Sögðu gestunum að klæða sig eftir veðri

Ljósmynd/Íris Ann Sigurðardóttir

„Það kom aldrei til greina að halda hefðbundið brúðkaup í venjulegum sal. Þau eru líka voðalega skemmtileg, en ekki okkar,“ segir Sandra Ósk Sigurðardóttir en hún og eiginmaður hennar, Skafti Rúnar Þorsteinsson, héldu gullfallegt sveitabrúðkaup í fyrrasumar. 

„Við höfðum rætt það að þegar við myndum gifta okkur langaði okkur að gera eitthvað öðruvísi. Við erum bæði mikið fyrir útivist og það kom eiginlega aldrei annað til greina en að hafa brúðkaupið úti. Við skoðuðum ekki einn einasta sal,“ bætir Sandra við og þvertekur fyrir að það hafi verið mikið maus að skipuleggja brúðkaupið.
Sandra Ósk og Skafti Rúnar voru gefin saman á bryggjunni. …
Sandra Ósk og Skafti Rúnar voru gefin saman á bryggjunni. Þráinn Haraldsson gaf hjónin saman. Ljósmynd/Íris Ann Sigurðardóttir

„Við ákváðum að stress væri bannað og gerðum þetta með frekar litlum fyrirvara. Við trúlofuðum okkur á aðfangadag og fórum að skipuleggja þetta fljótlega eftir áramót. Síðan giftum við okkur tæpu hálfu ári síðar. Þetta kom ótrúlega vel út. Ég var með ákveðnar hugmyndir og vildi að þetta væri afslappað og myndi líkjast útilegu,“ segir Sandra Ósk, en brúðkaupið fór fram í Hvalfirði.

„Mér fannst svo gaman hvað allir gestirnir voru til í þetta. Við létum slá stórt tún og buðum fólki að gista í tjöldum, sem margir þáðu. Þetta var svolítið eins og útihátíð. Við giftum okkur síðan á lítilli bryggju niðri í fjöru. Það var ótrúlega hvasst, og við vorum næstum því búin að færa athöfnina inn. Við ákváðum þó að láta vaða. Við höfðum sagt gestunum að klæða sig eftir veðri, og við meintum það. Það var ekkert plan B.“

Ljósmynd úr einkasafni.

Eins og áður sagði voru hjónakornin gefin saman á lítilli bryggju í fjörunni, en veislan var haldin í nálægri hlöðu.

„Mamma mín er alger snillingur þegar kemur að skreytingum. Ég sýndi henni nokkrar hugmyndir sem hún tók alla leið. Hún stakk upp á því að við myndum nota gamla dúka á borðin, sem kom fallega út og tónaði við hlöðuna sem var frekar hrá. Skafti, sem er smiður, smíðaði bekki þar sem fólk gat tyllt sér og bar þar sem boðið var upp á bjór. Vinkona mín sá síðan um blómaskreytingarnar, en þær gerðu þetta fallegra og yndislegra en ég hefði nokkurn tímann getað ímyndað mér,“ segir Sandra, sem einnig notaðist við ljósaseríur til að lífga upp á hlöðuna.

Salurinn var fallega skreyttur.
Salurinn var fallega skreyttur. Ljósmynd/Íris Ann Sigurðardóttir

Þar sem brúðkaupið var fremur óhefðbundið sáu brúðhjónin enga ástæðu til þess að klæðast hefðbundnum fötum. Sandra valdi sér fallegan sumarkjól og Skafti sleppti kjólfötunum.

„Ég ákvað að klæðast ekki brúðarkjól, heldur sumarkjól. Ég féll alveg fyrir honum og endaði á því að panta hann á netinu. Okkur langaði ekki að vera í mjög formlegum fötum. Tengdamamma prjónaði síðan peysu á Skafta, en hann klæddist einnig kragalausri skyrtu og brúnum buxum,“ segir Sandra.

Skötuhjúin fóru einnig ótroðnar slóðir þegar kom að því að velja veitingar, en boðið var upp á grillaða hamborgara í aðalrétt, í eftirrétt var síðan prins póló, heitt kakó og Stroh borið á borð sem hjónunum fannst eiga vel við útihátíðarþemað. Þegar borðhaldinu lauk sá söngvarinn Eyþór Ingi Gunnlaugsson síðan um að halda uppi fjörinu.

Hjónakorn, sem og gestirnir, voru afskaplega lukkuleg með brúðkaupið enda var það einstaklega vel heppnað.

„Mér finnst ofboðslega gaman í brúðkaupum og finnst yndislegt þegar fólk er samkvæmt sjálfu sér. Skemmtilegustu brúðkaupin eru þau sem eru persónuleg. Alveg sama hvað það þýðir,“ segir Sandra Ósk að lokum.

Margrét Arnardóttir mundaði harmonikkuna.
Margrét Arnardóttir mundaði harmonikkuna. Ljósmynd úr einkasafni.
Ljósmynd/Íris Ann Sigurðardóttir
Brúðhjónin falleg og fín.
Brúðhjónin falleg og fín. Ljósmynd/Íris Ann Sigurðardóttir
Ljósmynd/Íris Ann Sigurðardóttir
Ljósmynd/Íris Ann Sigurðardóttir
Sandra Ósk og Skafti Rúnar héldu fallegt sveitabrúðkaup. Börnin þeirra …
Sandra Ósk og Skafti Rúnar héldu fallegt sveitabrúðkaup. Börnin þeirra þrjú, Þorsteinn Skaftason (2007), Helena Hulda Olsen (2008), og Tindur Skaftason (2013) voru auðvitað ekki fjarri góðu gamni. Ljósmynd/Íris Ann Sigurðardóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál