Upplifði alvörukraftaverk á árinu

Eva Dögg Sigurgeirsdóttir hefur yfir mörgu að gleðjast er hún …
Eva Dögg Sigurgeirsdóttir hefur yfir mörgu að gleðjast er hún lítur yfir árið.

Eva Dögg Sigurgeirsdóttir vinnur nú hörðum höndum að því að enduropna heimasíðuna sína www.tiska.is en árið sem er að líða er búið að vera vægast sagt viðburðarríkt hjá þessari athafnakonu.

Afrek ársins?
Fyrir utan það að gifta mig, halda risa brúðkaupspartý, fá að ala upp yndislegu börnin mín, fá mér hund og þrauka 10 vikna hundaskóla þá held ég að afrek ársins hafi verið að ná að sjá Ísland vinna England og líka þegar þeir jöfnuðu Portúgal.
Nú svo fannst mér afrek að ná að sjá Parísarleikinn umtalaða, það var ákveðið afrek líka bara að vera þar.
Nú svo er eitt af stóru afrekunum það að ég fékk umboð fyrir uppáhaldssnyrtivörunum mínum en það tækifæri kom í raun upp í hendurnar á mér. Ég skellti mér utan að skoða málið betur og nú get ég ekki beðið eftir að deila þessum vörum með þjóðinni en við eigum fallegasta fólk í heimi og eigum þar af leiðandi skilið góðar húðvörur.

Eva segir eitt af afrekum ársins hafa verið að sjá …
Eva segir eitt af afrekum ársins hafa verið að sjá Ísland vinna England. mbl.is/Skapti Hallgrímsson


5 skemmtilegustu snapchat-ararnir á árinu að þínu mati?
Ég er ekki með marga á snapchat en ég elska góðan húmor og kaldhæðni er eitthvað sem ég stenst ekki.
Strákarnir í FM 95blö geta verið mjög skemmtilegir, nú svo er Bragi Valdimar fyndinn en svo er Stefano Gabbana (annar úr Dolce & Gabbana) með mjög fyndið en hálfsúrt snapp. Svo Dóra Lind ein af mínum uppáhalds, sem skrifaði með mér á www.tiska.is – Hún er með húmor að mínu skapi.


Fyndnasta atriði ársins?
Klárlega þegar að Elvis Presley leiddi mig upp að altarinu í litlu hvítu kapellunni í Las Vegas. Hann spurði mig rétt áður en við gengum inn hvort ég væri alveg viss um að ég vildi giftast þessum manni því að við tvö gætum enn alveg stungið af, ég svaraði að ég væri svona nokkuð viss og þá sagði hann, „then I will just return back to my heartbreak hotel.“
Svo þegar að við gengum hlæjandi inn kapelluna þá var á sama tíma ótrúlega stutt í grátinn. Mjög skemmtilegur og tilfinningaríkur dagur.

Skrítnasta upplifun þín 2016?

Ég held að ein rosalegasta upplifun ársins var þegar mér og litla syni mínum 4 ára var á einhvern óútskýranlegan hátt bjargað frá umferðarslysi. Það munaði hársbreidd að við hefðum verið keyrð niður í París í sumar af bíl á fleygiferð. Við fengum bæði skrámur og ég fæ enn martraðir um þetta atvik og spyr sjálfan reglulega hvað ef við hefðum verið sekúndu fyrr á ferðinni og svo framvegis. Ég trúi á kraftaverk og þarna gerðist kraftaverk, ég er sannfærð um það.

Eva Dögg vinnur nú að því að enduropna vef sinn …
Eva Dögg vinnur nú að því að enduropna vef sinn www.tiska.is. Skjáskot af Facebook


Uppáhaldsdrykkurinn þinn þetta árið?
Þessi er flókin en flestir segja vatn eða eitthvað álíka.Vatn er gott og ég elska það enda nauðsynlegt en ég held nú að ég hafi sjaldan skálað í jafnmiklu kampavíni og í ár enda margar ástæður til. Annars datt ég líka aðeins í hollustu hristinga og svoleiðis en þeir eru alls ekki í uppáhaldi.

Mest eldaði rétturinn í eldhúsinu?
Ég elska að elda mat og væri til í að hafa eldhúsið mitt tvöfalt stærra. Ég hef verið að elda mikið vegan- og grænmetisfæði þetta árið en einnig geggjaða fiskrétti. Svo er ég búin að mastera ofurgóðar súpur þetta árið og ég held að ég hafi eldað hvað mest tælenska kókossúpu með risarækjum. Ég hef smakkað hana mjög víða og ég held að mín eigi vinninginn, sú sem kemst næst minni er súpan á L’Avenue í París.

Uppáhalds agið þitt á árinu?
Ég fór á tvenna Elo-tónleika á árinu og ég verð að segja að ég elska öll þessi lög en ef ég ætti að nefna efstu þrjú þá eru það líklega; Livin’ Thing, Evil Woman og Mr. Blue sky.

Uppáhaldsnetsíðan þín?
Að sjálfsögðu tiska.is en ég er að enduropna hana um árámótin. Annars les ég nánast aldrei blogg nema frá þekktum einstaklingum úr þjóðfélaginu en ég smelli líklega tíu sinnum á mbl.is á dag og eflaust eitthvað svipað á visir.is Svo les ég líka mikið af erlendum vefsíðum.

Besta bók sem þú last á árinu?

Ég er búin að vera alveg ótrúlega ódugleg að lesa bækur þetta árið. Ég las nú samt Stóra Skjálfta eftir Auði Jónsdóttur snilling, og fattaði í kjölfarið hvaðan þessi litli lestraráhugi var tilkomin en ég var ekki alveg búin að viðurkenna það fyrir sjálfri mér að ég þyrfti lesgleraugu. Ég heiti sem sagt Eva og ég þarf lesgleraugu. Ætla að hella mér í jólalesturinn þessi jólin og bókin á óskalistanum er bókin eftir Ásdísi Höllu.

Fallegasta augnablik ársins?
Fallegustu augnablikin eru klárlega þegar að synir mínir koma til mín og segjast elska mig. Nú svo finnst mér alltaf eitthvað svo fallegt við að vakna við hliðina á þeim sem ég elska.


Mest krefjandi verkefni ársins?

Lífið er auðvitað stundum krefjandi en ég kýs að sjá það jákvæða sem lífið kennir manni við hvert verkefni. Er sátt við þetta ár eins og öll árin og þakklát.

Þakklæti ársins?
Þakklæti ársins snýr að heilbrigði mínu og fjölskyldunnar minnar. Ég trúi á mátt þakklætisins og þakka daglega fyrir gjafir lífsins, þetta hljómar kannski eitthvað væmið en mér er svo sama hvað öðrum finnst. Ég er ótrúlega þakklát fyrir allt og alla reynslu hvernig svo sem hún var á meðan ég gekk í gegnum hana. Í dag er ég til dæmis ótrúlega þakklát fyrir það að sjá drenginn minn elsta ná meiri og meiri bata við sínum sjúkdómi. Ég hreinlega elska að kynnast honum upp á nýtt.  Það eru forréttindi að fá að vera til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál