Kjólakaupin voru heilmikið verkefni

Elín Reynisdóttir.
Elín Reynisdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Elín Reynisdóttir förðunarfræðingur á góðar minningar úr fermingunni en var ekki ánægð með fermingarmyndina og skilur ekki enn hvað fékk hana til að velja sér pastelbleikan jogging-kjól með blúndukraga og púffermum.

„Ég fermdist í Neskirkju fyrir 34 árum, 27. mars 1983, hjá séra Frank M. Halldórssyni,“ segir Elín Reynisdóttir förðunarfræðingur.

„Ég man satt að segja lítið eftir fermingarfræðslunni, hún fléttaðist saman við stundatöfluna í skólanum, og ég mætti bara samviskusamlega til prestsins. Mér fannst þó gaman að fermast. Kannski mætti segja að ég hafi fylgt straumnum, ég lét að minnsta kosti ekki ferma mig af trúarlegum ástæðum. Í mínum augum var fermingin miklu frekar mikilvægt skref í átt að fullorðinsaldri, og ég gat ekki beðið eftir að komast þangað, hætta að vera unglingur. Þetta var stór dagur og eftirminnilegur og mér fannst ég strax fullorðnari.“

Vel heppnað

Var haldin fjölmenn veisla?

„Veislan var haldin heima, fyrir þá allra nánustu, og gestir voru um það bil 40. Foreldrar mínir fengu kokk til að sjá um veislumatinn; boðið var upp á kalt hlaðborð með öllu tilheyrandi og kaffi og kransaköku á eftir. Fermingin var klukkan tvö og veislan haldin í lok dags; það var sitjandi borðhald, allt voðalega fínt, og þetta heppnaðist rosalega vel.“

Varstu lengi að velja fermingarkjólinn?

„Ég man ekki hvar við mamma keyptum þennan pastelbleika jogging-kjól með púffermum, líklega var það annaðhvort í 17 eða Coco, og ég skil hreinlega ekki þetta litaval. Þetta hlýtur að hafa verið tískuliturinn vorið 1983; ég hef aldrei verið hrifin af pastellitum og myndi aldrei aftur klæðast þessum óspennandi lit.

Kjólakaupin voru annars heilmikið verkefni. Okkur fannst kjóllinn ekki alveg vera að virka og því ákvað mamma að lífga upp á fermingardressið. Hún saumaði á hann fínlegan blúndukraga og líka blúndupils til að taka kjólinn út. Svo bjó hún til belti úr hvítu jogging-efni og þá vorum við mæðgur loksins ánægðar. Ég veit ekki hvernig mér datt í hug að velja mér þennan fermingarkjól, en við hann klæddist ég hvítum blúndusokkum og hvítum mokkasínum.“

Módel á Sögu

Síða hárið – varstu búin að safna hári í mörg ár, markvisst fyrir ferminguna?

„Á þessum árum var ég alltaf með sítt hár niður í mitti. Ég man bara einu sinni eftir mér með stutt hár. Ég var þá átta ára og langaði að breyta til, en var svo alls ekki ánægð með útkomuna og lét hárið vaxa strax aftur. Ég hef verið með sítt hár síðan, reyndar ekki niður í mitti, en hef alltaf haft það sítt.

Fermingargreiðslan var útpæld og ég var mjög ánægð með hana. Ég var hármódel þetta sama vor á Hárgreiðslustofunni á Hótel Sögu, þegar kynntar voru tískulínurnar í fermingargreiðslum, og fékk í staðinn fría hárgreiðslu. Ég var ekki með neinn andlitsfarða, ekki einu sinni með varasalva; áhugi minn á förðun kviknaði seinna.“

Fermingarmyndin, hitti hún í mark?

„Fermingarmyndirnar voru teknar á ljósmyndastofu á Hverfisgötunni, ef ég man rétt, og ég hef aldrei verið ánægð með þær. Þær hafa alltaf verið geymdar í myndaalbúmi uppi í hillu.“

Gylltur strútur

Fermingargjafirnar; fékkstu margt fallegt og nytsamlegt?

„Ég fékk ferð til Spánar í fermingargjöf frá foreldrum mínum og það var toppurinn. Við fórum svo saman um sumarið til Mallorca; ég, mamma og stjúppabbi minn og besta vinkona mín fékk líka að fara með. Við vorum á sólarströnd í tvær vikur og það var rosalega gaman. Ég hafði þá farið nokkrum sinnum áður til útlanda, en þessi Spánarferð stendur upp úr.

Annars fékk ég aðallega peninga og skartgripi í fermingargjöf; nokkur hálsmen, krossa, og sömuleiðis fallegan gullhring með rauðum steini. Ég fékk líka óvenjulega styttu, gylltan strút, sem ég hélt mikið upp á og hafði uppi í hillu hjá mér í mörg ár.“

Elín Reynisdóttir förðunarfræðingur.
Elín Reynisdóttir förðunarfræðingur. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál