Fjárfestir tilfinningalega í hverju brúðkaupi

Ljósmynd/Lárus Sigurðsson

„Pink Iceland var á sínum tíma stofnað til að þjónusta hinsegin ferðalanga sem koma til landsins og brúðkaupin áttu að vera aukabúgrein. Það varð þó fljótlega ljóst að brúðkaupshlutinn yrði veigameiri en stofnendurnir gerðu ráð fyrir í byrjun. Kannski ekki síst vegna þess að það er ótrúlega tímafrekt að skipuleggja brúðkaup, eins og það er nú gefandi, segir Sigríður Hrönn Pálsdóttir, sem starfar hjá ferðaþjónustufyrirtækinu. 

Sigríður Hrönn Pálsdóttir hjá Pink Iceland.
Sigríður Hrönn Pálsdóttir hjá Pink Iceland. Ljósmynd/Andreas Holm
Þörfin á slíkri þjónustu fyrir hinsegin pör var vissulega til staðar. Ég er sjálf gagnkynhneigð, en á samkynhneigðan bróður og marga vini, og trúði að staða hinsegin fólks væri betri erlendis en hún raunverulega er. Innan míns hóps er það eðlilegasti hlutur í heimi að vera hinsegin, en það er ekki þannig allstaðar. Við sem erum gagnkynhneigð verðum að muna að við erum í meirihluta og að heimurinn er hannaður fyrir okkur. Alls staðar er gert ráð fyrir því að fólk sé gagnkynhneigt, sem þýðir að fólk eins og bróðir minn er stöðugt að koma út úr skápnum. Það að bjóða tilvonandi hjónum þjónustu þar sem þau vita að þeim verði tekið opnum örmum er því þörf þjónusta.“
Ljósmynd/Stýrmir Kári og Heiðdís photography

Sigríður segir að helsta ástæða þess að brúðhjón kjósi að gifta sig hér á landi sé tvímælalaust náttúrufegurðin, en Ísland hefur verið mikið í tísku meðal erlendra ferðamanna undanfarin ár.

„Fólk dreymir um að gifta sig með foss, fjöll eða jökul í bakgrunni. Sum pörin okkar hafa þó kannski byrjað á því að skipuleggja brúðkaup heima fyrir, áttað sig síðan á kostnaði og tilstandi, og ákveða að hætta við allt og koma bara tvö til Íslands og gifta sig í ró og næði. Meirihluti paranna er að koma hingað í fyrsta skipti, mjög margir koma þó aftur því þeir hreinlega verða ástfangnir af landinu. Við leggjum mikla áherslu á persónuleg samskipti við gestina okkar og oftar en ekki fæðist vináttusamband,“ segir Sigríður og bætir við að brúðkaup erlendra gesta séu gjarnan ansi frábrugðin þeim sem tíðkast meðal íslenskra brúðhjóna.

„Já það má segja það. Erlendu hjónin vilja gifta sig úti og í náttúrunni en við Íslendingar erum ekki mikið fyrir að standa úti í kuldanum. Við skipuleggjum brúðkaup allan ársins hring og fer meirihluti af athöfnunum fram utandyra, sama hvernig viðrar. Einstaka sinnum höfum við þurft að grípa í plan B og færa okkur inn vegna veðurs,“ segir Sigríður og bætir við að þeim fylgi svo gott karma að oftar en ekki stytti upp þegar þau mæta á svæðið.

Ljósmynd/Styrmir Kári & Heiðdís Photography

Sigríður segist alltaf hafa haft áhuga á verkefnastjórnun, þó að áður fyrr hafi hún ekki búist við því að starfa við að skipuleggja brúðkaup einn daginn.

„Ég hreinlega elska að vera í kringum skemmtilegt fólk. Svo ég tali nú ekki um að halda mörgum boltum á lofti í einu, eins og þarf í starfi sem þessu. Ég get samt ekki sagt að ég hafi búist við því að ég yrði brúðkaupsskipuleggjandi þegar ég horfði á Wedding Planner hérna í denn. Ég bjó lengi erlendis þar sem ég stundaði nám. Ég datt síðan inn í kvikmyndabransann um leið og ég flutti aftur heim, og starfaði lengst af sem auglýsingaframleiðandi hjá Sagafilm. Það var virkilega skemmtilegt starf og ég lærði heilmargt. Eftir að ég átti barn ákvað ég þó að breyta til og var svo heppin að fá tækifæri til þess að vinna hjá Pink Iceland. Þetta er rosalega skemmtileg og þakklát vinna. Við erum oft í sambandi við brúðhjónin í eitt til tvö ár áður en þau koma hingað til lands og margir bresta í grát þegar þau loksins hitta okkur. Ég hef eignast vini og kunningja út um allan heim, og það er ómetanlegt,“ segir Sigríður, sem auðvitað býr yfir hafsjó af fróðleik hvað varðar brúðkaup.

Ljósmynd/Lárus Sigurðsson

En hvað þarf að hafa í huga þegar skipuleggja á vel heppnaða athöfn og veislu?

„Einbeittu þér að þeim hlutum sem skipta virkilega máli. Ef þér og tilvonandi maka þínum líður vel á brúðkaupsdaginn mun það smita út frá sér og allir gestirnir munu upplifa daginn á fallegan hátt með ykkur. Mundu að þú ert að gifta þig fyrir þig, ekki aðra. Gerðu hlutina frá þínu hjarta og hafðu brúðkaupið eins og þú vilt. Gerðu kostnaðaráætlun svo þú sjáir hverju þú hefur efni á, og hverju ekki. Þannig kemur ekkert á óvart og þú sleppur við óþarfa ónot og stress. Að bjóða upp á góðan mat og nóg að drekka klikkar ekki. Ef þú vilt halda gott partí skaltu endilega hugleiða að ráða plötusnúð eða hljómsveit. Ef þú ert með stórt brúðkaup skaltu hafa í huga að vera með veislustjóra þannig að það sé skipulag á veislunni. Síðan er bara að njóta og hafa gaman af,“ segir Sigríður.

Ljósmynd/Larus Sigurdarson

En hver eru helstu mistökin sem fólk gerir í undirbúningnum?

„Að stressa sig of mikið og flækja hlutina um of. Virkjaðu líka fólkið í kringum þig, flestir eru til í að hjálpa. Talandi um að flækja hlutina um of þá grét ég til dæmis oft og mörgum sinnum yfir því hvernig í ósköpum ég ætti að kæla allan bjórinn og vínið fyrir veisluna mína, þar sem ég var með brúðkaupið mitt á stað þar sem ekki voru kælar. Þegar allt kom til alls fengu allir kalt og gott að drekka og þetta voru algjörlega óþarfa áhyggjur.“

Aðspurð að því hvað sé það vinsælasta í brúðkaupum í dag segir Sigríður ekkert eitt vera vinsælla en annað, enda séu brúðkaupin sem hún skipuleggur afar ólík.

„Það er þó skemmtilegt að segja frá því að kransakakan er að ná meira flugi en áður og vilja næstum öll pörin okkar bjóða upp á hana í brúðkaupinu sínu. Þá hafa þau oft lesið einhvers staðar á netinu að þetta sé hin dæmigerða íslenska brúðarterta. Kransakakan er því orðin sjálfskipuð íslensk brúðarkaka, þó svo að okkur Íslendingum finnst það kannski ekki beint. En góð er hún,“ segir Sigríður létt í bragði.

Ljósmynd/Lárus Sigurðsson

Aðspurð hvort hún eigi sér eftirlætis brúðkaup, eða hvort einhver athöfn standi upp úr segir hún erfitt að gera á milli.

„Í þessari vinnu fjárfestir maður nokkuð tilfinningalega í hverju og einasta brúðkaupi. Eitt get ég þó nefnt og það er brúðkaup sem ég skipulagði þar sem athöfnin var haldin inni í Hjörleifshöfðahelli. Við settum upp stóla og ljósaseríur, sem gerði þetta allt saman svo rómantískt. Brúðkaupsgestir voru sóttir á gamalli rútu og vissi enginn hvert ferðinni var heitið. Að sjá andlitin á fólkinu þegar það kom að hellinum er ógleymanlegt. Lagið úr Jurassic Park ómaði svo um hellinn þegar brúðhjónin gengu inn, og það má segja að það hafi ekki verið þurrt auga á staðnum,“ segir Sigríður og bætir við að hún hafi fengið margar skrýtnar og skemmtilegar beiðnir í starfi sínu.

„Engin tvö brúðkaup Pink Iceland eru eins. Til dæmis höfum við haldið bæði brúðkaup með Hobbita-, Star Wars- og Game of Thrones-þema. Íslenski hesturinn hefur tekið þátt í mörgum athöfnum og langar fólk ýmist að koma ríðandi á hesti í athöfnina eða hafa hesta sem gesti í athöfninni. Það tók líka ansi langan tíma að finna prest sem var tilbúinn að setja á sig mannbrodda, taka sér ísexi í hönd og labba upp jökul til að sinna vígslunni þar,“ segir Sigríður að endingu.

Ljósmynd/Lárus Sigurðsson
Ljósmynd/Lárus Sigurðsson
Brúðkaup í Hjörleifshöfðahelli.
Brúðkaup í Hjörleifshöfðahelli. Ljósmynd/Amy Zumwait
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál