„Enginn kærasti í bili“

Anna Mjöll Ólafsdóttir lifir í núinu.
Anna Mjöll Ólafsdóttir lifir í núinu. Ljósmynd/Barbra Porter

Söngkonan Anna Mjöll Ólafsdóttir er á leið til landsins og ætlar að njóta jólanna með móður sinni, Svanhildi Jakobsdóttur, á Fossvogsheimilinu. 

Anna Mjöll kemur til landsins 21. desember og sagði í samtali við Smartland að hún væri himinlifandi yfir að geta verið á Íslandi um jólin en hér hefur hún ekki verið í sex ár. „Ég hef saknað þess mikið að fara niður Laugaveginn á Þorláksmessu. Ég verð þar þetta árið, sama hvernig viðrar og ég er búin að panta snjó,“ segir Anna Mjöll sem ætlar að dvelja á Íslandi í viku. 

„Ég þarf því miður að fara aftur til Los Angeles fyrir gamlárskvöld,“ segir hún en tímann á Íslandi mun hún nýta vel því hún verður með jólatónleika ásamt móður sinni, Svanhildi Jakobsdóttur, á Rósenberg 22. desember. Tónleikarnir bera nafnið Anna Mjöll og Svanhildur – Jólin Jólin. Anna Mjöll iðar af spenningi. 

„Ég get ekki beðið! Hljómsveitin er fyrsta flokks en í henni eru Ásgeir Ásgeirsson á gítar, Reynir Sigurðsson á vibrafón, Jóhann Ásmundsson á bassa og Erik Qvick a trommur. Ég og Svanhildur munum syngja öll góðu jólalögin sem við þekkjum öll og síðan munum við þurfa hjálp gesta við að syngja nokkur jólalög saman. Þetta verður voða kósí og mjög mikil jólastemmning,“ segir hún. 

Mæðgurnar Anna Mjöll Ólafsdóttir og Svanhildur Jakobsdóttir.
Mæðgurnar Anna Mjöll Ólafsdóttir og Svanhildur Jakobsdóttir. Ljósmynd/Tom Ranier

Þegar hún er spurð að því hvaða lög þær mæðgur ætla að taka telur hún upp nokkur góð eins og Hátíð í bæ, Óskin um gleðileg jól, Það heyrast jólabjöllur, Eitt lítið grenitré, Meiri snjó, Jólin jólin og mörg fleiri. 

„Faðir minn, Ólafur Gaukur heitinn samdi textana við öll þessi lög sem eru upptalin hér og svo munum við flytja fleiri lög,“ segir hún.

Á þessum árstíma er ekki úr vegi að líta um öxl. Þegar ég spyr Önnu Mjöll hvernig árið 2016 var segir hún að það hafi verið gott. „2016 var fínt ár en það er samt alltaf svolítið spennandi þegar nýtt ár tekur við. Það er aldrei að vita hvað gerist næst,“ segir hún. 

Hver var hápunktur ársins?

„Hápunktur ársins var sennilegar þegar útsendari taílensku stjórnarinnar kom til mín í Bangkok þar sem ég var með tónleika og bað mig að taka upp tvö lög til heiðurs taílenska kónginum sem féll frá örfáum dögum áður. Kóngurinn samdi lögin. Ég tók þau upp í stúdíói þar og fannst það mikill heiður. Mér fannst það einnig mjög merkilegt að þegar við Svanhildur fórum út úr konungshöllinni þurftum við að taka lestir og bát til að komast að henni af því allar götur voru lokaðar. Þar var margra kílómetra röð til þess að komast inn í höllina til þess að votta kónginum virðingu sína og allt í einu vorum við einhvern veginn komnar í röðina. Ég held að við höfum verið einu útlendingarnir á svæðinu og Taílendingarnir tóku okkur gjörsamlega að sér og voru ótrúlega góðir við okkur og sýndu mikið þakklæti yfir virðingunni sem við sýndum kónginum þeirra. Við komumst að lokum inn í höllina og settumst á gólfið og samkvæmt reglum þeirra hneigðum okkur að taílenskum sið í takt við alla viðstadda. Þetta var ótrúleg reynsla og sameiningin var algjör. Mjög falleg stund sem gleymist seint.“

Er eitthvað sem betur hefði mátt fara á árinu? „Það má oft eitthvað betur fara en ég er farin að reyna að venja mig á að líta á hina hliðina og vera bara þakklát fyrir það sem er.“

Ástarmál Önnu Mjallar hafa stundum ratað í fjölmiðla og því er eiginlega ekki hægt að spyrja hana ekki út í ástarmál sín. „Enginn kærasti í bili en ég er alltaf tilbúin með háfinn,“ segir hún og hlær. 

Hvert er áramótaheit þitt fyrir 2017? „Að vera betri en ég var 2016.“

Hvað gerir þig hamingjusama? „Það sem gerir mig hamingjusama í augnablikinu er að ég fæ að halda jólatónleika 22. desember á Rósenberg með Svanhildi. Ég hlakka mikið til. Það verður góð byrjun á gleðilegum jólum. Miðar fást á tix.is,“ segir hún alsæl og ánægð með lífið. 

Svanhildur Jakobsdóttir.
Svanhildur Jakobsdóttir. Ljósmynd/Tom Ranier
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál