannstu þetta og með hverjum? 

„Sara Nassim, sem var framleiðandinn minn á Zelos, kynnti mig fyrir Sturla Brandth Grovlen, sem sá um kvikmyndatöku á bæði Hjartasteini og Hrútum. Hann var alveg fullkominn í þetta verkefni og ég sé ekki alveg fyrir mér hvernig þetta hefði allt tekist án hans, því hann er bæði snöggur, vandvirkur og einstakt ljúfmenni. Við þurftum að ná mjög miklu efni á stuttum tíma. Framleiðandinn var frábær innfæddur Brooklyn-búi sem heitir Mario Romeo og skipulagði þetta eins og við værum að fara að fremja rán. Framleiðslufyrirtækið heitir Legs og hefur unnið mörg verðlaun fyrir frábær verkefni,“ segir hún. 

Þema myndbandsins var Saturday Night Fever.

„Ég held að Anthony hafi verið nýbúinn að sjá myndina aftur og hann var mjög inspíreraður. Ég hafði ekki séð myndina í mörg ár þannig að það var mjög gaman að sjá hana aftur. Hún er ótrúlega vel leikstýrð. Hún er um drauminn að komast í burtu frá litla samfélaginu sem þú ert alinn upp í og upplifa eitthvað nýtt. Eitthvað sem ég held að tali til flestra Íslendinga.“

Myndbandið var tekið upp í New York. Þegar Tóta er spurð að því hvers vegna segir hún að þau hafi viljað taka upp á sömu tökustöðum og í Saturday Night Fever.

„Það var því miður búið að rífa diskótekið en við fundum annað í Brooklyn. Lenny´s Pizza í Bensonhurst í suður Brooklyn er enn til staðar og Anthony gekk niður 86. stræti, sömu götu og John Travolta í Saturday Night Fever. Þá var þetta mjög ítalskt hverfi en nú er það kínverskt. Bandinu fannst svo gaman að eyða deginum í úthverfi Brooklyn, sem er svo ólíkt öllu sem þeir eru vanir, að þeir fóru að tala um að flytja þangað. Gatan fylltist af aðdáendum og bæði strákar og stelpur grétu yfir því að fá að sjá hjómsveitarmeðlimi. Þetta var allt svo súrrealískt, að vera miðaldra kelling frá Íslandi í Bensonhurst að leikstýra rokkstjörnum,“ segir hún og hlær. 

Verkefnið var sérstakt fyrir Tótu því hún hefur aldrei áður leikstýrt tónlistarmyndböndum.

„En vonandi fæ ég tækifæri til að gera fleiri. Þetta var skemmtilegt, þó svo að við hefðum bara nokkra daga til að undirbúa og töluvert stress væri í kringum það.“

Þegar hún er spurð hverju þessi vinna muni breyta segir hún að þetta sé allt skref upp á við.

„Þetta er allt skref í rétta átt. Vonandi á ég eftir að fá fleiri myndbönd og kannski litlar auglýsingar. Þetta tekur allt sinn tíma. Ég er að þróa Zelos-kvikmynd í fullri lengd með sama þema og stuttmyndin mín. Það tekur sinn tíma, þannig að það væri mjög gott að fá vinnu við að leikstýra styttri verkefnum, þar til kvikmyndin fer af stað. Það væri líka mjög gaman að fá fleiri tækifæri á Íslandi við að gera auglýsingar og myndbönd.“

Eins og fyrr segir hefur Tóta búið lengi í Los Angeles. Aðspurð segist hún hafa elt ástina til Los Angeles.

„Ég varð ástfangin af manninum mínum þegar hann leikstýrði Ford Explorer-auglýsingu á Íslandi og ég elti hann til Los Angeles,“ segir hún. 

Þóranna að störfum.
Þóranna að störfum.



Við ræðum bransann og ég spyr hana hvort það hafi ekki verið erfitt að koma sér á framfæri í Los Angeles. 

„Þetta er bara eins og hver önnur vinna, tekur eitt skref í einu. Mig langaði alltaf til að verða leikstjóri. Hins vegar fór ég fljótlega að framleiða þegar ég komst í kvikmyndageirann og það er allt annar leggur. Síðan ég flutti til LA er ég stanslaust búin að vera á námskeiðum til að vinna að því að skrifa handrit og leikstýra. Það tók smá tíma fyrir mig að sannfæra sjálfa mig um að ég gæti alveg eins leikstýrt og allir karlarnir sem ég hef unnið með í gegnum tíðina. Darren Aronofsky studdi mikið við bakið á mér og hvatti mig til að sækja um AFI DWW. Um leið og ég þorði að taka skrefið og gera stuttmynd áttaði ég mig á því að ég er bara ágætur leikstjóri. Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega góð í neinu. Aldrei unnið nein verðlaun. En ég er búin að fá fullt af bikurum fyrir Zelos, fyrstu stuttmyndina mína. Það er mér nú mikið hjartans mál að koma skilaboðunum áleiðis til allra kvenna, bæði yngri og eldri kynslóða sem langar að leikstýra, að það er ekkert mál, bara mjög mikil vinna. Við stelpur eigum svo fáar fyrirmyndir í leikstjórn að ég hélt að það yrði erfitt fyrir mig að taka þátt í typpakeppni með ekkert typpi. En svo var það bara alls ekki þannig,“ segir hún. 

Þegar ég spyr hana út í líf hennar í Los Angeles segir hún að það sé bara eins og hjá öllum öðrum á plánetunni. 

„Vakna, koma öllum í skólann, æfa (til að vera ekki þunglynd eða vera útskúfuð fyrir að vera of feit), vinna (skrifa, funda, pitcha, undirbúa, klippa, hustla), kaupa í matinn, sækja í skólann, keyra krakka í fótbolta, píanó, trommur, fimleika, sund og myndlist (tekur um það bil 15 tíma á viku í LA), laga til, vinna í garðinum, fara í vax og neglur, búa til matinn, vaska upp, næra hjónabandið, fara út með vinkonunum, út að hlaupa með hundinn og svo í háttinn,“ segir hún. 

Verkefnalistinn hjá Tótu er langur. Hún er enn að skrifa Zelos í fullri lengd. 

„Svo er ég líka að klippa Back on Track, sem er heimildarþáttaröð sem ég er að leikstýra. Einnig er ég tengd öðrum myndum sem mig langar að gera á Íslandi, en það er allt enn á byrjunarstigi,“ segir hún. 

Tóta elskar að vera leikstjóri og þá sérstaklega að vera í tökum.

„Þá fæ ég að leika guð í nokkra daga og allir gera allt sem ég skipa þeim að gera. Það er ekki hægt að vera leikstjóri nema af ástríðu. Þetta er endalaus vinna fyrir lítið kaup, eins og er.“

Hvert sækir þú innblástur? 

„Mest með því að hlusta og fylgjast með litlu hlutunum sem gerast í mínu daglega lífi. Ég reyni að lesa sem mest, skoða list, fara á tónleika, fara í bíó, horfa á góða þætti eða heimildamyndir. Mér var boðið á Burning Man síðustu helgi og það var endurfæðing.“

Hvað gerir þig hamingjusama?

„Ég er svo heppin að mér finnst mjög gaman að lifa, en það er ekki sjálfgefið, sumum er skammtað minna dópamín en öðrum. Ég reyni að velja það sem gerir mig hamingjusama, spila ólsen með krökkunum, fara í fjallgöngu með hundinum, í bíó með kallinum, hlæja með vinunum og vinna með fólki sem er gefandi. Ég reyni að hanga ekki of mikið á netinu og eyða ekki of miklum tíma í að baktala náungan, en það er eins og margt annað ekki alveg jafn auðvelt í verki eins og það er í vilja.“



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál