Ekki hleypa Gumma frænda í græjurnar

mbl.is/ThinkstockPhotos

Atli Már Gylfason, eða DJ Atli Már, hefur mikla reynslu af því að troða upp í brúðkaupsveislum enda hefur hann þeytt skífur í ófáum slíkum. Helsta leyndarmálið segir hann vera að lesa salinn, en sé það gert reynist auðvelt að halda uppi stuðinu.

„Það eru ekki öll brúðkaup eins og því þarf stundum að líta á aldur þeirra sem sækja veisluna áður en lögin eru valin, að minnsta kosti til að byrja með. Það er þekkt að þeir sem elstir eru fara fyrst heim og þá er hægt að skella á taktfastari tónum,“ segir Atli Már og bætir við að vinsælustu lögin séu jafnan þau sem heyrast reglulega í útvarpinu og séu vinsælust hverju sinni.

„En þar með er ekki öll sagan sögð því brúðkaupum fylgja líka alltaf klassísk og sígild lög með Jackson 5, Stevie Wonder, Whitney Houston, Earth Wind & Fire, Stuðmönnum, Hemma Gunn og Ragga Bjarna, svo einhverjir séu nefndir. Lögin eru í hundraðavís en það skiptir máli hvaða lag þú velur og hvenær þú spilar það. Hvað aðrar skemmtanir varðar þá myndi ég segja að það sé ágætis munur á til dæmis brúðkaupspartíi og árshátíð hjá fyrirtæki – bæði hvað varðar stemningu og almennt lagaval. Vinsælasta lagið í dag er án efa með Justin Timberlake og heitir Can‘t Stop The Feeling.“

Dj Atli Már hefur mikla reynslu að því að troða …
Dj Atli Már hefur mikla reynslu að því að troða upp í brúðkaupum. Mynd úr einkasafni

Atli Már er sjálfur mikill brúðkaupsmaður og segist hreinlega elska brúðkaup. Það kemur því ekki á óvart að hann hafi sérhæft sig í að spila í brúðkaupsveislum.

„Ég gerði ekki annað á sínum tíma en að spila á hverjum skemmtistaðnum á fætur öðrum en sú vinna var mjög slítandi og eyðilagði allar helgar fyrir mér. Ég á sjálfur þrjú börn sem vilja eyða sem mestum tíma með pabba sínum þannig að ég tók þá meðvituðu ákvörðun að hætta á skemmtistöðunum og einbeita mér alfarið að brúðkaupum og viðburðum fyrir fyrirtæki og hópa. Þær skemmtanir eru ekki fram á morgun og oftar en ekki er fólk almennt í betra skapi í brúðkaupum en á skemmtistöðum í miðbænum. Það er bara tilfinningin mín,“ bætir Atli Már við, sem lumar á ýmsum eftirminnilegum sögum.

„Það sem er svo skemmtilegt við brúðkaupin er að fæstir spá í tónlistina. Svo lengi sem hún er góð og fólk kannast við lögin þá er það ekkert að skipta sér af lagavalinu. Ég lenti þó einu sinni í því að einn ættinginn hafði farið aðeins of oft á ABBA-bíómyndina og krafðist þess, nánast allt brúðkaupið, að ég myndi spila hljómdiskinn úr kvikmyndinni. Ekki eitt lag heldur allan diskinn. Ég spilaði Gimme! Gimme! Gimme! og allir voru sáttir,“ segir Atli Már og kímir, en er betra að ráða plötusnúð í stað þess að láta Gumma frænda einfaldlega búa til „playlista“?

„Já. Alltaf. Gummi frændi á bara að sitja til borðs með Siggu frænku og afa Nonna. Það er mjög erfitt að búa til „playlista“ sem á að ganga heila kvöldstund því fæstir halda uppi stemningu allan tímann. Áður en þú veist af þá eru Sigga frænka, afi Nonni og Gummi frændi öll komin með puttana í „playlistann“ og við tekur stórslys sem engum finnst gaman að dansa við,“ segir Atli Már, sem lumar á ýmsum fróðleik sem getur nýst tilvonandi brúðhjónum.

„Brúðkaup eru tími brúðhjónanna. Tími til að njóta með vinum og vandamönnum og því er mikilvægt að týna sér ekki í stressi. Gott er að skipuleggja veisluna með góðum fyrirvara, en tilvonandi brúðhjón hafa verið að hafa samband við mig með allt að tveggja ára fyrirvara. Hægt er að lausbóka dagsetningar hjá mér og þannig hægt að tryggja sér draumadaginn. Ég mæli hiklaust með því. Þá mæli ég líka með því að tilvonandi brúðhjón kynni sér þá þjónustuaðila sem þau ætla að versla við, hvort sem það er í mat eða tónlist. Sjálfur hef ég haft þann háttinn á að þau brúðhjón sem ég hef spilað fyrir skrifa umsögn um mig og frammistöðu mína en hægt er að sjá hana undir LIKE-síðunni „DJ Atli Már“ á Facebook.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál