Hvernig á að halda flotta brúðkaupsveislu?

Margrét Rósa fær alltaf fagfólk til að búa til blómaskreytingar …
Margrét Rósa fær alltaf fagfólk til að búa til blómaskreytingar fyrir veislur í Iðnó.

Margrét Rósa Einarsdóttir staðarhaldari í Iðnó er þekkt fyrir að halda ansi flottar veislur. Iðnó hefur notið mikilla vinsælda fyrir brúðkaupsveislur og segir hún að veislurnar í dag séu miklu skemmtilegri en þær voru á árum áður. 

Margrét Rósa Einarsdóttir.
Margrét Rósa Einarsdóttir.

Margrét Rósa er lærður þjónn og hefur unnið á veitingahúsum og í kringum veislur í um 40 ár. Hún segir að veislur hafi breyst mjög mikið hérlendis síðustu 10-15 árin og í dag sé lagt miklu meira upp úr því að það sé skemmtilegt í veislum. Margrét Rósa hefur ráðið ríkjum í Iðnó síðustu 16 árin og hefur skipulagt óteljandi veislur þar sem ekkert hefur verið til sparað.

Þegar Margrét Rósa er spurð að því hvort veislur hafi breyst mikið á síðustu árum segir hún að það hafi orðið mikil breyting á veislum síðustu 10-15 árin.

„Í dag er spáð miklu meira í öll smáatriði. Þegar ég var að byrja að læra þjóninn man ég eftir því að þá var minna verið að spá í umgjörðina. Á síðustu árum hefur þetta breyst og fólk farið að tileinka sér erlenda siði sem gera veislurnar miklu skemmtilegri en þær voru,“ segir hún.

Þegar við ræðum um hvað skipti máli þegar flott veisla er haldin nefnir Margrét Rósa þennan „wow-factor“ sem sé svo mikilvægur.

„Ég er heppin að vera hér í Iðnó því salurinn er svo fallegur. Svo legg ég mikið upp úr því að það séu flottar blómaskreytingar í veislum, vandaður borðbúnaður og kertaljós. Ég er alltaf með lifandi blóm í brúðkaupum því þau skipta mjög miklu máli fyrir utan góðan mat og góð vín.“

Þegar gestir halda veislu í Iðnó hefur Margrét Rósa séð um „allan pakkann“ fyrir fólk. Hún hjálpar brúðhjónum að skipuleggja veisluna og svo fær hún fagfólk til að gera blómaskreytingar.

„Hjá mér eru sitjandi borðhaldsveislurnar vinsælastar. Við erum oft með veislur þar sem Íslendingur er að giftast útlendingi. Þá eru þær oft blandaðar og helmingur gestanna kemur frá útlöndum. Þá erum við stolt af því að bjóða upp á það allra besta og auðvitað íslenskt.“

Fallega lagt á borð.
Fallega lagt á borð.

Þegar ég spyr hana hvað það sé nefnir hún til dæmis íslenskt lamb og svo séu fiski- eða humarsúpur alltaf vinsælar. Í eftirrétt sé klassísk brúðarterta vinsæl með kaffinu.

Margrét Rósa segir að fólk sé oftast með grófa hugmynd um hvað það vill áður en hafist er handa við skipulagningu. Hún segist fara í gegnum alla veisluna með fólki þannig að það átti sig betur á aðstæðum og svo taka brúðhjónin endanlega ákvörðun.

„Ég mæli með því að fólk hafi góðan veislustjóra sem stýrir veislunni af röggsemi og svo þurfa pörin að vera sammála um hvernig þau vilja hafa hlutina.“

Aðspurð hvort hún hafi orðið vitni að skandal í brúðkaupsveislu vill hún lítið segja en endurtekur að veislustjórinn verði að vera ákveðinn svo það verði ekki nein mistök í ræðuhöldunum. „Það eru til dæmis mistök að hleypa gömlum, barnlausum frænda upp á svið sem elskar brúðina út af lífinu. Það getur spillt veislunni þegar frændinn getur ekki hætt að tala og dásama brúðina. Veislustjórinn þarf að gæta þess að það séu álíka margar ræður fyrir bæði hjónin, það séu ekki endalausar ræður um annan aðilann.“

Ef þú værir að fara að gifta þig í sumar, hvernig veislu myndir þú halda?

„Þar sem ég er á sextugsaldri myndi ég vilja hafa standandi brúðkaup í móttökustíl. Svo væri ég með koll fyrir mig svo ég gæti tyllt mér inn á milli. Þegar fólk er komið á minn aldur vill það hafa brúðkaupin standandi og ekki eins formleg,“ segir hún.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál