Fór mjög langt út fyrir þægindarammann

Eva er orðin landsmönnum kunn fyrir frábæra takta í eldhúsinu.
Eva er orðin landsmönnum kunn fyrir frábæra takta í eldhúsinu.

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir gaf ekki bara út gullfallega kökubók á árinu heldur er hún einnig á skjánum um þessar mundir í stórskemmtilegum sjónvarpsþætti ásamt Gumma Ben, Ísskápastríð. Þessi frábæra kona afrekaði þó margt fleira í einkalífinu og öðru. Hún leit yfir farinn veg og gerði upp árið.

Hápunktur ársins? 
Brúðkaupsdagurinn okkar Hadda 23. júlí. Dagurinn var algjörlega fullkominn í alla staði og án ef besti dagurinn í lífi okkar beggja fyrir utan fæðingardag dóttur okkar.

Afrek ársins?
Að klára sumarpróf í háskólanum, flytja upp á Akranes frá Reykjavík, klára myndatökur fyrir kökubókina mína og gifta mig á einum mánuði. Mjög fjörugt sumar.

Kökugleði með Evu kom nýverið út.
Kökugleði með Evu kom nýverið út.

5 skemmtilegustu snapchat-ararnir á árinu að þínu mati?
Ég verð að viðurkenna að ég fylgist ekki nægilega vel með á Snapchat, en Guðrún Veiga er í sérstöku uppáhaldi og nýlega bætti ég svo uppistandaranum Hjálmari Erni við í vinahópinn en ég elska karakterinn hans sem kallast hvítvínskonan.

Fyndnasta atriði ársins?
Öll skemmtiatriðin í brúðkaupinu okkar – atriðin voru hvert öðru betra og ég hef aldrei hlegið jafnmikið.

Skrítnasta upplifun þín 2016?  
Skrítnasta upplifunin í þeim skilningi að ég fór mjög langt út fyrir þægindarammann minn var þegar ég var gestafyrirlesari í stafrænni markaðssetningu í HR – þar fékk ég að fjalla um bloggið mitt og hvernig það varð að fyrirtæki. Skrítin tilfinning en jafnframt mjög góð.

Uppáhaldsdrykkurinn þinn þetta árið?
Vatn, kaffi og rauðvín. Hvert í sínu lagi þó.

Besti dagur lífsins var brúðkaupsdagurinn að sögn Evu.
Besti dagur lífsins var brúðkaupsdagurinn að sögn Evu. Freyja Gylfa

Mest eldaði rétturinn í eldhúsinu?
Föstudagspizzan er heilög á okkar heimili en við reynum á hverjum föstudegi að baka saman pizzu og stelpunni minni finnst það ekkert lítið skemmtilegt.
Þess vegna er öruggt að föstudagspizzan var mest eldaði rétturinn í okkar eldhúsi þetta árið.

Uppáhaldslagið þitt á árinu?
Má maður segja plata? Lemonade-platan hennar Beyonce var uppáhaldið mitt á árinu! Öll lögin og þá sérstaklega lagið Formation.

Uppáhaldsnetsíðan þín?
Cupcakesandchasmere.com – Emily stjörnubloggari heldur þar úti ótrúlega fallegri heimasíðu.

Besta bók sem þú last á árinu?
Ég hef allt of lítið lesið á árinu fyrir utan matreiðslu- og barnbækur. Við lesum á hverju kvöldi fyrir Ingibjörgu Rósu okkar og besta bókin er sennilega Vögguvísurnar okkar – þar eru allir textarnir og undirspil. Móðirin fær þess vegna að njóta sín til fulls! Markmið mitt á næsta ári er að lesa meira og oftar. Var að byrja á nýju bókinni hennar Yrsu og hlakka til að eyða jóladögunum í lestur og huggulegheit.

Fallegasta augnablik ársins?
Þegar maðurinn minn sagði já í kirkjunni á brúðkaupsdaginn okkar.

Mest krefjandi verkefni ársins? Að tvinna saman vinnu, skóla og fjölskyldu. Ég er í fullu námi samhliða vinnu og oft á tíðum næ ég ekki verja eins miklum tíma með dóttur minni og manninum mínum og mig myndi langa.

Þakklæti ársins?
Fjölskyldan mín. Án hennar gæti ég ekki neitt. Þau eru það sem skiptir mig mestu máli. Ég kemst meira og meira að því að það er ekki sjálfsagt að eiga svona margt gott fólk í kringum sig og það er afar mikilvægt að hlúa vel að þeim sem skipta mann máli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál