„Það er lítill kvíðapúki innra með mér“

Hanna Ólafsdóttir, Illugi Valsson og Valur Grettisson.
Hanna Ólafsdóttir, Illugi Valsson og Valur Grettisson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Valur Grettisson blaðamaður á Fréttatímanum skrifaði bókina Gott fólk sem kom út í fyrra. Nú er búið að setja bókina á svið og verður verkið, Gott fólk, frumsýnt í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu á föstudaginn. Leikritið fjallar um Sölva, kaldhæðinn og sjálfumglaðan menningarblaðamann sem fær óvænt bréf frá Söru, fyrrverandi kærustu. Bréfið setur allt líf hans úr skorðum en í bréfinu sakar Sara hann um að hafa beitt sig kynferðislegu ofbeldi. Í stað þess að leita til dómstólanna vill Sara, ásamt gamla vinahópi Sölva, nota svokallað ábyrgðarferli til að ná fram réttlæti í málinu. Sölvi þarf að játa á sig glæpinn og leita sér hjálpar. En játningin hleypir af stað atburðarás þar sem engum sem hlut eiga að máli er hlíft. Smartland heyrði í Val og spurði hann spjörunum úr. 

Hvernig tilfinning er það að bók eftir þig er að komast á svið?

„Þær eru blendnar. Fyrst er maður spenntur, svo finnur maður fyrir einhverskonar áhrifaleysi í ljósi þess að maður er ekki einráður um útkomuna eins og þegar maður skrifar skáldsögu. Fyrir stjórnsaman mann eins og mig sjálfan er það dálítið erfitt. Ég er hinsvegar svo heppinn að færustu listamenn landsins koma að uppsetningu verksins þannig ég þarf svo sem ekki að hafa neinar áhyggjur,“ segir hann. 

Hvernig breytist bókin þegar hún er komin á sviðið?

„Leikgerðin er að mörgu leyti mjög ólík bókinni. Í raun má tala um sjálfstætt verk hvað leikritið varðar. Auðvitað er byggt í grunninn á skáldsögunni Gott fólk og þráður sögunnar heldur sér. Aðalsöguhetjan, Sölvi, er þó allt öðruvísi í bókinni en í leikverkinu. Hann fær meira rými fyrir einræðurnar sínar í skáldsögunni, og lesandinn festist í hans eigin hugarheimi. Í leikgerðinni afhjúpast hinsvegar hin grimmilega saga með skýrari hætti. Togstreita Sölva og Söru og ofbeldið verður hryllilegra á sviðinu, auk þess sem Sölvi getur ekki flúið inn í orðaskrúðinn eins og í skáldsögunni. Hann getur ekki falið sig fyrir áhorfendunum.“

Hvernig finnst þér sagan eldast?

„Sagan er varla orðin tveggja ára gömul. Hún er því enn dálítill óviti og erfitt að meta hverskonar verk hún á eftir að verða í framtíðinni. Grunnhugmynd sögunnar er þó nokkuð sígild og maður vonar að maður fái ekki aulahroll við lesturinn eftir 30 ár.“

Ertu búin að lesa hana aftur eftir að hún kom út? „Stutta svarið er já.“

Hvernig var æfingaferlinu háttað í leikhúsinu, varstu eins og grár köttur þar eða?

„Ég reyndi að gefa leikhópnum og leikstjóranum, Unu Þorleifsdóttur, eins mögulega mikið svigrúm og ég gat. Þannig það er kannski ekki hægt að segja að ég hafi verið eins og grár köttur. Leikritið er þar af leiðandi ekki minna leikhópsins en okkar höfundanna.“

Hvernig viðbrögðum býstu við?

„Erfið spurning. Það er lítill kvíðapúki innra með mér sem býst við einhverju hrikalegu. En ef innsæið bregst mér ekki, þá sýnist mér leikritið vera býsna sterkt. Það inniheldur afar áleitnar spurningar, frábæran leik og styrka leikstjórn Unu. Og þó svo að hér sé ekki um tveggja tíma hláturskast með hléi að ræða, þá held ég að verkið muni sitja í áhorfendum og vekja upp spurningar um ástina, ofbeldið, réttlætið og eitthvað þess á milli.“

Stefán Hallur Stefánsson fer með hlutverk Sölva. Vigdís Hrefna Pálsdóttir leikur Söru. Með önnur hlutverk fara Lára Jóhanna Jónsdóttir, Snorri Engilbertsson, Baltasar Breki Samper og Birgitta Birgisdóttir. Dramatúrg og aðstoðarleikstjóri er Gréta Kristín Ómarsdóttir. Leikmynd og búningar eru eftir Evu Signýju Berger. Tónlistin er eftir Gísla Galdur Þorgeirsson og myndbandshönnun er í höndum Rolands Hamiltons. Jóhann Friðrik Ágústsson og Magnús Arnar Sigurðarson hönnuðu lýsingu.

Valur Grettisson með fyrstu eintökin af bókinni Gott fólk. Myndin …
Valur Grettisson með fyrstu eintökin af bókinni Gott fólk. Myndin var tekin í fyrra.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál