Með yrjótt bindi og gerviklút í vasanum

Vilhelm Anton Jónsson.
Vilhelm Anton Jónsson. mbl.is/Kritinn Magnússon

Flotti plötuspilarinn sem Villi Naglbítur fékk í fermingargjöf hefur nýst honum vel og er enn í fullri notkun.

Vilhelm Antoni Jónssyni reiknast til að hann hafi fermst árið 1992 en minningarnar frá deginum eru ekki allar nógu skýrar. Er Vilhelm til dæmis ekki alveg viss um á hvaða hátíðisdegi kirkjunnar hann var fermdur. Vilhelm, betur þekktur sem Villi Naglbítur, bjó á Akureyri frá 11 ára aldri og var á nokkuð góðum stað í lífinu þegar fermingardagurinn rann up. „Ég var í frábærum bekk, átti yndislega vini, og það var mikið stuð á Akureyri á þessum tíma,“ segir hann. „Ég var orðinn nokkuð hávaxinn, með stóra fætur, stórt nef og of langa handleggi, og man að ég klæddist alveg skelfilegum jakka þennan dag.“

Vilhelm Anton Jónsson á fermingardaginn.
Vilhelm Anton Jónsson á fermingardaginn.

Með skoðanir á hlutunum

Vilhelm leikur í dag í fjölskylduleikritinu Vísindasýning Villa í Borgarleikhúsinu og þykir hvers manns hugljúfi. En getur verið að hann hafi verið erfiður unglingur? „Ég held ég hafi ekki verið með mikla gelgjustæla, þó að ég hafi átt það til að vera gagnrýninn og fylginn mér, og með ákveðnar skoðanir á fleiri hlutum en ég hefði átt að hafa skoðun á.“

Hann tók ferminguna hæfilega alvarlega. „Ég hugsa að ég hafi haft meiri áhuga á fermingargjöfunum en að staðfesta trú á eilíft himnaríki. Ég varð ekki var við neinar stórkostlegar breytingar á mér eða minni tilvist eftir athöfnina og tók þessu eins og hverju öðru skylduverki sem ég þyrfti einfaldlega að láta mig hafa.“

Athöfnin fór fram í Akureyrarkirkju og fermdist Vilhelm með stórum skara skóla- og bekkjarsystkina. Hann man að fyrir athöfnina fengu börnin að velja sér einkunnarorð úr Biblíunni og þurftu að lesa upp fyrir söfnuðinn. „Prestarnir höfðu greinilega ekki meiri trú á okkur en svo að við fengum að lesa einkunnarorðin upp af miðum,“ gantast Villi.

Enginn féll í yfirlið

Hann segist hafa verið hæfilega stressaður fyrir athöfnina, eins og gengur og gerist, en á þessum tíma hafi mikill kvittur verið á kreiki um að stundum liði yfir fermingarbörn út af öllu álaginu, hvað þá þegar búið var að kappklæða þau í fermingarföt og kyrtla og koma fyrir í heitum kirkjum. „En Akureyrarkirkja er greinilega vel loftræst hús því það leið ekki yfir nokkurn mann.“

Fermingarveislan var nokkuð stór en eins og oft vill gerast með börn úti á landi sáu ekki allir ættingjar sér fært að ferðast alla leið til Akureyrar og minnist Vilhelm þess að hafa fengið fjölmörg heillaóskaskeyti frá þeim sem ekki komust. Heyra má að hann hefði frekar viljað vera að leika sér með vinunum en að borða kökur og kræsingar með fjarskyldum frænkum og frændum. „Ég held reyndar að það séu afskaplega fáir sem hafa gaman af þessum veislum, og hugsa að það hafi aðallega verið amma og afi sem nutu sín í minni veislu. Þarna er fólk skikkað til að mæta, og spjalla við nærskylda og fjarskylda ættingja sem það þekkir lítið sem ekkert, með agnarsmáan smurbrauðsdisk á hnjánum og reynandi að sulla ekki kaffinu yfir sig.“

Hver bar ábyrgð á jakkanum?

Oft er talað um að þeir sem fermdust á 9. áratugnum eigi vandræðalegustu fermingarmyndirnar, enda tímabil stórra axlapúða og skrautlegra hárgreiðslna. Villi vill þó meina að árið 1992 hafi alls ekki verið ánægjulegt tímabil í íslenskri tískusögu. „Ég fékk að klæðast þessum viðbjóðslega græna jakka með einhvers konar yrjótt bindi um hálsinn og gerviklút í vasanum. Ég held ég hafi aldrei farið aftur í þessi föt eftir fermingardaginn. Ég man að ég fékk svarta rúskinnsskó sem nýttust samt ágætlega, og var ákveðinn klassi yfir þeim – en skórnir sjást auðvitað ekki á fermingarmyndunum.“

Man Vilhelm ekki með vissu hvort hann eða foreldrarnir völdu græna jakkann. „En hann var svo ósmekklegur að ég hlýt að hafa fengið að ráða þessu. Foreldrar mínir hafa væntanlega lært af mistökunum því þegar Kári litli bróðir fermdist fékk hann bara lánaðan rauðan jakka af frænda okkar.“

Boðið var upp á mjög hefðbundnar veitingar. „Þarna var kransakaka og smurbrauðstertur, og flatbrauð með hangikjöti, sem mér finnst sigildur veislumatur og fátt sem getur toppað þessa rétti.“

Hitabrúsi og plötuspilari

Vilhelm fékk meðal annars forláta bakpoka að gjöf og nýttist hann honum í mörg ár. „Ég fékk líka hitabrúsa og man að ég sagði ömmu, við litla hrifningu hennar, að brúsinn væri kokkteilhristari.“ Mest þótti Vilhelm samt varið í forláta Rega Planar 2 plötuspilara, magnara og hátalara sem hann fékk frá foreldrum sínum.

„Það þótti pínu skrítið að ég skyldi fá plötuspilara, enda var þetta á þeim tíma þegar geisladiskurinn var að ryðja vínylplötunni úr rúmi, og efst á óskalista fermingarbarnanna að fá einhverjar plastgræjur með „Dynamic 3D Boost og Preset Equalizer“.“

Vilhelm átti þá þegar ágætis vísi að plötusafni, og hafði erft áhugamálið frá föður sínum. „Þennan plötuspilara á ég enn og held ég hafi því sem næst aldrei nokkurn tíma sett hann í geymslu.“

mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál