Clinton keypti kápu á Íslandi

Hillary Clinton í kápunni góðu. Með henni á mynd er …
Hillary Clinton í kápunni góðu. Með henni á mynd er Davíð Oddson, en ekki fylgir sögu hvar hann fékk yfirhöfnina sína. Ljósmyndari / Ásdís Ásgeirsdóttir

Mikla athygli vakti þegar Hillary Clinton kom við í þeirri fornfrægu verslun Bernharð Laxdal á Laugaveginum, þegar hún heimsótti landið árið 1999. Clinton var hér í tilefni af ráðstefnunni Konur og lýðræði en nýtti þó tækifærið og festi kaup á forláta kápu, sem hún sást síðan margoft í á opinberum vettvangi.

Blaðamaður fór á stúfana og hafði samband við Guðrúnu Axelsdóttur, eiganda verslunarinnar, en hún heldur mikið upp á Clinton.

„Hún gekk um miðborgina og kom við á nokkrum stöðum. Hún kom inn í búðina, var svona rosalega hrifin af þessari kápu og keypti sér hana. Svo heyrði ég seinna að hún hefði sést í þessari kápu í fjölmiðlum í þónokkur ár á eftir,“ segir Guðrún og bætir við að Clinton hafi boðið af sér góðan þokka og verið sérlega kurteis.

„Konan sem afgreiddi hana kom ekki niður jörðina lengi á eftir. Hún er náttúrlega alger sjarmör þessi kona og kann sig svo vel. Hún væri ekki komin á þennan stað ef hún hefði ekki mikla persónutöfra,“ segir Guðrún hress í bragði. En hvernig kápa var þetta sem Clinton keypti?

„Létt og góð yfirhöfn, sennilega úr dún. Þetta hefur sennilega verið í september, en það var farið að kólna þannig að hún fór ekki úr þessari kápu þessa daga sem hún var á Íslandi. Það voru teknar myndir af henni með Davíð Oddsyni á Þingvöllum, og á gangi niður við höfn. Í búðinni hjá okkur erum við með fjórar flottar myndir innrammaðar, en það var ljósmyndari frá Morgunblaðinu sem bauð okkur þessar myndir,“ segir Guðrún létt í bragði.

Guðrún er að sjálfsögðu mikill stuðningsmaður Clinton, og vonar að hún muni fara með sigur af hólmi í komandi kosningum.

„Þetta er bara okkar kona. Hún stóð sig rosalega vel í kappræðunum í nótt. Hún pakkaði Trump saman, enda miklu betur að sér í ýmsum málum. Við skulum vona að hún hafi þetta, en ég hef mikla trú á því.“  

Hillary Clinton skundar um bryggjuna í Reykjavík, að sjálfsögðu í …
Hillary Clinton skundar um bryggjuna í Reykjavík, að sjálfsögðu í kápunni góðu. Ljósmyndari / Ásdís Ásgeirsdóttir
Kápan kom greinilega að góðum notum í haustlæginni á Íslandi.
Kápan kom greinilega að góðum notum í haustlæginni á Íslandi. Ljósmyndari / Ásdís Ásgeirsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál