Íslendingar með heimsmet í íbúðaskiptum

Snæfríður Ingadóttir ásamt Matthíasi Kristjánssyni eiginmanni sínum og dætrum sínum …
Snæfríður Ingadóttir ásamt Matthíasi Kristjánssyni eiginmanni sínum og dætrum sínum þremur.

Íslendingar eru nýjungagjarnir með eindæmum og hafa tekið íbúðaskiptum opnum örmum. Hvergi í heiminum eru fleiri heimili skráð í íbúðaskipti en á Íslandi, miðað við íbúafjölda, samkvæmt upplýsingum frá Homeexchange.com, stærstu heimilsskiptasamtökum heims. 

„Núna er mjög auðvelt fyrir Íslendinga að ná góðum íbúðaskiptum úti í heimi, því það er mikill áhugi á Íslandi og það er því um að gera fyrir Íslendinga sem eru í ferðahugleiðingum að nýta sér þennan áhuga,“ segir fjölmiðlakonan Snæfríður Ingadóttir sem hefur gert íbúðaskipti hluta af lífsstíl sínum og ferðast reglulega bæði innanlands sem utan með þessu móti.

Snæfríður er nýkomin heim úr 5 vikna ferðalagi um Tenerife þar sem hún og fjölskylda hennar skiptu á húsnæði við tvær spænskar fjölskyldur.

„Þetta var dásamleg ferð þar sem við sáum Tenerife í allt öðru ljósi en flestir Íslendingar sem heimsækja eyjuna og dvelja eingöngu á túristasvæðinu á suðurhluta eyjunnar. Við heilluðumst sérstaklega af landslaginu á norðurhluta eyjunnar sem býður upp á margar spennandi gönguleiðir.“

Á meðan fjölskyldan var í burtu var heimili þeirra á Akureyri fullt af erlendum gestum sem sáu um að vökva blómin og moka snjó frá dyrum.

„Önnur fjölskyldan sem við skiptum við á Tenerife kom til Íslands fyrir tveimur árum og hitt fólkið kemur núna um páskana. Okkur fannst ómögulegt að skilja húsið okkar eftir tómt í 5 vikur þannig að hér dvaldi fólk frá Kanada, Spáni og Danmörku,“ segir Snæfríður og bætir við að nú eigi hún inni gistinætur úti í heimi fyrir næstu ferðalög.  

„Vissulega lækkar þetta ferðakostnaðinn og það er öðruvísi að dvelja á alvöruheimilum heldur en hótelum en þó myndi ég segja að það sem stendur upp úr eru samskiptin við heimamenn. Við hittum t.d. fólkið sem við kynntumst í gegnum íbúðaskiptin á Tenerife nokkrum sinnum. Þau buðu okkur í mat og í gönguferðir sem gerði ferðalagið svo miklu skemmtilegra.“

Snæfríður hefur verið dugleg að kynna kosti íbúðaskipta fyrir almenningi meðal annars í gegnum námskeið hjá Endurmenntun og er næsta námskeið 31. janúar.

Þar segir Snæfríður meðal annars frá reynslu sinni, ber saman kosti og galla mismunandi heimilisskiptasíðna og fer yfir það sem ber að hafa í huga áður en gengið er frá skiptum á húseignum og farartækjum.

„Forsvarsmenn Homeexchange.com eru svo á leið til landsins í febrúar og verða með kynningu  á sinni starfssemi 12. febrúar í Salnum í Kópavogi en þar á bæ hafa menn fundið fyrir gríðarlegum áhuga ferðamanna á landinu og íbúðaskiptum við Íslendinga. Þannig að ég myndi segja að líkurnar á góðum skiptum í sumarfríinu fyrir Íslendinga séu mjög góðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál