Þú verður að velja hvaða orrustur þú ætlar að taka

Helga Sverrisdóttir.
Helga Sverrisdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Helga Sverrisdóttir hjúkrunarfræðingur á Seltjarnarnesi á fjögur börn með eiginmanni sínum, Bjarna Ármannssyni. Hún var lengi heimavinnandi og segir að það skipti máli að hafa skýrar reglur en á sama tíma að hafa uppeldið svolítið flæðandi. Hún lærði nokkur góð uppeldisráð hjá Þórkötlu Aðalsteinsdóttur sálfræðingi og svo hafa töfraráð Opruh Winfrey alltaf virkað vel. Hún nýtur líka góðs af því að hafa unnið með Margréti Pálu í tengslum við Hjallastefnuna. 

„Ég held að það sé gott að hafa barnauppeldið svona að hluta til mjög afslappað og láta það svolítið flæða í takt við það hvernig börnin þín eru að þroskast, en að hluta til skipulagt að því leyti að maður hafi sest niður og pínu ákveðið, hey við ætlum að ala upp börn saman: Hvernig eigum við að gera þetta? Ef þú setur ekki svona nokkur prinsipp niður fyrir þér þá koma börnin þín bara aftan að þér og þá er allt of seint að fara að pæla í hvað manni finnst um hlutina. Þú ákveður til dæmis bara snemma að þín börn fái ekki að eiga bannaða tölvuleiki sem nauðga og drepa og þá þarf ekkert að ræða það meira, þá er þetta bara svona. Ef þú hefur aldrei rætt þetta og svo er allt í einu spurt í Elko þá er það ekkert staðurinn til að fara að ræða þetta. Ég held að mín börn viti mjög vel hvað mér finnst um hlutina.
Helga og Bjarni með börnin sín fjögur þau Auði, Benedikt, …
Helga og Bjarni með börnin sín fjögur þau Auði, Benedikt, Tómas og Helgu Guðrúnu.

Ég hef reynt að hafa þannig samband við krakkana að þau þori að koma til mín með alla hluti, líka þegar eitthvað leiðinlegt gerist. Ég fríka ekkert út yfir neinu, það hjálpar ekki. Mig langar ekki að vera mamma sem enginn þorir að segja neitt af því ég verð svo reið. Ég hef ekki séð reiði gera mikið gagn. Það misstíga sig nú flestir eitthvað pínu á leiðinni til fullorðinsáranna og þá er nú aðalmálið að vera til staðar og aðstoða. Við höfum líka verið heppin hjónin að vera samstiga og sammála um flesta hluti sem viðkoma þessu,“ segir Helga.

Helga á fjögur börn og þar af tvíbura og hefur aldrei lesið eina einustu uppeldisbók en hefur hinsvegar tekið virkan þátt í foreldrafélagsstarfi. Hún segist hafa lært margt af Þórkötlu Aðalsteinsdóttur sálfræðingi. Hún hefur líka notið góðs af því að vinna með Margréti Pálu Ólafsdóttur, höfundi Hjallastefnunnar.

„Þórkatla kenndi mér nokkur lykilatriði sem ég notaði mikið. Til dæmis það að láta börn aldrei finna að þau geti stjórnað líðan þinni. Þú getur aldrei sagt við barn „ef þú gerir þetta verður mamma ofsalega leið og fer bara að gráta“. Hún kenndi mér líka að hafa stjórnina inni á heimilinu og vera staðföst þegar þyrfti. Hún kenndi mér að fara frekar með grátandi barn á öxlinni út úr búð en að rökræða við það – sem ég þurfti stundum að gera. Ég er með foreldrafélagsblæti og hef verið vandræðalega lengi í svoleiðis stússi og svona fyrirlestrar í skólum og leikskólum geta verið svo góðir og kennt manni margt,“ segir hún.

Hvernig er öðruvísi að ala upp tvíbura en eitt barn í einu?

„Það er ótrúlegt ævintýri að eignast tvíbura og þó að það hafi verið erfitt stundum að vera með þau lítil og eiga annað barn þremur árum eldra þá var ég svo heppin með þau. Þau voru tiltölulega meðfærileg og frekar hraust og svo sendi ég þau alltaf hluta úr degi til dagmömmu þó ég væri heimavinnandi til að ég gæti náð utan um heimilið og sjálfa mig. Þannig vann ég þetta eins og hverja aðra vinnu þar sem stundum gekk vel og stundum gekk mikið á og þá þurfti ég mikið að reiða mig á hjálp minna nánustu. En það var alltaf gaman, að minnsta kosti í minningunni,“ segir hún og hlær og rifjar það upp í febrúar 1999 hafi öll börnin verið veik til skiptis í heilan mánuð.

Þegar Helga er spurð að því hvernig hún fari að því að halda uppi aga á heimilinu segir hún að það sé nú kannski ekkert býsna mikill agi yfirhöfuð.

„Ég legg meira upp úr að það sé ró og regla en það eru ákveðnir hlutir sem við leggjum áherslu á og ég er frekar föst á þeim. Þú verður að velja hvaða orrustur þú ætlar að taka, því ef maður tuðar yfir öllu verður það bara suð, Ég held að þetta heiti leiðandi uppeldi í fræðunum, þar sem maður setur skýr mörk og ræðir við börnin um hvers vegna en elur þau líka upp með mikilli hlýju og uppörvun. Ég hef mikla trú á knúsandi uppeldi með húmor og ákveðinni festu.

Sumt er svona grundvallaratriði eins og að borða hollt og fara tiltölulega snemma að sofa, svo leggjum við ríka áherslu að á móti þeim réttindum og forréttindum sem börnin hafa þá fylgi líka skyldur. Hluti af því er að hjálpast að á heimilinu, mæta samviskusamlega í skóla og íþróttir og vera stundvís, og bara vera góð manneskja sem getur líka sett sig í spor annarra og verður ekki of sjálfhverf. Ef ég má hljóma pínu gömul þá finnst mér ungt fólk í dag allt of upptekið af réttindum sínum.

Helga hefur mikinn áhuga á börnum og þeirra heimi. Hún var samt ekkert viss um að hún myndi giftast og eignast börn.

„Ég hélt svo mikið að ég mundi pipra og yrði einhleypi hjúkrunarfræðingurinn sem færi að vinna í Afríku, og kæmi með framandi gjafir handa frænkum og frændum. Áður en ég vissi af var ég bara þriggja barna móðir um þrítugt og svo var þetta bara búið að vera svo gaman að okkur dauðlangaði í eitt í viðbót.

Ég hef alltaf reynt að hafa bara gaman að þessu og taka sjálfa mig ekki of hátíðlega í uppeldinu. Ég sagði stundum við krakkana mína þegar þau grenjuðu öll í kór að það væri eins gott fyrir þau að þau yrðu fyndin og skemmtileg þegar þau yrðu stór eftir allt sem ég væri búin að leggja á mig við að koma þeim á legg. Og viti menn, þau eru öll alveg bráðskemmtileg og fyndin. Þau eru samt ekkert bestu vinir mínir, hef aldrei skilið það hvernig lítil börn geta verið bestu vinir þínir. Þau eiga sína vini og ég mína og við erum í svona mæðgnasambandi. Dætur mínar eru ekki bestu vinkonur mínar heldur dætur mínar. Nú eru þau að verða stór og ég hef svakalega gaman af unglingum, þau eru svo frábær. Heimilið hér er alltaf fullt af frábærum unglingum og þegar þau fara út á lífið segi ég þeim að hegða sér bara alls ekki eins og fullorðið fólk, vera bara eins og unglingar. Mér finnst ótrúlegt hvað margir eru stressaðir út af unglingum, þau mega ekki vera á tjaldstæðum og ekki á bjórkvöldum og ekki halda partí. En þau mega helst ekki heldur einangra sig inni í herbergi. Það er vandlifað að vera unglingur. Það er eins og þau eigi bara að vera til friðs, en eru þetta ekki einmitt einu árin sem maður hefur tækifæri til að vera ekki alltaf til friðs?“

Helga var heimavinnandi þegar börnin voru lítil. Þegar ég spyr hana út í verkaskiptingu segir hún að heimilið hafi verið mikið á hennar herðum. Hún lærði þó eitt dýrmætt ráð af Opruh Winfrey og það voru 20 töfra-mínúturnar.

„Stundum höfum við haft þrifhjálp og stundum ekki. Í dag þegar ég er farin að vinna og krakkarnir orðnir stórir þá reynum við að hjálpast að en ég er nú sú sem sting upp á hóptiltekt þegar þarf. Hér notum við óspart „Magical twenty“ en það er ráð sem Oprah Winfrey, vinkona mín, gaf mér einu sinni og gengur út á að allir hjálpist að í 20 mínútur og það er bara hreint ótrúlegt hverju 6 manns geta komið í verk á 20 mínútum, til dæmis á föstudegi þegar allt er í rúst í vikulok.

Helga býr á Seltjarnarnesi og segir að það séu miklir kostir að þurfa ekki að skutla börnunum neitt því öll tómstundaiðja, skóli og leikskóli séu á sama blettinum.

„Ég er nú svo heppin að hafa alið upp mína krakka hér á Seltjarnarnesi þar sem er göngustígur frá húsinu okkar í skóla, leikskóla og tónlistarskóla og það gerði mér auðvelt fyrir. Þau voru öll í íþróttum í Gróttu í hand- og fótbolta og mikill munur að þurfa aldrei að skutla. Ég hef aldrei verið duglegasta mamman að koma að horfa á hvern einasta leik en almáttugur hvað ég er búin að vera í mörgum foreldrafélögum og hef alltaf tekið virkan þátt í félagsstarfi í kringum krakkana og hef sko eignast þar óteljandi vini,“ segir Helga.

Helga Sverrisdóttir.
Helga Sverrisdóttir. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál