Ingileif nýr lífsstílsbloggari

María Rut Kristinsdóttir og Ingileif Friðriksdóttir.
María Rut Kristinsdóttir og Ingileif Friðriksdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér bauðst þetta tækifæri og ég hugsaði með mér að ég gæti vonandi lagt ýmislegt af mörkum svo ég ákvað að slá til. Ég hef mikla unun af því að skrifa en hef oft ekki fundið hugleiðingum mínum farveg nema á Facebook, svo þarna sá ég því fyrir mér að hafa vettvang til að deila þeim. Ég held ég komi inn í bloggsenuna með nýjan tón þar sem ég er meðal annars samkynhneigð stjúpmamma með skoðanir á flestu og ég vona að fólki eigi eftir að líka það sem ég skrifa,“ segir Ingileif Friðriksdóttir lögfræðinemi sem er nýr lífsstílsbloggari á mamie.is. 

Hvernig lífsstílsbloggari ætlar þú að vera? 

„Ég mun skrifa um það sem mér er hugleikið hverju sinni og verð líklega töluvert á persónulegu nótunum. Ég mun til að mynda segja frá litlu fjölskyldunni minni, en mér hefur stundum fundist það gleymast í umræðunni að fjölskylduform eru alls konar og það er eitthvað sem mig langar að vekja athygli á. Við María unnusta mín stofnuðum Snapchat-rásina Hinseginleikinn í sumar þar sem við fáum alls konar hinsegin fólk til að segja frá sínu lífi því það er það sem hefði hjálpað okkur sjálfum mikið þegar við vorum yngri. Með blogginu sé ég fyrir mér að geta jafnvel tekið þá vitundarvakningu enn þá lengra og vonandi orðið fyrirmyndin sem mig sjálfri vantaði þegar ég var unglingur inni í skápnum. Svo hef ég alltaf haft mikinn áhuga á ljósmyndun, matargerð (og áti), tísku, heimili og hönnun og mun líka skrifa um slíkt. Ég er nú bara rétt byrjuð en viðbrögðin hingað til hafa verið mjög góð. Ég skrifaði til dæmis færslu um það að stjúpmömmur væru alvöru mömmur og hef fengið gríðarlega góð viðbrögð við henni. Ég er virkilega spennt að sjá hvert þetta allt saman leiðir,“ segir hún. 

Nú hefur þú starfað sem blaðamaður á mbl.is. Ætlar þú að hætta því eða?

„Ég starfa enn sem blaðamaður á mbl.is og hafði ekki í hyggju að hætta því á næstunni. Mér finnst það ótrúlega fjölbreytt og skemmtilegt starf og ég er alveg viss um að þetta tvennt þarf ekki að vinna hvort gegn öðru. Í vinnunni minni er ég hlutlaus blaðamaður og mun halda því áfram. Á blogginu mun ég svo skrifa á persónulegum nótum ótengt því sem ég skrifa um í vinnunni. Það að skrifa gefur mér svo mikið hvort sem það er á persónulegum vettvangi eða faglegum.“

Hvernig fer lífsstílsblogg saman við lögfræðinámið?

„Ég held það fari ágætlega saman. Nú er ég reyndar í prófum svo það er frekar erfitt að einbeita sér 100% að hvoru tveggja. En ég var búin að skrifa nokkrar færslur sem ég get birt á meðan ég er í prófum, og svo kem ég bara inn af krafti í jólafríinu. Svo er aldrei að vita nema ég laumi nokkrum lögfræðilegum álitaefnum inn á bloggið.“

Ingileif Friðriksdóttir og María Rut Kristinsdóttir.
Ingileif Friðriksdóttir og María Rut Kristinsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Hvað finnst þér heillandi við lífssílsbloggið?

„Sú staðreynd að geta komið mikilvægum skilaboðum á framfæri án mikillar fyrirhafnar, sem ná til mjög margra. Ég hef haldið úti Snapchat-reikningi og Instagram-síðu lengi þar sem ég er oftar en ekki á persónulegum nótum hvað varðar ástina og fjölskylduna mína til dæmis. Það hefur gert það að verkum að ég hef fengið skilaboð frá fólki sem þakkar mér, og okkur Maríu, að vera svona opnar því það eitt hafi hjálpað því. Þetta er algjör drifkraftur fyrir mig til að vera enn opnari og halda áfram í þessari baráttu, því þrátt fyrir allt er enn fullt af fólki sem finnst okkar ást ekki eiga rétt á sér. Svo er bloggið auðvitað bara áhugamál sem er frábært að fá að rækta. Ég elska að taka myndir og mun deila nóg af þeim með lesendum, ásamt uppskriftum og öðru sem mér finnst sniðugt og skemmtilegt hverju sinni.“

Hvernig ætlar þú að gera hlutina öðruvísi en aðrir bloggarar á Mamie?

„Ég ætla bara að fylgja hjartanu mínu og skrifa um það sem ég hef áhuga á og því sem ég brenn fyrir. Ég held að það fallega við svona síður þar sem nokkrir bloggarar koma saman sé einmitt fjölbreytileikinn. Mér finnst hinar stelpurnar frábærar og ég hef lært helling af þeim, til dæmis þegar kemur að þrifum (takk Sólrún!), en ég mun eflaust koma með svolítið öðruvísi nálgun. En fyrst og fremst mun ég bara vera ég sjálf!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál